fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Friðrik Agni skrifar: „Pride – Af hverju skiptir það þig máli?“ 

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 12. ágúst 2023 12:00

Friðrik Agni Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Árið 2003 steig ég upp á svið á hátíð sem hét þá Gay Pride, til að dansa. Reyndar bar hún heitið Hinsegin dagar líka en það sem ég sá oftast auglýst í tengslum við hátíðina var Gay Pride. Ég var fimmtán ára. Ekki kominn „út úr skápnum” enda vissi ég ekki að ég þurfti þess. Eða mig langaði ekki sérstaklega til þess. Þetta hefði verið eins og að tilkynna fólki að ég væri með brún augu. Eitthvað sem var svo ómerkilegt og einfaldlega bara staðreynd. Það var kjánalegt fyrir mitt tilfelli að koma út úr einhverjum skáp sem ég upplifði aldrei að ég hefði verið inn í til að byrja með. Þess fyrir utan vildi ég eiga mína möguleika áfram á að kannski myndi ég verða ástfanginn af stelpu síðar. Því það gæti allt eins gerst. Ég tengdi ekki endilega við að samkynhneigð væri eitthvað sem ég þurfti að merkja mig með. Ekki á þessum tíma. Spilar uppeldi mitt líklega mikið inn þarna því ég á opna og kærleiksríka kjarnafjölskyldu sem lét mér aldrei líða eins og þessi hluti af mér væri eitthvað til að ræða eitthvað sérstaklega. Eða ef það var tiltöku mál þá lét enginn bera á því,“ skrifar Friðrik Agni Árnason, verkefnastjóri sértækrar einstaklingsfjáröflunar hjá Unicef, dansari og einkaþjálfari með meiru.

„Ég hafði kynnst strák sem einhvern veginn dró mig bara inn í þetta árið 2003. Upprennandi dragdrottning. Tók mig að sér. Við vorum bara vinir. Ég hafði verið í bænum á þessari hátíð nokkrum árum áður og séð dragdrottningar á Ingólfstorgi. Ég vissi ekki hvað var í gangi. En vá hvað mér fannst þessir strákar flottir og þeir voru litríkir og kannski…frjálsir? Ég man eftir að hugsa: Er ég eins og þeir? Nema ég á eftir að frelsast? Á ég eftir að sleppa af mér beislinu? Hugsunin hræddi mig ekki og innst inni vissi ég svarið við þessari spurningu. Ég var bara of ungur til að skilja að það væri eitthvað sem var mikilvægt fyrir mig að gera. Og í raun mikilvægt fyrir samfélagið.“

20 árum síðar tekur Friðrik Agni enn þátt

„Árið 2003 var fyrir tuttugu árum. Nú heitir hátíðin Hinsegin dagar eða Reykjavík Pride. Ég er 35 ára og enn og aftur tek ég þátt. Ég hef tekið þátt allar götur síðan 2003 á einn eða annan hátt. Með aldrinum hefur merking þessarar hátíðar og samfélagsins sem tók á móti mér fyrir tuttugu árum öðlast mun ríkari gildi fyrir mig. Og margt hefur líka breyst. Eins og ég segi þá fannst mér og finnst enn í dag ég sjálfur ekki þurfa endilega að tala um mína samkynhneigð eða tvíkynhneigð. Stundum finnst mér ég einfaldlega bara vera hommi og stundum finnst mér ég vera tvíkynhneigður eða pankynhneigður. Mismunandi eftir dögum. Það er bara minn veruleiki.

En ég skynja í samfélaginu okkar í dag að það er rík þörf til að tala um að fjölbreytileg mannleg tilvist er til, og öll er hún eðlileg. Það er þörf á að skilgreina og upplýsa eftir því sem fólk uppgötvar sig. Fólk finnur sína líka, tengir og styður hvert annað. Til að tilheyra og finna fyrir öryggi. Til að vernda sinn verurétt. Vernda gegn hatri í bæði orði og á borði. Hinsegin fánar rjúka hver af fótum annars við bensínstöðvar og fyrirtæki. Skornir af í bræði. Og ég spyr mig: Af hverju? Hver er tilgangurinn?

Af hverju skiptir þetta þig máli?

Hvaða mál er verið að sanna eða standa fyrir með hatursgjörningi?

Hatur gegn fólki sem kemur þínu lífi ekkert við? Það meikar ekki sens fyrir mér,“ segir Friðrik Agni.

„Á mínum tuttugu árum hef ég séð tvíkynhneigða berjast og standa upp fyrir sinni tilvist og í gegnum það áttaði ég mig meira að segja að ég væri líklega í þeirra hópi. Takk fyrir það. Ég hef farið í gegnum umræðuna um pankynhneigð og heyrt fólk tjá sig sem slíkt og útskýrt það, ég tengdi ennþá og gat bætt þeim límmiða við hjarta mitt. Ég skildi fólkið og hugsaði: Gott að heyra að við hugsum mörg rosalega svipað og erum svipuð. Ég hef heyrt um eikynhneigð og heyrt fólk tjá sig um það. Viti menn, ég skildi það ekki. Ég tengdi ekki við þeirra útskýringar og upplifun. En vá hvað það var gaman og geggjað. Mannfólk er svo forvitnilegt og fjölbreytt. Forvitni hefur alltaf verið leiðandi afl í mínu lífi þegar kemur að svo mörgu eins og lærdómi, starfsframa og ástum. Aldrei gæti ég ímyndað mér hvernig er að vera eikynhneigður enda er ég það einfaldlega ekki og…hvað með það? Það þýðir ekki að það sé ekki til annað fólk sem upplifir þann sannleika. Og hvað hefur það með mig að gera og af hverju ætti ég að reiðast yfir því að skilja það ekki? Á mínum tuttugu árum og mest nú undanfarin ár hef ég og reyndar heimssamfélagið allt orðið vitni að umræðu og baráttu transfólks fyrir þeirra tilvist. Fyrir tuttugu árum vissi ég ekki muninn á klæðskiptingi og kynskiptingi sem þá var notað yfir transfólk –  í dag höfum við lært að ferlið sem sumt transfólk (athugið ekki allt transfólk) gengur í gegnum er kölluð kynleiðrétting en ekki skipting. Já, ef við hlustum nefnilega á hvert annað þá lærum við. Ég hef ekki mikla þekkingu á transfólki því það er ekki margt um það í mínum nánasta hring. Ég get í raun ekki skilið nákvæmlega hvernig sú upplifun er. Ég hef oft spáð í því samt.“

Þeir sem vilja læra geta það 

„Ég uppgötvaði að ef ég vil læra þá get ég það. Ég fer á netið. Les í bókum og ef ég hef raunverulegan áhuga á að kynnast fólki þá einfaldlega verð ég að nálgast það beint og persónulega og biðja um leyfi til þess að spyrja persónulegra spurninga. Og munum að fólk skuldar okkur ekki útskýringu akkúrat á þeim tíma sem við krefjumst svara. Að þurfa stöðugt að útskýra hver maður er í tíma og ótíma er lýjandi en ég held að þegar aðstæður eru réttar þá er einlæg og vandvirk forvitni rétt nálgun. Ekki til að skilja fullkomlega heldur einfaldlega læra og kynnast manneskju. Ég held það sé erfitt að skilja á fullkominn hátt upplifun sem maður sjálfur hefur aldrei átt né er að velta fyrir sér að reyna eiga. En hér er málið: Við þurfum ekki að skilja hvert annað alltaf fullkomlega. Við þurfum þess ekki til þess að vera í sama herbergi, í sama partýi eða til þess að hlæja að sama brandaranum. Það hefur ekki áhrif á mig, mitt líf né hvað verður um það þó að Gunna sem vinnur í bókhaldi við hliðina á mér í vinnunni hafi fæðst í líkama sem var rangur fyrir hana. Hún kynnti sig sem Gunnu þegar hún byrjaði. Hún er bara Gunna í bókhaldi. Hún er fyndin og gerir æðislegt súrdeigsbrauð.

Nei svona án gríns. Eins og ég nefni að ofan hef ég allt frá upphafi minnar hinsegin tilveru bara ekki spáð í þessu öllu nema með að heyra, hlusta, læra og forvitnast. Svo segi ég: OK cool. YOU BE YOU honey. Eða eitthvað.

Því ég segi aftur: Af hverju skiptir það þig máli? Hvernig skiptir það þig máli hvað annað fólk gerir í kynlífi svo lengi sem allir í því njóta þess með virðingu? Hvaða máli skiptir það þig hvernig annað fólk klæðir sig? Hvaða máli skiptir það þig hvernig annað fólk elskar sín á milli svo lengi sem það er að elska?

Nú er Pride runnið upp í mitt 21. skipti og mér er þakklæti ofarlega í huga. Þakklátur fyrir  samfélagið sem ég fæddist inn í. Íslenska samfélagið og hinsegin samfélagið. Við sem þjóð erum nefnilega heilt yfir opin, góð og skilningsrík þjóð. Ég ætla ekki að láta nokkra hatursbelgi sem rífa niður fána telja mér trú um eitthvað annað. Ég er þakklátur alls hinsegin fólks sem arkaði stræti Reykjavíkur á undan mér til að byggja þá brú sem ég hef gengið gegnum árin. Brúin er ekki kláruð enn. Við stöndum nú á henni hálfri, yfir fljótinu og sjáum yfir á hinn endann. Þar er sko partý skal ég segja ykkur. Og okkur er öllum boðið. Ef við bara viljum.

Gleðilegt Pride honnís.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu
Fréttir
Í gær

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum