fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Lýst yfir hættustigi – „Ég finn til með þeim sem komast ekki í burtu, þetta er hryllingur“ – UPPFÆRÐ FRÉTT

Ágúst Borgþór Sverrisson, Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 10. nóvember 2023 17:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Óli Hjörleifsson hefur yfirgefið Grindavík ásamt fjölskyldu sinni vegna jarðskjálftahrinunnar og yfirvofandi eldgoss. Rætt er við Sigurð hér neðar í uppfærðri fréttinni. 

Almannavarnir hafa fært sig á hættustig úr óvissustigi og fluglitakóði Veðurstofunnar hefur verið færður á appelsínugult.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við Vísir.is að allt bendi til að staðan sé að stigmagnast með líkum hætti og verði rétt fyrir gos.

Mikil jarðskjálftahrina er í gangi og finna íbúar í Grindavík stöðugt fyrir jarðskjálftum. Um hvort eitthvað sé að gerast núna segir Salóme við Vísir.is:

„Já og við erum að funda núna og ræða það sem við höfum og erum í sambandi við Almannavarnir og aðra vísindamenn um stöðuna og hvernig hún er.“

RÚV greinir frá því að engin merki séu enn um að kvika sé að leita upp á yfirborð.

Uppfært kl. 18:40: 

Grindavíkurvegi hefur nú verið lokað vegna stórrar sprungu sem myndast hefur á miðjum veginum. Vísir greinir frá. Meðfylgjandi eru tvær myndir frá lesendum af sprungunni á Grindavíkurvegi.

Sérfræðingar eru á því að gos gæti hafist eftir nokkrar klukkustundir eða nokkra daga.

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir ekki tilefni til að rýma Grindavík þrátt fyrir gífurlega skjálftavirkni undanfarnar klukkustundir.

Uppfært kl. 18:50 – Ekkert eldgos að byrja

Víðir Reynisson segir í viðtali við Stöð tvö að eldgos sé ekki yfirvofandi þrátt fyrir snarpa jarðskjálfta. Hann segir að miklar skemmdir hafi orðið á vegum og ábendingar borist um að hlutir hafi fallið úr hillum og sprungur orðið á húsum. Reynir segir (sjá Vísir.is): „Þetta gæti verið upphafið að því ferli sem við höfum verið að bíða eftir, að kvika brjóti sér leið til yfirborðs en það eru samt engar vísbendingar um að það sé að gerast enn. Þannig það er ekkert eldgos að byrja, alla vegana ekki á næstunni og engar rýmingar eða neitt slíkt.“

Uppfært kl. 19 – Ný upplýsingasíða

Almannavarnir hafa tekið í notkun nýja upplýsingasíðu í tengslum við jarðhræringarnar á Reykjanesi. Síðan er sérstaklega mikilvæg fyrir íbúa á svæðinu en hún inniheldur m.a. rýmingaráætlun fyrir Grindavík. „Íbúar á svæðinu eru hvattir til að huga að lausamunum sem gætu fallið við jarðskjálfta, sérstaklega að ekkert geti fallið á fólk í svefni. Sýna þarf aðgát vegna skriðuhættu við fjallshlíðar,“ segir á síðunni.

Grindavíkurvegur er lokaður vegna áðurnefndrar sprungu en aðrar leiðir til og frá Grindavík eru opnar. Er fært um Nesveg og Suðurstrandarveg.

Uppfært kl. 19:25:

Margir íbúar Grindavíkur eru að yfirgefa bæinn vegna hamfaranna. RÚV greinir frá. Grindavíkurvegur er lokaður en búist er við að hann verði opnaður innan tveggja klukkustunda.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við RÚV að ekki sé vitað til að neinn hafi slasast í jarðskjálftunum.

Uppfært kl. 19:33 – Hrundi úr hillum í Lyfju

Valgerður Vilmundardóttir, íbúi í Grindavík tók meðfylgjandi myndband á vinnustað hennar, Lyfju í Grindavík, undir lok dags en þar hrundu vörur úr hillum er stór skjálfti reið yfir.

Skjálfti
play-sharp-fill

Skjálfti

Valgerður birti jafnframt myndband sem sýnir eyðileggingu á heimili hennar eftir skjálftana:

grindavik skjalfti 2
play-sharp-fill

grindavik skjalfti 2

Uppfært kl. 20: 

Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir við RÚV að líklega séu einhverjir dagar frekar en klukkutímar í gos. „Við verðum að fylgjast með hvar skjálftavirknin er og hvernig hún þróast. Það getur tekið nokkra daga,“ segir Benedikt.

Miðað við hvar skjálftavirknin er núna er Grindavík ekki í hættu ef kvikan kemur þar beint upp.

Uppfært kl. 20:50 – „Þetta er bara hryllingur, það er engin pása, þetta er á hverri einustu sekúndu“

Sigurður Óli Þorleifsson hefur yfirgefið Grindavík ásamt fjölskyldu sinni og telur ekki öruggt að vera þar. Sigurður ræddi DV er hann ók Suðurstrandarveginn áleiðis í sumarhús fjarri Grindavík.

„Ég er bara núna að keyra Suðurstrandarveginn, við vorum reyndar svo lánsöm að við fundum bústað til að leigja um helgina, við vorum komin í bústaðinn en elsti sonurinn var heima þegar hættustigi var lýst yfir. Ég fór því eftir honum,“ segir Sigurður.

„Ég bý í Efrahópi, sem er kannski efsta gatan í bænum. Ég fékk góða hjálp og er búinn að ferja mikið af dóti sem ég kom fyrir í aðstöðu sem ég fékk. Svo gekk ég bara frá húsinu eins og hægt var og yfirgaf það.“

Sigurður segist taka einn dag í einu og veit ekki hvenær hann og fjölskyldan snúa til baka. „Núna er það bara einn dagur í einu og æðruleysisbænin,“ segir hann, en bústaðinn hafa þau yfir helgina og hafa ekki gert áætlanir lengra fram í tímann.

Aðspurður hvort það séu skjálftarnir eða hættan á hraunrennsli sem hann er að flýja þá segir hann að það sé hvorttveggja. „Ég hef verið nokkuð rólegur yfir þessu ástandi undanfarin ár og var vel innvinklaður í fyrsta gosið og fyrstu jarðhræringarnar sem bæjarfulltrúi. En svo frá og með aðfaranótt föstudagsins þá hefur verið beygur í manni og þessir skjálftar í dag, það er ekki hægt að bjóða neinum upp á þetta, þetta er bara hryllingur. Svo horfir maður á Víði í kvöldfréttunum tala um að það sé engin hætta þó að það sé hættustig. Það líður engum vel í Grindavík í dag, ég finn til með þeim sem eiga erfitt með að komast burtu, hér er til dæmis hjúkrunarheimilið Víðihlíð. Þetta er bara hryllingur, það er engin pása, þetta er á hverri einustu sekúndu.“

Sigurður segir að sérfræðingum beri ekki saman en sjálfur meti hann stöðuna þannig að best sé að fara burtu. „Það eru ólík sjónarmið hjá sérfræðingunum en ég held að allur sé varinn góður núna.“

Uppfært kl. 20:30:

Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í Vallaskóla á Selfossi, í íþrótthúsinu á Sunnubraut í Reykjanesbæ og í Kórnum í Kópavogi.
Einnig hefur verið sett upp söfnunarsvæði í íþróttamiðstöðinni við Austurveg í Grindavík.
Enn sem komið er hefur rýming ekki átt sér stað.

Uppfært kl. 21:05

Frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra: „Mjög skýr merki koma nú fram á mælum Veðurstofu um myndun kvikugangs til yfirborðs. Áfram eru mestar líkur á að kvika komi upp norðan vatnaskila við Sundhnúka og því mun hraun ekki renna til Grindavíkur í samræmi við hraunflæðilíkan sem keyrt var fyrr í kvöld. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu en verða uppfærðar um leið og þær liggja fyrir. HS Orka óskar eftir að Grindvíkingar hringi í HS Orku í síma 422 5200 ef þeir verða varir við flökt á rafmagni.“

Uppfært kl. 21.10:

Verslun Nettó í Grindavík lokaði fyrir kl. 18 í dag, en til stóð að vörutalning færi fram í versluninni í kvöld. Af henni verður þó ekki og eru allir starfsmenn farnir heim. Anna Sigurðardóttir starfsmaður tók þetta myndband rétt fyrir kl. 18, en hún segir daginn í dag þann allra versta í þessari jarðskjálftahrinu.

 

 

Uppfært kl. 21.35:

Í ljósi aðstæðna hefur verið tekin ákvörðun um að opna ekki Grindavíkurveginn fyrr en eftir að hann hefur verið skoðaður eftir stöðufund á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Hide picture