Kona að nafni Lu hugsaði sér gott til glóðarinnar þegar hún bókaði íbúð í gegnum Airbnb fyrir sig og fjölskyldu sína. Lu er sex barna móðir, en hún og eiginmaður hennar tóku tvö börn með í fríið til Oregon í Bandaríkjunum.
Fríið sem var tvær nætur var fínt, en það sem setti skugga á dvölina var sms sem Lu fékk frá gestgjafanum, leigusala íbúðarinnar, klukkan 8.59 að morgni brottfarardagsins, aðeins tveimur klukkustundum áður en fjölskyldan átti að skila íbúðinni af sér klukkan 11.
Í skilaboðunum bað hann Lu að fylgja löngum lista yfir „brottfararleiðbeiningar“ áður en íbúðin væri yfirgefin.
„Þakka þér fyrir dvölina. Vinsamlega fylgdu brottfararleiðbeiningunum, fyrst og fremst að fjarlægja allt sorp sem og endurvinnslu, setja i uppþvottavélina og setja hana af stað, setja þvott í þvottavélina og setja hana af stað, athuga með að fjarlægja allar eigur þínar og fjarlægja allar matvörur,“ segir í skilaboðunum.
Lu birti skilaboðin á samfélagsmiðlum svona eins og venjan er í dag þegar maður er óánægður: „„Síðasta Airbnb sem ég ætla að leigja. 1.300 dalir fyrir tvær nætur með þrifagjaldi og ég fæ þetta fyrir klukkan 9.00. Mun aldrei hætta að deila þessu,“ segir í færslu Lu þann 13. júní.
Eftir að Lu birti skilaboðin hefur hún bætt við að gestgjafinn hafi gert fleiri kröfur, eins og skilja eftir þjórfé fyrir ræstingafólkið. „Áminning um að skilja eftir þjórfé fyrir ræstingafólkið. Bíddu ég vaskaði upp og setti í vél, hvað er málið,“ sagði Lu í annari færslu.
Í athugasemdum var spurt hvort Lu hefði lesið smáa letrið á bókunarsíðunni. Svaraði hún að undir „Viðbótarreglur“ hefði gestgjafinn aðeins nefnt að gestir yrðu að vera eldri en 24 ára, strangar bílastæðareglur og að „aðrar mikilvægar upplýsingar verða sendar með tölvupósti“. Segir hún enga slíka tölvupósta hafa borist til sín. Hún birti einnig skjáskot af skráningunni sinni, þar á meðal kvittun hennar fyrir greiðslu upp á 1.329,79 dali fyrir tveggja nætur dvöl, þar á meðal þrifagjald. „Það er ekkert í þessari skráningu um það að ég eigi að sjá um uppvaskið.“
Lu segist alveg hissa yfir athyglinni sem færsla hennar fékk, og fjórum dögum síðar birti hún uppfærslu á málinu. Segir hún þjónustufulltrúa Airbnb bókunarsíðunnar hafa haft samband og boðið fram aðstoð.
„Mér fannst ég ekki þurfa endurgreiðslu eða neitt slíkt. Ég lagði fram að mínu mati, gagnlegar ábendingar, en ég hef ekki heyrt neitt til baka, sem mér finnst ófagmannlegt,“ sagði hún.
Hún segir marga í athugasemdum hafa bent sér á almenna kurteisi, hvort hún hefði ekki bara verið of æst yfir málinu öllu saman. Lu segir það af og frá og segir að útleiga Airbnb íbúða snúist um viðskipti og gróða fyrir gestgjafa, en eigi ekki að vera vandamál gestanna sem borga fyrir að gista þar.
Segist hún hafa lesið skráninguna á bókunarsíðunni í smáatriðum þar sem hún vildi ekki sinna húsverkum í þessu stutta fríi með fjölskyldunni.
„Þú hefur 100 prósent rétt fyrir þér. Þess vegna gisti ég alltaf á hótelum,“ sagði einn í athugasemd. „Þetta er fáránlegt, fyrir hvað ertu að greiða þrifagjald? Þú sást um þrifin. Þeir ættu að endurgreiða þér þrifagjaldið,“ skrifaði annar. „Ég myndi ekki gera neitt. Farðu bara,“ skrifaði sá þriðji.
Margir tóku þó málstað gestgjafans.
„Af hverju geturðu ekki vaskað upp? Ég þríf alltaf upp eftir mig og yfirgef staðinn betur en þegar ég mætti á staðinn. Það er kurteisi,“ sagði einn.
„Flestir gestgjafar biðja mann um að henda öllum handklæðunum í þvottavélina og setja hana af stað því það tekur 2+ klukkutíma að þvo og þeir vilja að það sé tilbúið yrir næsta gest. Mér finnst það sanngjarnt,“ skrifaði annar.
Þar sem Airbnb íbúðir eru oft um leið heimili gestgjafa er mælst til þess að leigjendur sinni eigninni eins og sinni eigin, gangi vel um og svo framvegis. Líklega má telja það lágmarks kurteisi í samskiptum fólks, og það líka þó um sé að ræða leigu á húsnæði.