fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Sigrún segist hafa orðið fyrir hrottalegu ofbeldi á Stuðlum – „Mér var bara gjörsamlega misþyrmt þarna inni af starfsmönnum“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 6. september 2021 13:00

Sigrún Hannibalsdóttir. Mynd/Aðsend/Pjetur Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Hannibalsdóttir er 26 ára gömul. Þegar hún var 15-17 ára gömul var hún vistuð um fjörutíu sinnum á neyðarvistun Stuðla. Stuðlar eru meðferðastöð ríkisins fyrir unglinga á aldrinum 13 til 18 ára. Meðferðarheimilið tók til starfa árið 1994 og er enn starfandi í dag. Þar segist Sigrún hafa bæði orðið vitni að ofbeldi og orðið fyrir miklu og grófu ofbeldi af hálfu starfsmanna.

Forstöðumaður Stuðla, Funi Sigurðsson, segir í samtali við DV að hann líti alvarlegum augum á málið og sé á leið á fund með starfsmönnum ráðuneytisins vegna þess.

Týndu börnin

Sigrún ákvað að opna sig varðandi upplifun sína eftir að hafa hlustað á hlaðvarpsþáttinn Málið er um „Týndu börnin.“

„Það var talað um að það væru eiginlega engin úrræði fyrir þessi börn þannig þau lenda oft á Stuðlum. Þegar ég hlustaði á þennan þátt rifjuðust upp ótrúlega margar minningar. Ég var eitt af þessum týndum börnum,“ segir Sigrún og bætir við að hún hafi ekki verið í neyslu heldur var hún að flýja slæmar heimilisaðstæður. „Það voru engin úrræði fyrir mig og því var ég send á neyðarvistun á Stuðlum. Ég fór um fjörutíu sinnum vistuð á neyðarvistun frá 2010 til 2012.“

Hún greindi fyrst frá upplifun sinni í Facebook-hópnum Mæðra Tips og fékk í kjölfarið sendar sögur frá öðrum fyrrverandi vistmönnum á Stuðlum sem höfðu svipaða reynslu af meðferðarheimilinu. Í samtali við DV segir Sigrún að þegar hún kom fyrst inn á Stuðla hafi hún verið mjög brotin einstaklingur enda að koma úr mjög erfiðum aðstæðum. Það sem hún hefði þurft var stuðningur og umhyggja en það sem mætti henni hafi verið martröð líkast.

Segir starfsmenn hafa beitt sig ofbeldi

„Á Stuðlum var ég vitni að ofbeldi og varð sjálf fyrir svo ógeðslega miklu ofbeldi, sérstaklega af hálfu þriggja starfsmanna þarna,“ segir hún.

„Ég reif einu sinni kjaft, ég sagði einfaldlega: „Haltu kjafti.“ Þá tóku tveir starfsmenn mig niður, drógu mig á hárinu inn í einangrunarklefa, spörkuðu endalaust í mig og kýldu mig. Þeir pössuðu sig auðvitað á að það væri ekki myndavél á þeim. Ég var blá og marin á rifbeinunum og með risastór glóðarauga. Ég var svo læst inni í einhverja klukkutíma,“ segir Sigrún.

Hún segir að móðir hennar hefði tekið myndir af áverkunum og hefði síðan farið með hana á slysa- og bráðamóttöku til að fá áverkavottorð.

Sigrún Hannibalsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki eina skiptið

„Þessir tveir starfsmenn lögðu mig gjörsamlega í einelti. Ég var bara barn sem átti virkilega erfitt,“ segir hún.

Þetta hafi síður en svo verið í eina skiptið sem starfsmenn lögðu hendur á hana.

„Ég gæti skrifað heila bók um ofbeldið sem þeir beittu mig og sem ég varð vitni að gagnvart öðrum börnum þarna inni. Einu sinni var ég með strák þarna inni og hann var eitthvað að rífa sig við starfsmann, annan en þessa tvo sem lömdu mig, og það svoleiðis fauk í starfsmanninn. Strákurinn hljóp að stofunni og það varð eltingaleikur í kringum sófann. Þegar starfsmaðurinn náði honum að lokum var strákurinn tekinn niður og laminn í stöppu. Það var myndavél á þessu svæði og ég sagði frá atvikinu þegar næsta vakt mætti. Ég var sökuð um að ljúga, það var gargað á mig að ég væri sífellt að ljúga og það væri ekki hægt að taka mark á mér og ég ætti sko ekki að saka starfsmenn um eitthvað svona. Þessi sem sagði þetta við mig var einmitt einn af þeim sem beitti mig og aðra krakka stundum ofbeldi.“

