fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Misjafnar undirtektir við frumvarpi um dánaraðstoð – „Guð einn ræður“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. mars 2024 20:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint: Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um tugur umsagna hefur borist velferðarnefnd Alþingis um frumvarp til laga um dánaraðstoð sem er til meðferðar hjá nefndinni. Meirihluti umsagnanna er jákvæður í garð frumvarpsins en þó ekki allar. Þær sem jákvæðar eru vísa meðal annars til þess að menn eigi að fá að deyja eins og dýr ef ekkert er hægt að gera fyrir viðkomandi nema að lina þjáningar en í neikvæðum athugasemdum er meðal annars vísað til þess að ekki eigi að leyfa dánaraðstoð til að sjúklingar verði ekki byrði á sínum nánustu og einnig til þess að guð einn eigi að ráða því hvenær fólk deyr.

Það er Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru 4 af 5 þingmönnum flokksins.

Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að markmið lagannna verði að heimila einstaklingum sem glíma við ólæknandi sjúkdóm og búa við ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð og hins vegar að heimila læknum, að nánari skilyrðum uppfylltum, að veita slíka aðstoð. Lögin muni gilda þegar einstaklingur hafi að eigin frumkvæði lýst yfir afdráttarlausum og óvéfengjanlegum vilja til þess að njóta aðstoðar við að binda enda á líf sitt.

Skilyrði fyrir dánaraðstoð skuli vera að sjúklingur sem óskar eftir henni skuli vera lögráða og sjálfráða, vera þannig á sig kominn andlega að vera fær um að taka ákvörðun um að óska dánaraðstoðar, vera með ólæknandi sjúkdóm og upplifa ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu. Sjúklingur eigi aðeins rétt á að óska eftir dánaraðstoð fyrir sjálfan sig.

Læknum verður samkvæmt frumvarpinu heimilt að skorast undan því að veita dánaraðstoð.

Rétturinn til að deyja

Flestar umsagnir sem borist hafa um frumvarpið eru frá einstaklingum. Ein er þó frá Sjúkraliðafélagi Íslands. Lýsir félagið yfir stuðningi við frumvarpið. Í umsögninni segir meðal annars:

„Í störfum sínum hafa sjúkraliðar ætíð lagt mikla áherslu á sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga og telur að þetta frumvarp mæti vel slíku sjónarmiði. Þá er nálægð sjúkraliða yfirleitt mjög mikil við sjúklinga sína og skjólstæðinga og tekur því félagið undir að þörf er á slíku úrræði í íslenskri löggjöf. Með skýrum lagaramma væri hægt að skapa mannúðlegra umhverfi lífslokameðferðar og efla frelsi einstaklingsins að því er varðar eigið líf og líkama eins og segir í frumvarpinu.“

Lýður Árnason, læknir á Hrafnistuheimilunum, lýsir yfir stuðningi við frumvarpið og ritar meðal annars í umsögn sinni:

„Nálgast á dánaraðstoð sem mannréttindamál. Val eins um dánaraðstoð tekur einungis til hans sjálfs og leggur engar skyldur á aðra.“

Í öðrum umsögnum þar sem lýst er yfir stuðningi við frumvarpið er ekki síst vísað til þess að dýr hér á landi fái aðstoð við að deyja þegar ekkert sé hægt að gera fyrir þau nema að lina þjáningar og að það sama eigi að gilda um mannfólk.

Ein kona skrifar í sinni umsögn:

„Aðstoð við fólk sem er hljóðandi af verkjum mánuðum saman jafnvel árum og ekkert er hægt að gera, á að vera val þess sem kvelst og aðstandenda þeirra. Fólk sem liggur og ekkert framundan nema bið endalaus bið eftir að fá að deyja. Ég er aðstandandi og hef horf upp á fjölskyldumeðlimi unga sem aldna, biðja um að fá að deyja þegar læknisfræðin hafði ekki fleiri virk ráð. Aðstandendur upplifa mikinn vanmátt og oft í langan tíma. Ég þakka fyrir að umræðan er komin af stað og vona svo af öllu hjarta að skilningur og kjarkur sé á þingi fyrir þessu stóra og mikilvæga máli.“

Vald Guðs og skortur á umönnun

Eins og áður segir er meirihluti þeirra umsagna sem liggja fyrir um frumvarpið jákvæður en ekki allar.

Guðjón Sigurðsson formaður MND-félagsins lýsir í sinni umsögn áhyggjum af því að frumvarpið opni sjúklingum leið til að losna undan skorti á umönnun hér á landi og leið til að deyja fremur en að umönnun þeirra lendi á nánustu ættingjum:

„Allt of mörg dæmi sýna að fólk notar þessa leið til að sleppa sínum nánustu undan þrælahaldi ríkis og sveitarfélaga, það er að þau verði bundin yfir umönnun, án launa í mörg ár, eins og dæmin sanna,“ skrifar Guðjón og bætir við:

„Þetta er þörf umræða og engum vil ég svo illt að þjást að óþörfu, en ég bið um að tryggt sé að þetta verði aldrei notað í þeim tilgangi sem nefnt er hér að ofan.“

Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins, andmælir einnig frumvarpinu en hans umsögn er afar stutt og vísar, sem ekki kemur á óvart þegar um prest er að ræða, til æðri máttarvalda:

„Guð einn ræður – ekki menn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“