Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sýndi frábæra frammistöðu í kvöld þegar liðið vann stórsigur, 5-0, gegn Aserbaídsjan í undankeppni HM 2026.
Frá fyrstu mínútu réðu strákarnir okkar ferðinni og gáfu gestunum lítið sem ekkert færi á að komast inn í leikinn. Ísland skoraði eitt mark í fyrri hálfleik.
Það kom undir lok fyrri hálfleiks þegar Guðlaugur Victor Pálsson stangaði knöttinn í netið.
Frammistaða Íslands var frábær í síðari hálfleik þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvö, Albert Guðmundsson eitt og Kristian Nökkvi Hlynsson eitt.
Vondu fréttirnar úr leiknum er að Albert meiddist þegar hann skoraði mark sitt, fékk hann þungt högg á hægri ökklann og gat ekki haldið leik áfram.
Um var að ræða fyrsta leik í undankeppni HM og er Ísland á toppi riðilsins með þrjú stig líkt og Frakkar sem unnu Úkraínu í kvöld. Ísland heimsækir Frakkland á þriðjudag í París.