fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Innbrotið í Mannlíf vindur upp á sig – Róbert Wessmann hótar Guðmundi lögsókn fyrir að bendla sig við afbrot

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 21. janúar 2022 18:03

Róbert Wessman. Youtube-skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem tjáði sig um innbrot sem framið var inn í bíl ritstjóra Mannlífs, Reynis Traustasonar, og inn á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs, fékk í dag kröfubréf frá lögmanni Róberts Wessmann, þar sem hann var krafinn um að fjarlægja Facebook-færslu um málið og biðjast afsökunar á henni, að öðrum kosti megi hann eiga von á lögsókn.

Eins og DV og fleiri fjölmiðlar greindu frá í dag urðu ótrúlegir atburðir í tengslum við fjölmiðlinn Mannlíf í gær. Brotist var inn í bíl Reynis Traustasonar þar sem hann stóð á bílastæði við Úlfarsfell, og lyklum að ritstjórnarskrifstofum Mannlífs var stolið. Þangað var brotist inn, turntölva tekin traustataki og í henni eytt öllu efni af vef Mannlífs.

Í dag tókst að endurheimta efnið og koma vefnum aftur í dag. „Þetta eru prófessjónal menn, þetta er þaulskipulagt og nær alveg frá Úlfarsfelli. Þeir ráðast inn í bílinn minn, ná lyklunum af mér, koma síðan hingað og eru í nótt að eyða gögnum,“ sagði Reynir í samtali við DV.

Maður að nafni Guðmundur Jón Sigurðsson ritaði Facebook-færslu um málið þar sem hann segir Róbert hafa hótað Reyni vegna fréttaflutnings Mannlífs af Róberti. Guðmundur kallar Róbert ofstopamann í færslunni og segir að ekkert gerist fyrir tilviljun.

Í kröfubréfinu sem Guðmundur fékk frá lögmanni Róberts í dag segir: „Með umfjöllun þinni er látið að því liggja að umbj. minn hafi gerst sekur um aðild eða
hlutdeild í refsiverðu lögbroti, sem fullyrt er að hafi átt sér stað á skrifstofum Mannlífs. Ljóst er að ekki verður við það unað, enda fela skrif þín í sér ærumeiðandi aðdróttanir, sbr. 234.-237. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Þá segir ennfremur:

„Í umfjöllun þinni lætur þú liggja að því, að umbj. minn eigi einhvern þátt meintu innbroti sem sagt er að hafi verið framið á skrifstofum bloggmiðils Reynis Traustasonar, www.mannlif.is. Fullyrðir þú meðal annars að umbj. minn sé „ofstopamaður sem sést ekki fyrir í ofbeldishegðun.“ Þá segir í umfjöllun þinni, að „ekkert gerðist fyrir tilviljun.“

Þess er krafist að Guðmundur fjarlægi færsluna og biðji Róbert skriflega afsökunar. Verði ekki við þessum kröfum megi hann eiga von á lögsókn. Ekki er krafist skaðabóta fyrir skrifin:

„Verði ekki brugðist við framangreindum kröfum innan tilgreindra tímamarka, áskilur umbj. minn sér rétt til að stefna málinu fyrir dómstóla án frekari fyrirvara. Það kann að hafa í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir þig.

Áskilinn er réttur umbj. míns til þess að rökstyðja nánar eða með breyttum hætti gerðar kröfur, tefla fram nýjum og/eða breyttum lagarökum, málavöxtum og málsástæðum allt eftir því sem þurfa þykir.“

Guðmundur ætlar ekki að verða við kröfunni

Í svari Guðmundar til lögmannsins segir að hann ætli ekki að verða við þessum kröfum. Segir hann Róbert ekki hafa ritstjórnarvald yfir Facebook-síðu sinni. Svarið er eftirfarandi orðrétt:

„Ég hef móttekið þessa sérkennilegu kröfu ykkar Róberts um að þið hafið umboð til að ritstýra Facebook síðu minni.

Það kemur að sjálfsögðu ekki til álita.

Að auki er rétt að benda á að í þessu bréfi ykkar félaga er aukinheldur rangt farið með beina tilvitnun.

Hef miklar efasemdir um að taka bera þessar hótanir ykkar alvarlega enda er ég þeirrar skoðunar að þegar á reyni sé þessi Róbert huglaus og muni ekki hafa kjark til að fara í svo veikt mál sem þetta er.

Kær kveðja að sinni og megið þið félagar njóta helgarinnar,

-GS“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu