fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Sara tjáir sig um körfuboltamyndina: „Kjaftstopp yfir framferði liðsins og þá sérstaklega þjálfarans“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 14. febrúar 2021 08:52

Skjáskot úr myndinni Hækkum rána

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarmyndin Hækkum rána sem sýnd er í Sjónvarpi Símans hefur vakið mikla athygli og aðdáun undanfarið. Myndin segir frá harðsnúnu körfuboltaliði stúlkna sem Brynjar Karl Sigurðsson þjálfaði. Árið 2019 komst liðið í fréttir er stúlkurnar neituðu að taka við verðlaunum eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar í minnibolta. Atvikið átti sér stað á Akureyri en liðið sem Brynjar þjálfaði var úr ÍR. Frá þessu var meðal annars greint í frétt á vef RÚV árið 2019.

Stelpurnar og Brynjar voru að mótmæla því að þær fengju ekki að keppa við stráka. Brynjar hætti með liðið í kjölfarið. KKÍ leit málið mjög alvarlegum augum og margir fordæmdu þjálfunaraðferðir og framferði á Brynjars en aðrir studdu hann.

Sem fyrr segir hefur heimildarmyndin umtalaða vakið mjög jákvætt umtal og margir telja að með starfi Brynjars hafi verið stigin jákvæð skref til jafnfréttis og valdeflingar stúlkna.

Sara Pálmadóttir, fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta, skrifar grein um myndina á Facebook-síðu sína. Hún er allt annað en hrifin af því sem kemur fram í myndinni. Sara segir að ef hún eignist börn munu þeir ekki fá að æfa hjá þjálfara sem beitir þeim aðferðum sem myndin sýnir:

„Í vikunni var sýnd myndin Hækkum rána á Sjónvarpi Símans. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa horft á þessa mynd og það tók mig langan tíma að róa mig, setjast niður og skrifa þennan pistil. Ég hef frá árinu 2014 fylgst með þessu liði sem um ræðir í myndinni og hef oft orðið kjaftstopp yfir framferði liðsins og þá sérstaklega þjálfarans. Ég á bróðurdóttur sem ég hef fylgt á flest mót sem hún hefur tekið þátt í frá því hún var 8 ára og séð margt á þessum árum. Mjög margt gott en því miður líka séð margt mjög leiðinlegt. Ekki misskilja mig ég er „all in“ í því að valdefla ungt fólk, kenna þeim að standa með sjálfum sér, kenna þeim „tögg“ og að vera töffarar en þjálfunaraðferðir sem notaðar eru í þessu tilviki eru ekki að mínu skapi. Ef ég verð svo heppin að eignast börn einn daginn þá fær barnið mitt ekki að æfa hjá þjálfara sem sýnir slíka háttsemi sem sést í þessari mynd.“

Segir að kynin eigi að vera aðskilin

Sara segir mikilvægt að valdefla börn en það sé ekki sama hvernig það sé gert. Þá hefur hún litlar mætur á því baráttumáli sem Brynjar innprentaði stúlkunum, að fá að keppa við stráka. Hún segir að mörgu megi breyta og bæta í kvennaíþróttum á Íslandi en hún telur að kynin eigi að vera aðskilin þegar kemur að keppni. Síðan segir hún:

„Það er mikil ábyrgð fólgin í því að þjálfa börn og unglinga í íþróttum, sérstaklega fram að 12 ára aldri því fyrir þeim iðkendum ertu svo mikið meira en þjálfari. Þú ert kennari, auka foreldri og síðast en ekki síst mikil fyrirmynd. Framkoma þín hefur ef til vill meiri áhrif á iðkendurna heldur en framkoma foreldranna. Eitt skilyrði þess að fyrir þér sé borin virðing sem leiðbeinanda er að þú virðir skoðanir, þarfir og tilfinningar barnanna. Þú sem þjálfari þarft að leitast við því að láta iðkendum líða vel og leiða þá til þroska. Börn eru ekki litlir fullorðnir heldur og ekki er hægt að koma fram við þá eins og fullorðið fólk því viðbrögð þeirra eru á margan hátt öðru vísi en okkar fullorðna fólksins (Engström, L., Forsberg, A., Apitzsch, E., e.d.).“

Sara bendir á að samkvæmt hegðunarviðmiðum ÍSÍ skuli þjálfari bera virðingu fyrir mótherjum, foreldrum eða forsjáraðilum, dómurum, þjálfurum og öðru starfsfólki, og stuðla að því að leikmenn geri það sama. Í þessu samhengi segist hún telja að talsmáti Brynjars, eins og hann birtist í myndinni, sé ekki til fyrirmyndar og segir hún að hún myndi aldrei vilja að nokkur talaði svona við hennar barn.

Síðan segir Sara:

„Atriðið í myndinni þegar ákveðið var á töflufundi fyrir mót, að stelpurnar myndu stíga fram og neita að taka við verðlaunum eftir mótið finnst mér til háborinnar skammar. Það eru margar aðrar leiðir til þess að láta í sér heyra. Þegar liðið stígur svo fram í verðlaunaafhendingu í íslandsmóti 11 ára varð ég kjaftstopp. Þarna eru 11 ára stelpur sem tala þarna, að mér finnst, á öðruvísi tungumáli en ætti að þekkjast hjá svona ungum börnum. Þarna fannst mér algjör vanvirðing borin fyrir körfuboltanum, leikmönnum, foreldrum, stjórnarmönnum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem koma að íþróttum á Íslandi.“

Pistil Söru má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

https://www.facebook.com/sarapalma/posts/10157642575912097

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala