fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Eiríkur segir að orðið „starfsfólksfundir“ sé eðlilegt

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. mars 2023 15:00

Eiríkur Rögnvaldsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir prófessorar emirite, þeir Eiríkur Rögnvaldsson og Njörður P. Njarðvík, eru ekki sammála um réttmæti samsetta nýyrðisins, „starfsfólksfundur“. Fréttablaðið greindi nýverið frá því Menntaskólinn við Sund hefur aflagt orðið starfsmannafundir sem heiti yfir fundi starfsfólks og kallar samkomurnar nú starfsfólksfundi.

Frétt Fréttablaðsins um þetta hefur vakið töluverða athygli og jafnvel ólgu, a.m.k. í umræðum á samfélagsmiðlum. Njörður P. Njarðvík er ekki hrifinn af orðinu og segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu: „Ég spyr: Eru þá engir starfsmenn lengur við þennan skóla? Þetta er afskræming tungumálsins í skjóli rétttrúnaðar.“ Hann segir jafnframt:

„Þegar við segjum: allir velkomnir, tekur það til allra sem tilheyra þessari tegund án vísunar til sérstaks kyns,“ og ennfremur: „Þegar við segjum: allir velkomnir, tekur það til allra sem tilheyra þessari tegund án vísunar til sérstaks kyns.“

Eðlileg samsetning

Eiríkur bendir á að málfræðilega sé samsetningin „starfsfólksfundur“ fyllilega eðlileg og hafnar því alfarið að um afskræmingu sé að ræða. Þetta kemur fram í grein sem hann birtir í Facebook-hópnum Málspjall. Þar segir Eiríkur meðal annars:

„Orðið starfsfólk er vitanlega gott og gilt íslenskt orð sem hefur tíðkast í málinu a.m.k. frá byrjun 20. aldar. Samsetningin starfsfólksfundur er eðlileg og samræmist fullkomlega íslenskum orðmyndunarreglum. Það er vissulega rétt að orðið rennur ekki eins vel og starfsmannafundur vegna samhljóðaklasans sem myndast við samsetninguna – fyrri liðurinn endar á lks (þótt k fall oftast brott í eðlilegum framburði) og sá seinni hefst á f. Þar er kominn fjögurra samhljóða klasi og slíkir klasar eru oft stirðir. En því fer fjarri að þetta sé einsdæmi. Í orðum eins og fólksfjöldi og fólksflutningar eru m.a.s. fimm samhljóða klasar (lksfj og lksfl) sem við kippum okkur ekkert upp við. Þar að auki er starfsfólksfundur einu atkvæði styttra en starfsmannafundur.

Í hverju er þá „afskræmingin“ fólgin? Þarna er verið að setja nýtt en rétt myndað íslenskt orð í stað annars rétt myndaðs orðs sem hefð er fyrir. Það getur ómögulega verið „afskræming“ að bæta rétt mynduðu orði við málið. Ný orð auðga málið. Það er ekki eins og verið sé að þvinga fólk til að nota þetta nýja orð þótt það sé notað í opinberum gögnum skólans. Þetta snýst um að taka tillit til þeirra sem finnst orð sem enda á -maður ekki höfða til sín. Mörgum virðist finnast eðlilegt að gera lítið úr þeirri tilfinningu en hún er ekki tilbúningur. Það er ljóst að konur nota slík orð sjaldan um sjálfar sig ef annars er kostur – þær segja t.d. nánast aldrei ég er mikill X-maður, heldur ég er mikil X-kona eða ég er mikil X-manneskja eins og ég hef sýnt fram á.“

Eiríkur segir að það taki tíma venjast nýjum orðum og eðlilegt að skiptar skoðanir séu um breytingu sem þessa. Hann telur hins vegar viðbrögðin vera út úr korti:

„Vissulega er alltaf snúið að skipta út orðum sem hefð er fyrir að nota og það tekur okkur tíma að venjast nýjum orðum. Þess vegna er mjög eðlilegt að skiptar skoðanir séu um breytingu af þessu tagi, en hér verður þó ekki annað sagt en viðbrögðin séu langt umfram það sem eðlilegt má telja. En eins og í umræðunni um orðið fiskari fyrr á árinu er augljóst að það er ekki nýjungin sjálf, í þessu tilviki orðið starfsfólksfundur, sem veldur mestum óróa, heldur ástæða hennar – tilhneiging og vilji til að draga úr karllægni málsins. Það kemur greinilega fram í meginhluta þeirra ótalmörgu athugasemda sem gerðar hafa verið við fréttina. Í því felst „afskræmingin“ að mati þeirra sem fordæma breytinguna. Ég er ósammála.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga