Susan Wojcicki, fyrrum forstjóri tæknirisans Youtube til níu ára, er látin 56 ára að aldri. Wojcicki var eitt af stóru nöfnunum í Sílikondalnum svokallaða í Kaliforníu þar sem helstu tæknifyrirtæki heims reka starfsemi sína.
Wojcicki var náin samstarfskona Larry Page og Sergey Brin, stofnenda Google, og var einn af fyrstu starfsmönnum þess fyrirtækis þar sem hún lék lykilhlutverk. Hún leigði til að mynda stofnendunum bílskúrinn sinn þar sem fyrirtækið var stofnað árið 1998.
Árið 2006 lagði hún það til við stofnendurna að Google myndi kaupa annað öflugt fyrirtæki, Youtube, sem varð raunin nokkru síðar fyrir 1.65 milljarða bandaríkjadali. Hún tók svo við stjórnartaumunum í Youtube árið 2014 og gegndi því starfi til ársins 2023 þegar hún dró sig í hlé af persónulegum ástæðum. Árið 2015 var hún meðal annars á lista tímaritsins TIME yfir 100 áhrifamestu manneskjur veraldarinnar.
Wojcicki hafði glímt við lungnakrabbamein undanfarin tvö ár og það var banamein hennar. Hún átti fimm börn með eftirlifandi eiginmanni sínum, Dennis Troper. Sonur hjónanna, Marco, fannst látinn á heimavist Berkeley-háskóla í febrúar á þessu ári en banamein hans var of stór skammtur af fíkniefnum. Hann var aðeins 19 ára gamall og var fráfall hans mikið áfall fyrir Wojcicki og fjölskyldu hennar.