fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Brynja segir sína hlið á auðkýfingsmálinu – „Þetta allt saman hefur haft mikil áhrif á líf mitt og mömmu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 23. október 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vissi ekki að fjárgjafir væru skattskyldar, ég hreinlega vissi ekki af því fyrr en allur peningurinn var búinn. Mín staða var sú að þrátt fyrir þessar greiðslur þá átti ég aldrei neina  peninga, ég átti bara skuldir,“ segir Brynja Norðfjörð. Brynja er ein kvennanna þriggja sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir stórfelld skattsvik vegna þess að þær gerðu ekki grein fyrir fjárgreiðslum erlends auðmanns sem skattskyldum gjöfum á skattframtali.

Þess skal getið að ranglega hefur komið fram að allar skattkröfur í málinu, þar á meðal sekt til skattstjóra, hafi verið gerðar upp. Hið rétta er að kröfur vegna skulda eins sakborningsins, sem þáði mestu fjármunina af auðmanninum, hafa verið gerðar upp. Brynja staðhæfir hins vegar að skattkröfur á hana og móður hennar, sem einnig er sakborningur í málinu, hafi ekki verið gerðar upp.

Brynja vill gjarnan koma sögu sinni á framfæri í tengslum við þetta mál og rekur forsöguna aftur til æskuára sinna, er móðir hennar, sem er ein hinna þriggja ákærðu kvenna, kynntist erlendum auðmanni:

„Ég var sjö að verða átta þegar að við mamma fluttum til Miami eftir að mamma varð ástfangin af amerískum manni og ákvað að flytja til Miami til að vera með honum. Ári áður hafði mamma í ferð til Mónakó kynnst umræddum auðmanni og myndaðist í framhaldi sterk vinátta á milli þeirra. Hann bjó einnig í Flórída og þegar við fluttum út varð í framhaldi heilmikið samband við hann. Mamma fór að vinna hjá honum og ég var oft með henni, hann varð eins og annar pabbi, siðaði mig dálítið til því ég var óþekkur krakki. Ég elskaði að fara með mömmu í vinnuna.“

Bað móður hennar þrisvar

Brynja segir að maðurinn hafi haldið sambandi við þær mæðgur í mörg ár eftir að þetta samstarf tók enda. „Hann bað mömmu þrisvar sinnum um að giftast sér en hún neitaði honum alltaf því hún var ekki ástfangin af honum. Mamma hefði hæglega getað orðið ein ríkasta kona landsins með því að giftast þessum vini sínum. En það var ekki það sem hún vildi.“

Tímamót urðu í samskiptunum árið 2014:

„Árið 2014 hefur hann samband því hann var á leiðinni í aðgerð sem var lífshættuleg, hann fékk krabbamein í vinstra lunga. Hann sagði við okkur að við mamma hefðum aldrei notað hann eða beðið hann um peninga en hann vildi nú hjálpa okkur, en mamma var þá við það að missa fyrirtæki sitt. Mamma lenti í því að Hverfisgata var lokuð mánuðum saman árið 2014 þar sem hún var með fyrirtæki sitt. Þetta ástand gerði reksturinn afar erfiðan og nánast vonlausan. Allir peningar frá honum fóru í björgun á fyrirtækinu og mamma náði að greiða öllum birgjum það sem þeir áttu inni hjá henni. Mamma er af gamla skólanum og hefur eiginlega alltaf verið of heiðarleg til að þrífast í því samfélagi refa og hákarla sem viðskiptalífið er.

Ég átti bara skuldir og var í sambandi við barnsföður minn, við áttum saman tvö börn. Ég var í miklu basli en við að fá þessa peninga breyttist allt, ég gat gert upp allar mínar skuldir og við fjölskyldan fluttum til Tenerife.“

Eins og komið hefur fram í fréttum DV fékk Brynja, samkvæmt ákæru Héraðssaksóknara, 13,1 milljón frá auðmanninum margnefnda. Móðir hennar þáði frá honum samtals 54,4 milljónir króna á fjögurra ára tímabili. Þriðji sakborningurinn í málinu er ónefnd, fyrrverandi vinkona Brynju. Samkvæmt ákærunni fékk hún frá manninum 131,4 milljónir króna. Konan segir greiðslurnar hafa verið lán en ekki gjöf og því hafi hún gert grein fyrir þeim sem skuldum í skattframtali.

