fbpx
Fimmtudagur 26.maí 2022
Pressan

Breska leyniþjónustan veitti New IRA þungt högg – Áhyggjur af tengslum við Miðausturlönd

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 9. september 2020 05:30

Londonderry. Mynd:EPA-EFE/NEIL HALL

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breska leyniþjónustan MI5 veitti klofningshópnum New IRA (Nýja IRA) þungt högg nýlega. New IRA er klofningshópur úr hryðjuverkasamtökunum IRA sem hafa lagt vopnaða baráttu gegn yfirráðum Breta á Norður-Írlandi á hilluna. New IRA hefur hins vegar haldið hryðjuverkum áfram og látið töluvert að sér kveða á undanförnum mánuðum. Atburðarásin er nánast eins og í góðri njósnamynd og er óhætt að segja að aðgerð Arbacia hafi gengið fullkomlega upp.

Samkvæmt friðarsamningi frá 1998 þá lögðu vopnaðar fylkingar á Norður-Írlandi, þar á meðal IRA, niður vopn og hættu vopnaðri baráttu. En innan IRA voru ekki allir sáttir við friðarsamninginn og 2012 var New IRA stofnað. Í samtökunum eru aðallega miðaldra menn, sem tóku þátt í átökunum fyrir 1998, og ungir og óreyndir menn með mjög róttækar skoðanir. Þeir eru aðallega frá Londonderry. Sumir af eldri meðlimunum hafa drepið lögreglumenn og breska hermenn.

Samtökin hafa á síðustu árum staðið á bak við mörg morð og árásir á lögreglumenn og fangaverði meðal annarra. Einnig eru samtökin grunuð um að hafa staðið á bak við hefndarárásir þar sem fólk hefur verið skotið í fótleggi eða hné vegna gruns um að það hafi ekki verið hliðhollt samtökunum og jafnvel svikið þau. Samtökin hafa viðurkennt að hafa staðið á bak við morðið á blaðakonunni Lyra McKee sem var skotin til bana í Londonderry 2019. Einnig er talið að samtökin hafi staðið á bak við fjölda misheppnaðra bílsprengjutilræða sem norður-írska lögreglan komst á snoðir um og náði að koma í veg fyrir. Það má kannski skýra með að MI5 hafði árum saman uppljóstrara í innsta hring New IRA.

New IRA myrti Lyra McKee 2019. Mynd:EPA-EFE/Brian Lawless / POOL

Uppljóstrarinn naut svo mikils trausts innan New IRA að hann sá um að finna og bóka örugg hús þar sem samtökin gátu haldið fundi og skipulagt hryðjuverk til að reyna að valda eins miklum óróleika og þau gátu. Hann fann húsin meðal annars í gegnum bókunarsíðuna booking.com. Þegar hann hafði bókað húsin fóru starfsmenn MI5 í þau og komu hljóð- og myndupptökubúnaði fyrir. Að fundum loknum fínkembdu starfsmenn MI5 húsin og lögðu hald á öll sönnunargögn, til dæmis sígarettustubba, diska og glös til að komast yfir lífsýni úr forystumönnum samtakanna. Að auki hlustuðu þeir á það sem fram fór á fundunum. Samkvæmt fréttum breskra og írska fjölmiðla þá voru árásir oft skipulagðar á þessum fundum. Einnig eru leiðtogarnir sagðir hafa kvartað og kveinað yfir að þeir fengu ekki aðgang að þeim vopnum sem IRA notaði í borgarastyrjöldinni, þar á meðal sprengiefninu Semtex og AK47 vélbyssum auk rússneskra vélbyssa. Forystumenn IRA höfðu sagt New IRA að samtökin „væru þess ekki verðug að fá vopnin“. Þetta hefur vakið upp spurningar um hversu mikið af vopnum hinar ýmsu fylkingar IRA eyðilögðu eins og lofað var í tengslum við friðarsamninginn.

Þegar lögreglan og MI5 létu til skara í lok ágúst voru 10 handteknir, þar af eru 7 ákærðir fyrir hryðjuverk. Meðal hinna handteknu eru helstu leiðtogar samtakanna. Það hefur vakið sérstakar áhyggjur að meðal hinna handteknu er læknir af palestínskum uppruna. Hann býr í Edinborg í Skotlandi. Segja saksóknarar að sumar hryðjuverkaárásirnar hafi átt að gerast í samvinnu við ein eða fleiri hryðjuverkasamtök frá Miðausturlöndum.

Höggið var þungt fyrir New IRA og eins og sagði í umfjöllun Belfast Telegraph þá „er búið að höggva höfuðið af slöngunni“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkin ætla að styrkja sig á Grænlandi – Ætla að setja pening í Thulestöðina

Bandaríkin ætla að styrkja sig á Grænlandi – Ætla að setja pening í Thulestöðina
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hakkararnir lýsa yfir öðru stríði

Hakkararnir lýsa yfir öðru stríði
Pressan
Fyrir 4 dögum

Grátt hár getur fengið fyrri lit aftur

Grátt hár getur fengið fyrri lit aftur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Bandaríkjamenn ætla sér að komast til botns í hvaðan fljúgandi furðuhlutir eru

Bandaríkjamenn ætla sér að komast til botns í hvaðan fljúgandi furðuhlutir eru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Eyðilagði hjónaband foreldra sinna – „Ég smitaði pabba af herpes“

Eyðilagði hjónaband foreldra sinna – „Ég smitaði pabba af herpes“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Höfða mál á hendur syni sínum af því að hann hefur ekki eignast börn

Höfða mál á hendur syni sínum af því að hann hefur ekki eignast börn