fbpx
Sunnudagur 06.október 2024
Fréttir

Íslandsvini úthýst af Schengen-svæðinu vegna lögreglusektar – „Þau vilja gera mig atvinnulausan og heimilislausan“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 2. september 2024 20:00

Brian McMenemy. Mynd: Aðsend.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Manni sem hefur starfað á Íslandi reglubundið í 20 ár og hefur sterk tengsl við íslenskt samfélag hefur verið vísað frá landinu og bannað að koma hingað aftur í tvö ár. Það sem meira er, maðurinn hefur verið settur í fimm ára komubann til landa Schengen-svæðisins. Allt virðist þetta stafa af þeirri ákvörðun mannsins að neita að greiða lögreglusekt í Noregi.

Maðurinn sem hér um ræðir heitir Brian McMenemy, 48 ára gamall, hálfur Skoti og hálfur Norðmaður. Hluta af furðulegum vandræðum Brians má rekja til þess að er Brexit öðlaðist gildi og Skotland, sem hluti af Bretlandi, gekk úr ESB, þá viðurkenndu norsk yfirvöld ekki tvöfalt ríkisfang Brians en líta svo á að hann sé skoskur. Með Brexit hvarf Skotland enn fremur af Schengen-svæðinu. Brian á norska móður og fleiri nákomna ættingja í Noregi auk þess sem hann er uppalinn í Noregi, gekk þar í skóla og talar reiprennandi norsku. Hann hefur lítið sem ekkert dvalist í Skotlandi undanfarna áratugi og hefur lítil tengsl þar. Atvinna hans síðustu tuttugu árin hefur hins vegar fyrst og fremst verið á Íslandi en hann hefur ár eftir ár unnið á íslenskum fiskveiðiskipum við góðan orðstír. Brian segir að yfirvöld séu núna með lygum og rangfærslum að hafa af honum atvinnuna og gera hann heimilislausan.

„Ég hef aldrei brotið íslensk lög. Það sem ég hef gert hér er að vinna fyrir mér og borga skatta,“ segir Brian í viðtali við DV en hann hafði samband við fjölmiðilinn og óskaði þess að fá að segja sögu sína. DV hitti Brian og íslenskan vin hans á krá í Austurstræti að kvöldi sunnudagsins 1. september. Daginn eftir átti Brian bókað flug frá landinu en það fór þó öðruvísi en á horfðist.

DV hefur undir höndum ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa Brian frá landinu og setja hann í tveggja ára endurkomubann. Jafnframt er í gildi norskur úrskurður þess efnis að honum sé óheimilt að koma til landa Schengen-svæðisins í fimm ár. Úrskurður Útlendingastofnunar byggir meðal annars á upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði. Brian segir hluta af þeim upplýsingum vera uppspuna og þar hafi lögregla gerst sek um meiðyrði gegn sér með því að saka hann um afbrot sem aldrei hafi átt sér stað.

Neitar að borga lögreglusekt í Noregi

Vandræði Brians hófust með afskiptum lögreglumanna af honum í miðborg Bergen í Noregi. Hann hafði þá setið að sumbli og var á gangi er lögreglumaður fyrirskipaði honum að fara heim og yfirgefa miðborgina. Stuttu síðar handtóku lögreglumenn hann er hann var staddur á strætisvagnabiðstöð í miðborginni og sökuðu hann um að óhlýðnast fyrirskipuninni. Brian segist hafa farið á biðstöðina til að taka strætisvagn úr bænum, þ.e. hann hafi einmitt verið að fara að tilmælum lögreglu. Hann var dæmdur til sektargreiðslu fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Hann neitaði að borga sektina þar sem hann taldi hana tilhæfulausa. Það leiddi til þess að honum var vísað frá Noregi og var dæmdur í endurkomubann til Schengen-svæðisins til fimm ára. Þetta gátu norsk yfirvöld gert í krafti þess að eftir Brexit er Brian ríkisfangslaus í Noregi, hann hefur eingöngu skoskt ríkisfang, þó að hann sé eins og áður sagði uppalinn í Noregi, eigi norska móður og hafi búið í Noregi meginhluta ævinnar.

