fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Kristín gagnrýnir forvarnastefnu harðlega – Lukkuriddarar herja á skólabörn með gagnslausar neyslusögur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 10. september 2019 15:41

Úr kvikmyndinni Lof mér að falla

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bíómyndir um fíkniefnaneyslu eru ekki góð forvörn og reynslusögur fíkla í skólaheimsóknum eru heldur ekki góð forvörn, segir Kristín I. Pálsdóttir, ein af talskonum Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Að virðist í tilefni sýningar sjónvarpsins á kvikmyndinni Lof mér að falla ritar Kristín nú nokkuð um málaflokkinn á Facebook-síðu sína og hafa skrif hennar fengið góðar undirtektir.

Um æskilegar forvarnir fyrir börn skrifar Kristín:

„Forvarnir sem beinast að börnum eiga aðallega að felast í því að láta börnunum líða vel, styðja þau sem höllum fæti standa, grípa strax fjölskyldur í vanda og styðja þær í tengslamyndun, með geðrænan vanda og fíknihegðun. Svo þarf að huga sérstaklega að því að ná til barna sem búa við ofbeldi og hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi því að þau eru í svo miklum áhættuhóp.“

Kristín gagnrýnir harðlega að mönnum sem eru nýhættir í neyslu sé hleypt inn í skólastofur til að opinbera reynslusögur sínar. Hún telur slíkar forvarnartilraunir vera gagnslausar:

„Forvarnir felast ekki í því að segja sögur af neyslu né í því að búa til bíómyndir um neyslu. Tilfinningalegt uppnám er heldur ekki forvörn. Það að senda fólk í skóla til að segja harmsögur úr neyslu er ekki forvörn. Þetta sýndu rannsóknir á níunda áratugnum fram á og þær hafa verið endurteknar með sömu niðurstöðu reglulega síðan. Reyndar ekki á Íslandi þar sem allt sem snertir fíknivanda virðist tengjast einhverjum kraftaverkakenningum en ekki rannsóknum eða staðreyndum.

Það er ekki gott þegar hið opinbera gefur slíkri starfsemi fararleyfi og það sem verra er þá ýtir það undir það að allskonar lukkuriddarar herji á skólabörn með sínar gagnslausu neyslusögur. Fréttir berast nú af því að skólar séu að opna dyr fyrir mönnum sem eru búnir að vera edrú í nokkrar vikur sem vilja bjarga börnunum með sögum sínum.“

Kristín bendir á að verið sé að færa fé úr mikilvægum verkefnum varðandi einelti og gagnreynda forvarnarstarfsemi og veita því til vafasamra verkefna:

„Þá skilst mér að verið sé að færa fé úr mikilvægum verkefnum varðandi einelti og gagnreynda forvarnarstarfsemi inn í forvarnaverkefni sem framkvæmd eru af fólki sem ekki er með kennsluréttindi né sérþekkingu á forvörnum. Mér finnst það algjört ábyrgðarleysi af embættismönnum og stjórnmálamönnum að ýta undir þessar hugmyndir og vona að fólk fari að rakna úr rotinu.

Kristín undirstrikar mikilvægi fagmennsku í forvarnarstarfsemi og að fjármunir séu notaðir í úrræði sem virka. Tilfinningassemi sé ekki lausnin:

„Ég veit að fólk vill vel en það er embættismanna og skólakerfisins að búa til og fylgja gæðaviðmiðum. Það er okkur svo eðlislægt þegar við verðum fyrir áföllum að vilja hjálpa öðrum. Það er oft hluti af sorgarúrvinnslu. Ég hef sjálf misst barn og þekki þá tilfinningu að vilja láta gott af mér leiða í kjölfarið og finna einhvern tilgang.

Við viljum líka trúa því að dramatískar sögur og töluleg gögn hafi áhrif á börn og unglinga. Hins vegar sýna rannsóknir að þó að slíkar sögur spili inn á tilfinningalíf þeirra þá tengja þau þær ekki við sig. Þau eru ekki þessar harmsögur þó að þau séu aðeins að fikta, það eru hinir, ekki þau.

Það er bara ótrúlega mikilvægt að fjármunir í þessum málaflokki séu notaðir í úrræði sem sýnt hefur verið fram á að virki eitthvað en ekki eitthvað sem að tilfinningar okkar vilja að virki.

Við erum enn föst í gamla Minnesota-módelinu frá sjötta áratug 20. aldar og trúum því að þeir sem hafa lent í vandanum séu með lausnina á honum. Þó að auðvitað eigi að hlusta á fólk og hafa það með í ráðum verðum við að nýta vísindin þarna eins og með sykursýki og hjartaáföll.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu