Forsvarsmenn bresku verslunarkeðjunnar Iceland reyna nú í þriðja sinn að fá einkaleyfi til að nota nafnið Iceland í viðskiptum í Evrópu og þar með taka réttinn af Íslendingum. Forstjóri Iceland segist vera að berjast fyrir nafni verslunarinnar.
Málið á sér langa forsögu. Fyrirtækið Iceland, eða Iceland Foods Limited, var stofnað árið 1970 í Bretlandi og rekur nú matvöruverslanir víða um Evrópu. Meðal annars á Íslandi. Er verslunin þekkt fyrir að selja frosna matvöru.
Forsvarsmenn Iceland sótt um og fengu einkaleyfi á notkun nafnsins Iceland árið 2013 Íslendingum til mikils ama, enda miklir viðskiptahagsmunir fyrir íslensk fyrirtæki að geta selt vörur á evrópskum markaði undir eigin fána og landi. Útistöðurnar við Íslendinga hófust árið 2016 en þá kærði ríkisstjórn Íslands einkaleyfisveitinguna og hafði betur.
Iceland áfrýjaði til Hugverkastofnunar Evrópusambandsins en var vísað frá árið 2022. Sagt var að það skipti Íslendinga mikilu máli að halda nafni sínu og að einkaleyfi verslunarkeðjunnar gæti skaðað orðspor landsins. Héldu margir að þar með væri málinu lokið en svo er nú aldeilis ekki.
Nú hafa forsvarsmenn Iceland hafið þriðju tilraun til þess að tryggja sér einkaréttinn á notkun á nafninu Iceland í verslun innan Evrópusambandsins.
Richard Walker, forstjóri Iceland, mætti fyrir dóm Evrópusambandsins í Lúxemborg á miðvikudag, 16. október, til þess að gera grein fyrir máli sínu eins og segir í frétt Metro um málið. Hann sagði einnig frá sinni hlið á samfélagsmiðlinum X.
„Iceland gegn Íslandi. Við erum að berjast fyrir einkaleyfi á nafninu okkar,“ sagði Walker á samfélagsmiðlinum. „Eftir átta ár og þrjár lotur er ég núna staddur í æðsta dómstóli ESB. Dómstóli Evrópusambandsins í Lúxemborg.“
Í þetta skipti er Iceland að áfrýja úrskurði Hugverkastofnunar Evrópusambandsins frá árinu 2022. Í dag hefur verslunarkeðjan ekki gilt einkaleyfi á nafninu og getur þar af leiðandi ekki bannað öðrum að nota það. Hins vegar getur Iceland áfram starfað undir nafninu á mörkuðum Evrópu.
„Þetta er skemmtileg fyrirsögn og vissulega skrýtið mál,“ sagði Walker í annarri færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum LinkedIn. „En fyrir mig persónulega og fjölskyldufyrirtækið okkar skiptir þetta miklu máli. Við höfum alltaf túlkað nafnið okkar sem „land íssins“ en ekki sem tilvísun í landið Ísland. Vitaskuld verjum við fyrirtækið okkar og sjálfsmynd en við höfum aldrei reynt að stöðva íslensk fyrirtæki við að nota orðið Iceland til þess að kynna vörur sínar.“