Áðurnefndur íslenskur vinur Brians segir við blaðamann að honum þyki þessi ákvörðun norskra yfirvalda vera með eindæmum. „Þarna er maður rændur ótrúlega miklu ferðafrelsi og atvinnufrelsi út af einni lögreglusekt, það eru 27 Evrópuríki í Schengen sem hann getur ekki farið til.“

Brian viðurkennir að hann geti verið þrjóskur en hann sé prinsippmaður. Það lýsi afstöðu hans til lögreglusektarinnar örlagaríku. „Ég mun aldrei borga þessa sekt,“ segir hann harðákveðinn.

Vandræði Brians á Íslandi hófust þann 17. ágúst síðastliðinn. Hann kom þá með frystitogara til Ísafjarðar, gekk inn á lögreglustöðina þar og spurði hvar hægt væri að fá gistingu í bænum. Hann framvísaði skilríkjum. Nokkru eftir að Brian hafði yfirgefið lögreglustöðina og var að leita sér að gistingu veitti lögregla honum eftirför og handtók hann síðan. Honum hafði verið flett upp í kerfinu og í ljós kom að norsk yfirvöld höfðu bannfært hann af Schengen-svæðinu. Brian sat í varðhaldi á Ísafirði í nokkra daga og var síðan úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Fangelsinu á Hólmsheiði. Brian segist aldrei hafa brotið íslensk lög og því þykir honum hart að hafa verið fangelsaður með harðsvíruðum afbrotamönnum.

Sakar lögregluna á Ísafirði um ósannindi

DV hefur undir höndum ákvörðun Útlendingastofnunar frá 29. ágúst um brottvísun Brians frá landinu og tveggja ára endurkomubann. Brian hefur ýmislegt við málsatvikalýsingu í ákvörðun stofnunarinnar að athuga. Þar segir til dæmis að bæði sænsk og norsk stjórnvöld hafi gefið út endurkomubann á hann. Brian staðhæfir hins vegar að hann hafi undir höndum pappíra sem staðfesti rétt hans til að dveljast í Svíþjóð á þeim forsendum að þar býr sonur hans sem er undir lögaldri, eða 16 ára.

Enn alvarlegri þykir honum hins vegar vera eftirfarandi klausa í úrskurðinum:

„Kvaðst Brian Mcmenemy hafa dvalið hér á landi frá því í janúar eða febrúar 2024 þegar lögregla hafði afskipti af honum 22. júní 2024. Kemur þar einnig fram að lögregla hafi haft afskipti af Brian Mcmenemy þegar hann ók ökutæki og framvísaði Brian Mcmenemy grunnfölsuðu ökuskírteini gagnvart lögreglu“ (feitletrun DV).

Brian segir að umrætt atvik hafi aldrei átt sér stað. Hann hafi verið staddur úti á rúmsjó við vinnu þegar þetta á að hafa gerst. Hann segist raunar aldrei hafa ekið bíl á Ísafirði, þar sem atvikið á að hafa átt sér stað, og raunar keyri hann örsjaldan. Hann eigi hins vegar til gilt ökuskírteini.

Vinur Brians segir þetta vera grafalvarlegt athæfi af hálfu lögreglunnar. „Það er verið að saka manninn þarna um skjalafals sem er alvarlegt afbrot. Hvers vegna var hann þá ekki handtekinn ef þetta gerðist í raun og veru? Svo senda þeir þetta á Útlendingastofnun þegar hann er að reyna að fá því hnekkt að vera sendur úr landi. Þeir virðast grípa til ósanninda til að koma höggi á manninn.“

„Þetta eru grófustu lygarnar í þessu öllu saman,“ segir Brian sem segist staðráðinn í að stefna yfirvöldum fyrir dóm vegna þessa.

„Það eru svo margar lygar í þessum úrskurði, ég vil stefna þeim og láta þá gjalda þeirra. Það þarf að afhjúpa allar þessar lygar,“ bætir hann við með þungri áherslu.

Vinur hans segir: „Það er verið að reyna að gera hann að glæpamanni, það er verið að saka hann um glæp sem engin sönnun er fyrir. Það er ekkert grín að vera sakaður um glæp sem þú hefur ekki framið.“

Tekið skal fram að DV getur hvorki fullyrt af eða á um hvort þessi atvikalýsing lögreglunnar á Vestfjörðum sé rétt eða röng. DV hafði samband við Helga Jensson, lögreglustjóra á Vestfjörðum, og bar málið undir hann. Helgi sagðist kannast við mál Brians en lögregla gæti ekki veitt upplýsingar um einstök atvik af þessu tagi. Hann þáði samt boð blaðamanns um að fá senda skriflega fyrirspurn um málið. Í fyrirspurninni er spurt hvort hugsanlega hafi mistök átt sér stað af hálfu lögreglunnar við þessa upplýsingagjöf til Útlendingastofnunar. Einnig er spurt hvort DV geti fengið nánari upplýsingar um málið. Greint verður frá svörum lögreglustjóra þegar og ef þau berast.

Reyna að gera hann atvinnulausan og heimilislausan

Brian á að baki áhugaverðan ef ekki glæstan starfsferil. Hann var lengi í sérsveitum breska hersins og segir hann þau störf hafa reynt mjög á sig andlega. Hann hefur einnig starfað sem leikstjóri áhættuatriða við kvikmyndagerð hjá Netflix. Einnig hefur hann starfað með íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Brian bendir á, til marks um sterk tengsl hans við landið, að hann eigi fjölmarga vini og samstarfsfólk á Íslandi. „Meira segja maðurinn sem á þessa krá er vinur minn,“ segir hann en DV sat með Brian og vini hans á The Drunk Rabbit í Austurstræti á sunnudagskvöldið.

Þess má síðan geta að yngri sonur Brians, 16 ára, sem býr í Svíþjóð, var getinn á Íslandi, en móðir hans er sænsk. Brian á síðan 26 ára gamlan son í Noregi og 21 árs dóttur sem býr í Sviss.

Helsti starfi Brians undanfarna tvo áratugi hefur hins vegar verið sjómennskan undan ströndum Íslands. Fátt virðist skipta hann meira máli í lífinu en þetta starf. Hann hefur haft þá rútínu að sækja sjó frá Íslandi í um sex mánuði í einu og verja síðan restinni af árinu í Noregi og Svíþjóð. Þegar gengið hefur á fé hans hefur hann síðan komið aftur til Íslands og ráðið sig á skip. „Ég tek starfið mitt sem sjómaður mjög alvarlega og skipstjórinn er mjög ánægður með mig. Ég er með mikinn sjálfsaga þegar kemur að þessari vinnu og hún er mér allt.“

Brian kemst við þegar hann ræðir um sjómennskuna á Íslandi því hún stendur hjarta hans nærri. „Fiskveiðar björguðu lífi mínu. Ég var svo illa farinn eftir veruna í breska hernum og sjómennskan kom jafnvægi á sálina, kom mér aftur á fæturna. Þetta vilja yfirvöld taka af mér. Þau vilja gera mig atvinnulausan og heimilislausan. Ég segi við þau: Þið reynið að eyðileggja líf mitt og ég sætti mig ekki við það.“ Hann er staðráðinn í því að leita réttar síns. „Ég vil afhjúpa lygar þeirra og spillingu. Ég ítreka einu sinni enn að ég hef aldrei brotið íslensk lög. Einu lögin sem ég hef brotið snúast um að borga ekki þessa sekt í Noregi.“

Vinur Brians bendir á að hann hafi greitt skatta og skyldur á Íslandi árum saman og sé harðduglegur í vinnu. Hann sé síður en svo dæmi um útlending sem leggist upp á kerfið hér eða sé almennt til vandræða. Hann hafi sterk tengsl við land og þjóð og fráleitt sé að meina honum að vera hér út af lítilfjörlegri lögreglusekt í Noregi, hvað þá að gera hann burtrækan frá öllu Schengen-svæðinu. Málið hljóti að vera einsdæmi.

„Hann gerði þau mistök að sækja ekki um atvinnuleyfi hér á landi eftir að Brexit öðlaðist gildi. Hann hefði átt að gera það en þetta eru bara mistök,“ segir vinur Brians sem finnst yfirvöld í Noregi og Íslandi hafa meðhöndlað mál vinar hans af óbilgirni og óheiðarleika.

Þess má geta að við vinnslu þessarar fréttar í dag fékk DV þau tíðindi frá Brian að hann hefði verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli í morgun er hann ætlaði að fljúga til Danmerkur. Ástæðan er sú að honum er ekki heimilt að koma til Danmerkur. Hann bókaði flug þangað á þeim forsendum að hann hefði tíu daga til að yfirgefa Schengen-svæðið. Framhald málsins er óljóst sem stendur en þegar þessi orð eru skrifuð er Brian enn á landinu og í haldi lögreglu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Engin miskunn gegn eftirlýstri móður – Verður framseld og þarf að sitja í fangelsi

Engin miskunn gegn eftirlýstri móður – Verður framseld og þarf að sitja í fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki