„Ráðherrar VG verða frá og með morgundeginum almennir þingmenn og munu nálgast þau brýnu mál sem nauðsynlegt er að ljúka á Alþingi af ábyrgð og skyldurækni. Ég hef fulla trú á þinginu, það hefur áður tekist á við flókna stöðu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, í yfirlýsingu síðdegis í gær.
Um er að ræða fordæmalausa ákvörðun og bendir flest til þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks muni skipta með sér verkum næstu vikurnar.
Ingibjörg Sólrún sagði í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hún gæti ekki lengur orða bundist þegar kemur að VG og pólitísku erindi þeirra.
„Í heil 7 ár hafa þau látið sér vel líka að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og staðið fyrir pólitískri stefnu sem var hvorki græn né til vinstri. Nú er stjórnin í andarslitrunum og þá fyllast þau heilögum anda og vilja alls ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum í starfsstjórn í 6 vikur! Hvernig á maður að skilja þetta? Í þessu endurspeglast skýrar en oft áður að hjá VG er ímyndin allt en inntakið aukaatriði.“