fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Bendir á að Strætó hafi framið meingerð gegn æru hennar og persónu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 20. september 2022 19:00

Mynd: Ernir Eyjólfsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem vann skaðabótamál gegn Strætó í síðustu viku bendir á að Strætó hafi ekki virt lagalega bindandi úrskurði tveggja stjórnvaldsstofnana í máli hennar. Konan ræddi stuttlega við DV í síðustu viku en vill gjarnan ítreka ábendingar um að Strætó hafi brotið lög í máli hennar og eigin siðareglur.

Konan, sem er um fimmtugt, pólsk að þjóðerni en talar íslensku og hefur lengi búið og starfað á Íslandi, starfaði sem þjónustufulltrúi hjá Strætó og sinnti samskiptum við viðskiptavini. Seint í nóvember árið 2020 var hún boðuð til fundar með yfirmanni sínum og mannauðsstjóra samlagsins. Þar var hún sökuð um að hafa sent kynferðisleg skilaboð til stjórnanda hjá fyrirtækinu.

Sjá einnig: Kona sem rekin var fyrir kynferðisleg skilaboð vann mál gegn Strætó

Konan hefur tjáð DV að um „bullskilaboð“ hafi verið að ræða en ekki hafi verið gerð nein athugasemd við skilaboð frá manninum sem hún sendi þessi skilaboð, vegna þess að hann væri markaðsstjóri hjá fyrirtækinu. DV hefur þessi skilaboðasamskipti ekki undir höndum en samkvæmt heimildum mun hafa verið um að ræða gáskafull og alvörulaus samskipti.

Á fundinum voru konunni kynntir þeir afarkostir að annaðhvort samþykkti hún starfslokasamning hjá fyrirtækinu eða að hún ætti á hættu að áminningarferli hæfist gegn henni. Staðfest hefur verið að ekki fór fram rannsókn á samskiptunum í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Virtu ekki úrskurði kærunefndar og ráðuneytis

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að starfslokin hefðu verið ólögleg og brotið hefði verið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, enda hefði konunni verið mismunað á grundvelli kyns, aldurs eða þjóðernisuppruna. Taldi nefndin að Strætó hefði verið búið að taka afstöðu fyrir fund aðila til meintrar háttsemi konunnar og þeir hefðu stytt sér leið að settu marki með því að knýja hana til að fallast á að láta af starfinu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarnáðuneytið kvað upp samhljóða niðurskurð. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í síðustu viku, þar sem Strætó var dæmt til að greiða konunni 2,5 milljónir króna í miska- og skaðabætur, er á það bent að úrskurðir þessara stofnana séu lagalega bindandi. Hægt sé að áfrýja þeim til dómstóla en það hafi Strætó ekki gert heldur mæti málshöfðun konunnar í héraðsdómi með sama málatilbúnaði og beitt var gegn kærunefndinni og ráðuneytinu.

Konan segir um þetta í samtali við DV:

„Í niðurstöðu héraðsdóms segir m.a. að Strætó hafi ekki farið að lögum með því að vilja ekki una úrskurði úrskurðarnefndar jafnréttismála og Samgöngu- og sveitaráðuneytis, sem eru bindandi, en hafi ekki heldur höfðað mál til ógildingar úrskurðunum. Strætó óvirðir þessa úrskurði sem eru bindandi að lögum. Héraðsdómur leiðir í ljós að Strætó hefur sýnt verulegt gáleysi við starfslokin og framið ólögmæta meingerð á æru minni og persónu.“

Konan bendir ennfremur á að þetta framferði Strætó stríði gegn siðareglum stjórnar Strætó. Þar segir meðal annars:

„Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Strætó bs. Kjörnum fulltrúum ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúnir að rökstyðja ákvarðanir sínar og tilgreina á hverju þær eru byggðar. Þeir skulu bera ábyrgð gagnvart íbúum höfuðborgarsvæðisins í heild og svara fyrirspurnum almennings og fjölmiðla um störf sín með rökstuðningi fyrir aðgerðum eða starfsemi þjónustu sem þeir bera ábyrgð á sem kjörnir fulltrúar í stjórn Strætó bs.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“