Lögð í einelti

Sigrún segir að það hefðu ekki aðeins verið starfsmenn sem hefðu gert líf hennar óbærilegt, heldur einnig aðrir vistmenn. „Ég var eina stelpan með þremur strákum inni á neyðarvistun. Þeir lögðu mig í einelti, tóku matinn frá mér og borðuðu hann. Því miður voru þessir „vondu“ starfsmenn mikið á vöktum á þessu tímabili og gerðu ekkert í eineltinu þó þeir voru alveg meðvitaðir um það. Þar af leiðandi fór ég oft svöng að sofa á þessum tíma,“ segir Sigrún.

Blessunarlega hafi þó ekki allir starfsmenn hegðað sér með þessum hætti og Sigrún átti sér „uppáhalds starfsmann“ sem hún treysti fyrir upplifun sinni.

„Hann tók mat frá fyrir mig og leyfði mér að borða inni hjá honum. Þegar hann var á vakt tók hann mig inn á skrifstofu og lét mig gera spilagaldur sem ég kunni aftur og aftur, því hann ætlaði sér að finna út hvernig ég færi að þessu. Mér þótti mjög vænt um það. Hann og auðvitað nokkrir aðrir starfsmenn voru góðir við okkur en því miður held ég að þeir hafi alveg vitað af ofbeldinu sem hinir starfsmennirnir beittu okkur“

Sigrún segist eiga erfitt með að skilja hvernig það hefur aldrei verið talað um þetta áður. „Ég veit um aðra sem hafa sömu sögu að segja um vistun sína á Stuðlum á þessu tímabili. Ég hef beðið lengi eftir því að einhver opni sig um það,“ segir hún.

„Ég myndi aldrei senda barnið mitt inn á þennan ógeðslega stað. Þetta voru hræðilegir tímar.“

Sigrún Hannibalsdóttir. Aðsend mynd.

„Mér var bara gjörsamlega misþyrmt“

Sigrún opnaði sig um upplifun sína á Stuðlum í Facebook-hópnum Mæðra Tips og höfðu aðrar konur svipaða sögu að segja.

„Eftir að ég opnaði mig um upplifun mína komu margar aðrar konur fram, bæði skrifuðu við færsluna eða sendu mér einkaskilaboð. Við eigum það sameiginlegt að hafa orðið fyrir ofbeldi eða hafa verið vitni af einhvers konar ofbeldi af þessum starfsmönnum. Andlegu, líkamlegu og jafnvel kynferðisofbeldi. Ég er enn þá að vinna í sjálfri mér vegna alls konar sem gerðist í æsku. Ég var tekin af heimilinu og sett í svo miklu verri aðstæður. Mér var bara gjörsamlega misþyrmt þarna inni af starfsmönnum sem virkilega fengu eitthvað mikið út úr því,“ segir hún.

Að sögn Sigrúnar situr það fast í henni þegar þessir tveir áðurnefndu starfsmenn níddust á henni og hlógu á meðan.

„Þetta var bara skemmtun fyrir þeim. Hversu ógeðslegur er hægt að vera? Móðir mín ætlaði að tilkynna eitt atvik þar sem stór sást á mér en þeir hótuðu henni að þeir myndu kæra til baka þar sem þeir voru með áverka eftir mig, bit og klórför. Auðvitað barðist ég til baka með kjafti og klóm til að losna, þeir drógu mig á hárinu eftir gólfinu inn í einangrunarherbergið og þar héldu barsmíðarnar áfram.“

Sigrún segir að þegar hún hefði vitað að því að lögreglan væri að koma til að sækja hana og fara með hana á Stuðla reyndi hún oftast að strjúka að heiman. „Það endaði yfirleitt með því að ég gisti á stigagöngum, reyndi að finna blokkir þar sem það voru tröppur niður í geymslur því þá vissi ég að ég myndi ekki finnast. Ég tróð mér yfirleitt undir tröppurnar,“ segir hún.

„Ég var svo heppin að kynnast yndislegri konu sem gjörsamlega bjargaði mér. Hún tók mig að sér og í dag sér hún um Vinakot, sem er meðferðarúrræði fyrir þessi „týndu börn,““ segir Sigrún.

Meðferðarheimilið Stuðlar. Mynd/Pjetur Sigurðsson

Aðrar sögur

Hér að neðan má lesa nokkrar af sögunum sem Sigrún fékk í kjölfar Facebook-færslunnar. Sögunnar eru allar nafnlausar.

„Ég fór inn á neyðarvistun á Stuðlum. Ég man mjög vel eftir einu atviki. Tvær stelpur sem voru með mér inni lentu í slagsmálum og starfsmaðurinn beið heillengi með að stoppa það af. Hann skemmti sér konunglega að horfa á „tvær skvísur að slást“ eins og hann orðaði það. Það gerði mér ekkert gott að fara þarna inn og ég man voða lítið eftir vistuninni, frekar „traumatized“ eftir hana bara. Viðbjóðslegur staður og er svo sammála, mín börn fara sko ekki þarna inn!“

Önnur saga:

„Ég var líka ein af þessum stelpum sem fór þarna inn sirka 2013-16-17, man ekki alveg. Þetta hjálpar manni ekki neitt. Ég var bæði í neyðarvistun og meðferðarmegin. Það var mjög létt fyrir krakka að smygla dóti inn. Margir starfsmenn voru mjög óþægilegir eða bara leiðinlegir. Ég reif oft kjaft og var þá lokuð inni í herbergi eða inni á deild (eftir að það var kynjaskipt) eða í læsta klefanum þegar það var ekki kynjaskip. Myndi aldrei senda barnið mitt þangað, finnst ömurlegt að Laugalandi hafi verið lokað, það var svo gott úrræði.“

Þriðja sagan:

„Ég fór líka nokkrum sinnum þangað þegar ég var ung og það var ofbeldi hjá starfsmönnum og líka öðrum vistmönnum en ég lærði fljótt að ég þurfti sjálf að beita ofbeldi til að lenda ekki fyrir því frá öðrum krökkum þarna inni. Og ég fattaði aldrei hvað þessi staður hafði mikil áhrif á mig. Þessi staður hjálpar ekki börnum heldur er þetta geymsla fyrir „óþekk“ börn.“

Fjórða sagan:

„Ég var lítil stelpa, tekin niður af þremur sterkum karlmönnum og lamin fyrir eitthvað mjög lítið. Ég kom þarna inn út af heimilisofbeldi þar sem það þurfti að taka mig úr aðstæðunum. Ég hefði þarna þurft að einhver myndi taka utan um mig og segja að allt yrði í lagi, en nei alls ekki. Ég fékk samt að kynnast öllum neysluvinum mínum.“

RÚV fjallaði um ofbeldisvandamál

Árið 2011 greindi RÚV frá því að uppþot og ofbeldi væri sívaxandi vandamál á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu, þar á meðal Stuðlum.

„Yfirmenn Barnaverndarstofu kalla eftir öflugri stofnun til að sinna börnum í vanda. Niðurskurður og breyttar áherslur í meðferð unglinga hefur leitt til aukinnar hörku á meðferðarheimilum eins og Stuðlum […] Uppþot og ofbeldi er sívaxandi vandamál á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu. Um helgina var kallað eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála á Stuðlum,“ kom fram í fréttinni.

Þar kom einnig fram að Neyðarvistunin væri „raunverulega sprungin fyrir löngu síðan“ og að æ fleiri ofbeldismál kæmu upp.

Stuðlar bregðast við

DV hafði samband við Funa Sigurðsson, forstöðumann Stuðla. Hann tók við stöðunni fyrir um sex árum síðan, nokkrum árum eftir tíma Sigrúnar þar inni.

Funi sagði að hann hefði orðið var við færslu Sigrúnar í síðustu viku og hefði brugðist strax við.

„Ég fékk fregnir af færslunni, fékk ábendingu um að það væri færsla um ofbeldi sem átti að hafa átt sér stað á þessu tímabili. Mér brá og fékk að sjá færsluna og við erum að skoða þetta mál með ráðuneytinu. Við erum að kanna þetta,“ segir hann.

„Við tökum það alvarlega þær ásakanir sem komu fram og ég á fund með starfsmönnum ráðuneytisins á morgun. Ég er í rauninni að fara yfir allt það sem ég get,“ segir Funi og bætir við:

„Okkur finnst þetta náttúrulega ógeðslega leiðinlegt og við tökum það nærri okkur sem starfsmenn hér, svona ásakanir.“

Sigrún nafngreindi enga aðila í færslunni en deildi nafni með blaðamanni DV sem spurði Funa hvort sá starfsmaður væri enn starfandi á meðferðarheimilinu. Funi sagðist ekki vera viss hvort hann gæti svarað því af persónuverndarástæðum. Hann sagðist ætla að athuga málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“