fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Sölvi Fannar flugtæklaði unglingsfanta í Breiðholti: „Eftir stóðu ég og fórnarlambið sem skalf á beinunum”

Hjálmar Friðriksson
Þriðjudaginn 25. febrúar 2020 15:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sölvi Fannar, lífskúnstner, leikari og líkamsræktargúrú, segist eitt sinn hafa orðið vitni að skelfilegri árás í Breiðholti sem minnir hann nokkuð á nú alræmt atvik í Hamraborg í Kópavogi. Margir hafa spyrt sig hví enginn skarst í leikinn þá. Það gerði þó Sölvi en hann segist hafa snúið fanta niður sem réðust á einn pilt.

„Eitt sinn bjó ég í Asparfelli í Breiðholti. Það var sumar. Barnung dóttir mín kallaði utan af svölum: „Pabbi, þú verður að koma!“ Hljóp út á svalir því ég hélt það hefði eitthvað komið fyrir hana. Hún reyndist vera í lagi en benti í miklu uppnámi út yfir svalabarminn. Sjónin sem mætti mér í bakgarði blokkarinnar rennur mér seint úr minni. Sönglandi hópur unglinga hafði slegið þéttan og ógnvekjandi hring utan um ungan dreng sem gat enga björg sér veitt á móti ofureflinu,“ lýsir Sölvi Fannar.

Börnin reyndust rasistar

Til að bæta gráu ofan á svart viðhöfðu ungmennin rasísk ummæli. „Enn meira hrollvekjandi var það sem drengirnir endurtóku nánast einróma: „Drepum svertingjann, DREPUM svertingjann!“ Hljóp eins og fætur toga út. Eftir því sem ég nálgaðist hópinn sá ég betur og betur drenginn sem hefur ekki verið meira en 9-10 ára gamall. Eins og í bíómynd bubblaði hvít froða út úr munninum á honum á meðan eldri unglingarnir sem voru líklega að nálgast bílprófsaldur ögruðu þeim yngri sem, að áeggjan þeirra eldri skiptust á að fara inn í hringinn og kýla og sparka í varnarlausan drenginn. Ekki ósvipað og agalausu eineltisfautarnir í myndskeiðinu,“ segir Sölvi.

Hann segist hafa tekið til sinna ráða. „Tók stefnuna á þrjá stærstu fantana og flug-tæklaði þá alla niður með stóru „faðmlagi“ (þó án þess að slasa þá) en það var nóg til þess að koma hópnum úr jafnvægi. Stóð sjálfur strax á fætur aftur og öskraði yfir hópinn að ef þeir myndu ekki drulla sér heim til sín strax þá væri MÉR að mæta. Hópurinn sem taldi rúmlega 10 í heildina tvístraðist og eftir stóðu ég og fórnarlambið sem skalf á beinunum, svo bókstaflega glömruðu tennurnar,“ segir Sölvi Fannar.

Svona hegðun stöðvast ekki af sjálfu sér

Hann bendir á að svona lagað stöðvist ekki með mjúkum orðum. „Hann var í svo miklu áfalli að hann gat ekki sagt mér hvar hann átti heima, kom ekki upp einu einasta orði. Það liðu allavega 10 mínútur þar til hann gat yfirhöfuð gengið og ég fylgdi í humátt á eftir honum heim að húsinu sem hann bjó í. Svona hegðun stöðvast ekki af sjálfu sér heldur krefst aðgerða. Réttast væri að lögreglan eða aðrir lögmætir aðilar gæfu hreinlega út leiðbeiningar hvernig við getum best brugðist við ef við verðum vitni að svona viðbjóði.“

Hann veltir fyrir sér hvort hegðun barnanna endurspegli sál samfélagsins. „Það þykir mér þó vægast sagt sérkennileg þróun í íslensku þjóðfélagi að það séu gerendurnir sjálfir sem eru að taka upp svona ofbeldismyndskeið og dreifa þeim síðan (sín á milli) á samfélagsmiðlum. Eða getur verið að þessi hegðun endurspegli gjörbreytingu Íslands og Íslendinga, eins og augun eru spegill sálarinnar þá eru börnin spegill heimilisins? „Vald spillir, en algjört vald spillir algjörlega.“ Bæði þolendur og gerendur þurfa á hjálp að halda en erfitt getur reynst að vinna sig í gegnum vegg afneitunar ekki bara þeirra sjálfra heldur einnig aðstandenda þeirra,“ segir Sölvi Fannar.

Hann minnir á að einelti sé ekki ný uppfinning. „Einelti er ekkert nýtt af nálinni og eins og önnur afbrigðileg hegðun þá getur það verið jafn algengt inni á heimilum, skólum og vinnustöðum, eins og hefur verið talsverð umfjöllun um í fjölmiðlum og þjóðfélaginu almennt. En hvernig er hægt að stoppa svona hegðun? Það virðist ekki vera nóg að einstaklingar frá börnum yfir í fullorðna stytti sér aldur sökum hörmulegra eftirkasta eineltis sem mörg fórnarlambanna búa við ævilangt, rétt eins og af öðru ofbeldi. Hvert og hvernig skilum við skömminni?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala