Íþrótta og tómstundaráð Reykjanesbæjar ályktaði í dag um málefni Glímudeildar UMFN á fundi sínum. Var það niðurstaða ráðsins (Friðþjófur Helgi Karlsson formaður, Davíð Már Gunnarsson, Hjördís Baldursdóttir, Marta Sigurðardóttir og Sindri Kristinn Ólafsson) að úthýsa glímudeildinni úr Bardagahöll Reykjanesbæjar, sem staðsett er að Smiðjuvöllum 4 í Njarðvík. Þar með er deildin orðin húsnæðislaus.
Í ályktun ráðsins segir:
„Það er samdóma álit íþrótta- og tómstundaráðs að fv. Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir hafi ekki lengur aðstöðu í Bardagahöll Reykjanesbæjar að Smiðjuvöllum 5.
Í ljósi þess að ekki er um formlegt íþróttafélag að ræða, hvorki undir starfsemi Íþróttabandalags Reykjanesbæjar né Ungmennafélagsins Njarðvíkur, ber íþrótta- og tómstundaráði ekki nein lagaleg skylda að hýsa áhugamannafélag.
Reykjanesbær hefur auk þess fengið lögfræðiálit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þarsem eftirfarandi kemur meðal annars fram:
„Hvað önnur félög varðar, s.s. áhugamannafélög, þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um skyldu sveitarfélaga til að útvega þeim húsnæði. Sveitarfélögum er það hins vegar heimilt svo fremi sem það skerði ekki getu sveitarfélagsins til að sinna Iögskyldum verkefnum.“
Iðkendum í bardagahöllinni hefur fjölgað umtalsvert, ekki síst eftir að börn og ungmenni frá Grindavík, sem nú eru búsett í Reykjanesbæ, hófu æfingar með íþróttafélagi sem hefur aðstöðu í húsinu.
Ítrekaðar tilraunir íþrótta- og tómstundaráðs til að koma á starfsfriði hafa ekki tekist og þ.a.l. sér íþrótta- og tómstundaráð enga aðra kosti í stöðunni en að upplýsa að fv. Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir hafi ekki lengur aðstöðu í Bardagahöll Reykjanesbæjar. Verði ákvörðun þessi staðfest af bæjarráði Reykjanesbæjar er óskað eftir að fv. Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir fjarlægi búnað sinn úr bardagahöllinni innan fjögurra vikna frá fundi bæjarráðs.“
DV bar ályktunina undir Guðmund Stefán Gunnarsson, stofnanda Glímudeildar Njarðvíkur. Hann furðar sig á vinnubrögðum ráðsins:
„Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Íþrótta- og tómstundaráð ætti að geta sýnt fram á þessi slæmu samskipti og e.t.v. sýnt fram á tilraunir sínar. Það hefur að minnsta kosti enginn svarað fyrirspurnum deildarinnar né hafa forsvarsmenn deildarinnar fengið fund með bæjarráði eða forseta bæjarráðs,“ segir Guðmundur og bætir við að deildin hafi einmitt sagt sig úr UMFN til að fá frið.
„Þetta eru stórundarleg vinnubrögð að mati glímudeildarinnar,“ segir Guðmundur.
DV hefur allt frá árinu 2022 fjallað um deilur í tengslum við starfsemi deildarinnar. Þá var stofnandi deildarinnar, Guðmundur Stefán, sakaður um að hafa tekið keppnisdýnur í heimildarleysi. Á þeim tíma var ljóst að grunnt var á því góða í samskiptum UMFN og glímudeildarinnar sem þá starfaði innan banda félagsins.
„Ég er búinn að vera í 11 ár í þessu sjálfboðaliðastarfi og er fyrir löngu kominn með leiða, ekki síst út af öllum þessum árásum sem ég verð fyrir, en ég get ekki skilið deildina eftir svona allsbera,“ segir Guðmundur á þessum tíma við DV.
Í október árið 2023 greindi DV síðan frá því að stjórn UMFN hefði ákveðið að leggja niður glímudeildina. Eftir það tók deildin að starfa utan félagsins en undir merkjum Íþróttafélagsins Sleipnis, og halda æfingar í Bardagahöll Reykjanesbæjar sem Íþrótta- og tómstundaráð hefur nú ákveðið að úthýsa þeim úr.
Stjórn UMFN sagði að deilur og trúnaðarbrestur væru ástæðan fyrir því að ákveðið hefði verið að leggja niður deildina. Glímudeildin sakaði UMFN hins vegar um yfirgang og að skapa eitrað andrúmsloft.
Í mars á þessu ári greindi DV síðan frá því að glímudeildin hefði kært formann UMFN, Ólaf Eyjólfsson, fyrir fjárdrátt. Um þetta sagði Guðmundur Stefán í samtali við Víkurfréttir sem DV vitnaði til:
„Ástæðan fyrir því að við kærum formann félagsins er raunverulega sú að hann byrjar á því að senda póst á RSK og ætlar að leggja niður deildina, mig minnir að þetta hafi verið á föstudegi. Á mánudegi reynir hann að loka reikningum deildarinnar og færa peningana yfir á aðalstjórn.“
Vísaði Guðmundur Stefán í lög UMFN, en í 29. grein þeirra segir að eignir deildar sem lögð er niður skuli renna í aðalsjóð eftir fimm ár.
Óvíst er hvort útspil Íþrótta- og tómstundaráðs um að úthýsa glímudeildinni úr bardagahöllinni verði til þess að binda endi á starf hennar. Hún hefur áður komist í gegnum mikinn mótbyr og haldið starfsemi áfram þrátt fyrir ágjafir.