Telur vinkonuna hafa þegið fé á öðrum forsendum en þær mæðgurnar

Brynja er ósátt við þessa fyrrverandi vinkonu sína og telur hana hafa vélað fjármuni út úr manninum, á meðan fjárgjafir hans til hennar og móður hennar hafi grundvallast á áralangri vináttu og hjálpsemi hans. Brynja tók þessa konu, sem þá var 19 ára gömul, með í heimsóknir til mannsins á þáverandi heimili hans á Bahama-eyjum:

„Þessi stelpa flutti til mín af því aðstæður voru ekki góðar heima hjá henni, en ég var mikil vinkona pabba hennar. Ég tók hana að mér og mér var heiður að því, hún var litla stelpan mín. Hún flutti með mér til Tenerife og ég tók hana líka með mér til Bahama-eyja, þar sem hún hitti hann, þennan gamla góða vin okkar mömmu. Það hvarflaði ekki að mér það sem síðan gerðist í kjölfarið. Hún var að vinna á snyrtistofu á Tenerife með 2.200 evrur á mánuði fyrir vinnutíma frá 18 til 22 á kvöldin, enda var hún frábær sölukona. Hún var í fríu uppihaldi hjá mér og ég dekraði hana. Það leiddi til þess að hún varð með tímanum frek og tilætlunarsöm.

Á leiðinni í þriðju ferðina okkar til hans til Bahama-eyja sagðist hún ætla að biðja hann líka um peninga, því hún vissi að hann hefði aðstoðað okkur. Hún sagði að af því að hún þekkti hann núna líka, eins og við, þá teldi hún sig geta beðið um pening frá honum. Ég sagði nei, hún ætti ekki líka að fá peninga frá honum, fyrst ætti hún í það minnsta að verða tvítug og læra meira á lífið. Mér fannst hún vera orðin mjög heimtufrek. Hún var með stóra framtíðardrauma og ekkert annað komst að hjá henni.“

Brynja segir að stúlkan hafi svikið sig, stofnað til kynna við manninn og vélað af honum háar fjárhæðir. „Mun hærri fjárhæð en það sem hann hafði styrkt mig eða mömmu með“. Brynja segir að auðmaðurinn hafi síðar tjáð henni í símtali að umrædd stúlka væri orðin kærastan hans. „Ég upplifði þetta eins og svik af hendi þeirra beggja. Stelpan sem ég ól upp var þarna horfin, sem og ímyndin sem ég hafði af honum.“

Eftir þriðju ferð þeirra saman til Bahama-eyja sprakk allt í loft upp við heimkomuna til Tenerife: „Eftir að við lendum í Tenerife var þar fyrir barnsfaðir minn með fjórum öðrum fjölskyldumeðlimum. Ég bað hana um að fá herbergið hennar lánað á meðan þau væru í heimsókn. Hún trompaðist yfir þessu og fór til Íslands í fússi. Þar fór hún að eiga í samskiptum við umræddan vin okkar og laug því að honum að við hefðum komið illa fram við hana, að hún þyrfti að slíta sér út við þrif, en það gerði hún ekki, þurfti aldrei að lyfta fingri við heimilisstörf og lifði eins og prinsessa hjá mér.“

Peningar eru ekki allt

„Þetta allt saman hefur haft mikil áhrif á líf mitt og mömmu. Ég trúi því að allt sem gerist hafi tilgang og æðri máttur sé við stjórn. En þetta mál rændi mig traustinu á annað fólk. Það hefur líka leitt til þess að ég horfi á peninga öðrum augum. Það má segja að það hafi frelsað mig frá peningadjöflinum. Allir sem eiga mikla peninga eru í vandræðum með traust og það er engin furða. En hamingjan býr ekki í peningum þó að þeir hjálpi. En ég skil ekki þessa græðgi, þegar fólk vill tvær milljónir á meðan ein dugar vel. Munum að fólk skiptir meira máli en peningar og það er ekki gott að fara í gegnum lífið þannig að maður máli glansmynd af sér fyrir heiminn,“ segir Brynja Norðfjörð, sem þarf að svara til saka fyrir dómi vegna þessa máls á næstu mánuðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Í gær

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?