Talsmaður Húta staðfesti skömmu eftir miðnætti að ráðist hefði verið á borgir og bæi í Jemen og hét hefndum.
Hútar hafa að undanförnu gert fjölda árása á skip í Rauðahafinu og eru árásirnar viðbrögð við þessum árásum sem eru að vonum mikil ógn við umferð skipa um Rauðahafið og hafa mikil áhrif á alþjóðaviðskipti.
Í gærkvöldi skýrðu breskir fjölmiðlar frá því að breska ríkisstjórnin hefði verið kölluð til fundar og að tilefnið væri að ræða um hugsanlegar árásir Breta og Bandaríkjamanna á Húta.
John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, hafði áður sagt að Bandaríkin myndu bregðast við ef Hútar héldu áfram að ráðast á skip í Rauðahafi.
Frá því að Ísraelsmenn hófu hernað á Gaza hafa Hútar lýst yfir samstöðu með Hamas og öðrum herskáum palestínskum samtökum og segja árásirnar í Rauðahafi afleiðingu af hernaði Ísraelsmanna. Hútar njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran eins og Hamas og Hezbolla-hryðjuverkasamtökin í Líbanon.
Samkvæmt upplýsingum frá aðalstjórnstöð Bandaríkjahers hafa Hútar gert 27 árásir á kaupskip í Rauðahafi síðan 19. nóvember. Þetta hefur orðið til þess að sumar skipaútgerðir láta nú skip sín sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku í staðinn fyrir að fara í gegnum Súesskurðinn.