fbpx
Laugardagur 28.janúar 2023
Fréttir

Leigufélagið Alma hætti við að greiða bætur eftir að viðtal birtist við Katrínu Maríu á Vísir.is

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 24. janúar 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín María Blöndal er fyrrverandi leigjandi hjá Ölmu íbúðafélagi. Hún segir að húsnæðið sem hún bjó í og greiddi fulla leigu fyrir hafi verið óíbúðarhæft og fulltrúar Ölmu viðurkenndu að ástand íbúðarinnar hefði ekki verið nægilega gott. Var henni boðin niðurfelling á tveggja mánaða leigu. Viðræður um þetta voru í gangi á milli Katrínar og Ölmu þegar viðtal birtist við Maríu á Vísir.is þar sem hún lýsti hremmingum sínum á leigutímanum, sem var frá því í mars 2021 fram í apríl 2022.

Sama dag og viðtalið birtist barst Maríu tölvupóstur frá Ölmu þar sem segir: „Okkur þykir leiðinlegt að þú skulir hafa hafnað boði okkar í gær um 460.000 króna sáttagreiðslu til að allir gætu gengið sáttir frá þessu máli. Þar sem þú hafnaðir sáttaboði okkar lítum við svo á að málinu sé lokið og Alma íbúðafélag hf. mun ekki aðhafast meira í þessu máli.“

„Ég reyndi ítrekað að fá einhvers konar útskýringu og fá samband við einhverja sál sem vinnur þarna og margar vikur í röð var ég hunsuð, það var skellt á mig og mér bara sagt að gefast upp, það myndi enginn svara mér,“ segir Katrín María um þetta við DV.

En hvað var að húsnæðinu sem Katrín María leigði? Íbúðin var að Klukkubergi 41 í Hafnarfirði. Katrín María segir að íbúðin hafi verið í hörmulegu ástandi alveg frá því hún flutti inn í hana. „Þegar við tókum við íbúðinni var ekkert rafmagn í stofunni og sírennsli í nokkrum ofnum. Og í raun var morandi mygla í öllu þakinu, í barnaherbergi og aðalsvefnherbergi. Auk þess sem svalirnar voru að hrynja i sundur og allir gluggar að lekir,“ segir hún í hinu afdrifaríka viðtali við Vísi.

Myglan kom þó ekki almennilega í ljós. „Katrín María segir að maður hafi komið til að laga ljósið og hún hafi þá spurt út í torkennilega áferð og/eða lit á loftinu sem seinna átti eftir að koma í ljós að var mygla en hann hafi gert sér lítið fyrir og burstað það í burtu eins og ekkert væri. Ekkert hafi verið mælt eða skoðað nánar,“ segir í Vísir-greininni.

Sumarið 2021 komu iðnaðarmenn til að huga að svölum hússins og fylgdi þeim mikið ónæði og rask. Að sögn Katrínar Maríu kom leiguafsláttur aldrei til greina af hálfu Ölmu vegna þeirra óþæginda. Það sem gerðist í kjölfarið leiddi til þess að hún þurfti að yfirgefa íbúðina með nýfætt barn:

„Seinna meir eftir að byrjar að rigna heiftarlega þá tek ég eftir hvað það blæs með öllum gluggum og lekur inn. Ég sendi inn tilkynningu en ekkert var gert. Einhver kom og segist ætla að gera eitthvað eða panta eitthvað en ekkert skeður.“

Þurfti hún að búa við þetta lekaástand fram í janúar 2022. Eftir skoðun iðnaðarmanns var tilkynnt að húsnæðið væri ekki öruggt þar sem það væri allt undirlagt í myglu og hefði í raun verið það í nokkur ár. Því þyrfti fjölskyldan að yfirgefa íbúðina. Voru þau heimilislaus í nokkra daga en var síðan komið fyrir í lausri íbúð á Völlunum (Sjá nánar á Vísi).

Tilboðinu kippt til baka

Katrín María greinir Vísi frá því að eftir að þau fluttu aftur inn í íbúðina hafi enn lekið og því þurftu iðnaðarmenn að koma aftur. Þeir skáru stórt gat í loftið og rifu svalirnar en hurðin þangað var tengd svefnherberginu.

Viðtal Vísis við Katrínu Maríu birtist á Þorláksmessu en um það leyti stóð hún, sem fyrr segir, í viðræðum við Ölmu um að fá einhverjar bætur vegna ástands íbúðarinnar á leigutímanum. Fulltrúar Ölmu buðu henni niðurfellingu á tveggja mánaða leigu, samtals 460.000 krónur, en Katrín María taldi að 140.000 krónur að auki væru ásættanleg niðurstaða. Bað hún Ölmu um að skoða málið betur.

Daginn sem viðtalið birtist á Vísi barst Katrínu Maríu áðurnefndur tölvupóstur frá Ölmu þar sem hún er sögð hafa hafnað sáttaboði þeirra og það sé ekki í gildi lengur. Var þessi tölvupóstur síðan ítrekaður með svohljóðandi pósti:

„Til að taka af allan vafa þá stendur sáttatilboðið sem við settum fram í gær ekki lengur til boða. Lítum við svo á að málinu sé lokið og Alma íbúðafélag hf. mun ekki aðhafast meira í þessu máli.“

Daginn áður hafði Katrín María fengið tölvupóst frá Ölmu þar sem sagði meðal annars:

„Við erum alveg sammála þér að ástand íbúðarinnar var ekki gott og því viljum við endurgreiða þér 2 mánuði í leigu eða mars og febrúar s.l. Með því viljum við ljúka þessu máli að öllu leyti. Ef þú samþykkir það göngum við frá greiðslu í dag.“

Katrín María segir í samtali við DV að hún hafi mætt á skrifstofu Ölmu til að freista þessa að fá skýringar á þessum umskiptum en henni hafi þá verið tjáð kuldalega að hún ætti ekki skilið neina útskýringu frá þessu fyrirtæki. Hún hafi þá óskað þess að fá í hendur ástandsskýrslu um íbúðina en fyrir hana telur hún sig hafa greitt með svokölluðu umsýslugjaldi upp á 39.000 krónur. „Það er greint frá því á síðunni þeirra að þessi upphæð fer meðal annars í að framkvæma skoðunarúttekt og gerð ástandsskýrslu. Þegar ég bað framkvæmdastjórann um að fá að sjá þessa skýrslu neitaði hann mér um það og segir mér að þetta sér „vinnugagn“. Þannig að hann neitar mér um skjöl sem ég hafði greitt fyrir og neitaði mér um útskýringar á því,“ segir Katrín María.

Segir að fjölmiðlaumfjöllun hafi ekki áhrif

DV sendi Ölmu fyrirspurn vegna málsins þar sem spurt er hvort fjölmiðlaumfjöllun um málið hafi verið ástæða þess að samningstilboðið var tekið til baka. Einnig var spurt hvort fjölmiðlaumfjöllun geti haft áhrif á samskipti Ölmu við leigjendur.

Í svari Ingólfs Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ölmu, er staðhæft að fjölmiðlaumfjöllun hafi ekki áhrif á samskipti félagsins við leigjendur:

„Við viljum ekki tjá okkur um málefni einstakra viðskiptavina en fjölmiðlaumfjöllun hefur ekki áhrif á samskipti Ölmu við leigjendur. Ef upp kemur grunur um myglu reynum við að bregðast bæði hratt og faglega við. Við felum sérhæfðum utanaðkomandi aðilum sýnatöku og viðhaldsdeild okkar, með eigin starfsfólki eða verktökum, ræðst í viðgerðir ef þörf er á.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eyjabörn voru lamin þegar þau komu upp á land og sögð vera pakk

Eyjabörn voru lamin þegar þau komu upp á land og sögð vera pakk
Fréttir
Í gær

Segir rússneskum foreldrum að loka börnin inni því morðingjar og nauðgarar Pútíns séu að koma heim frá Úkraínu

Segir rússneskum foreldrum að loka börnin inni því morðingjar og nauðgarar Pútíns séu að koma heim frá Úkraínu
Fréttir
Í gær

Samkeppniseftirlitið stoppar kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars Majonesi – „Við erum að skoða og meta málið“

Samkeppniseftirlitið stoppar kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars Majonesi – „Við erum að skoða og meta málið“
Fréttir
Í gær

Logi vill sjá fimm atriði breytast hjá Guðmundi ef hann á að halda áfram sem landsliðsþjálfari

Logi vill sjá fimm atriði breytast hjá Guðmundi ef hann á að halda áfram sem landsliðsþjálfari
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skordýramartröð hjá húskaupendum í Grindavík – Krökkt af maurum bak við skápa og skúffur

Skordýramartröð hjá húskaupendum í Grindavík – Krökkt af maurum bak við skápa og skúffur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir gjaldþrotahrinu yfirvofandi í veitingahúsageiranum

Segir gjaldþrotahrinu yfirvofandi í veitingahúsageiranum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þjófnaður, skemmdarverk, slys og ökumenn í vímu

Þjófnaður, skemmdarverk, slys og ökumenn í vímu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

ÓIína hjólar í Eirík útaf skrifum hans – „Grein hans er áróður. Hún er líka ómerkileg“

ÓIína hjólar í Eirík útaf skrifum hans – „Grein hans er áróður. Hún er líka ómerkileg“