fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Stór hluti vandans er einmitt þessi völd tengslanetsins, sem slær skjaldborg utan um vissa valdamikla gerendur og verndar þá“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 7. janúar 2022 20:13

Arnar Grant, Hreggviður Jónsson, Þórður Már Jóhannesson, Logi Bergmann Eiðsson og Ari Edwald þurftu nýlega að víkja úr starfi vegna ásakana um kynferðisbrot.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslandsdeild Transparency International (IT) hefur sent frá sér harðorða ályktun  í tilefni máls Vítalíu Lazareva sem steig fram í hlaðvarpinu Eigin konur og greindi frá kynferðisofbeldi sem hún var beitt. En um fátt annað hefur verið rætt síðustu daga eftir að fimm áhrifamenn í íslensku samfélagi stigu til hliðar eða fóru í leyfi frá störfum eftir að vera nafngreindir sem meintir gerendur í málinu.

Í ályktuninni eru læk stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna, hagsmunafulltrúa og fleiri við yfirlýsingu Loga Bergmanns harðlega gagnrýnd og skorað á stjórnvöld að sýna ábyrgð í verki og bæta stöðu þolenda á Íslandi á borði frekar en í orði. Gerendameðvirkni sé spillingarmenning.

„Í kjölfar #MeToo hafa ósjaldan heyrst þær raddir að þau sem stíga fram og lýsa brotum gegn sér beri siðferðileg skylda til að koma fram undir nafni og birta nöfn gerenda ellegar vera sökuð um athyglissýki og að þeim beri að fara beint til lögreglu – fara hina svo kölluðu ‘réttu leið’. Þessi málflutningur er gerendameðvirkni, sem er þegar betur er að gáð spillingarmenning og spillingarhvati sem við verðum að uppræta í sameiningu. Staðreyndin er að vantraust á réttarkefinu þegar kemur að þessum málum er þvílíkt að brotaþolar verða hreinlega að greina frá ásökunum opinberlega til að brugðist sé við með aðgerðum. Þetta er vitað eftir baráttu síðustu ára og fjölda frétta af brotalöm í meðhöndlun þessa málaflokks, því miður.“

Ályktin stjórnar Íslandsdeildar TI í heild sinni: 

Gerendameðvirkni er spillingarmenning

Íslandsdeild Transparency International vill koma eftirfarandi á framfæri í kjölfar frásagnar Vítalíu Lazareva.

Í hlaðvarpinu Eigin konur, 05.01.2022, sagði Vítalía eftirfarandi um sína stöðu og baráttu fyrir réttlátri málsmeðferð: „Ég veit ekki hvernig allt fer. Það er alveg spilling líka í gangi og þeir náttúrulega eru valdamiklir og það hefur allt mikil áhrif.”

Alþjóðasamtök Transparency International hafa um langt skeið fjallað um kynferðisofbeldi sem spillingarhvata. Sérstaklega kynferðisofbeldi þar sem aðilar með völd og áhrif misnota ítök sín til að brjóta kynferðislega á fólki í skjóli sömu áhrifa og valds. Vítalía hefur sjálf lýst því hvernig áhrif, félagsleg staða, tengsl og ítök mannanna voru órjúfanlegur hluti af ofbeldinu sem hún upplifði. Þá hefur hún birt samskipti sín við mennina eftir atvikin sem sýna hvernig mennirnir beittu stöðutengdum áhrifum sínum til að grafa undan frásögn hennar, leituðu upplýsinga um hennar einkalíf og gerðu lítið úr henni sjálfri sem og atvikunum.

Þótt kynferðis- og efnahagsbrot séu eðlisólík þá fá samt þolendur kynferðisofbeldis einum of oft svipaða meðferð og uppljóstrarar um spillingarbrot. Aðferðirnar eru þær sömu, persónulega áhættan svipuð, og andlega álagið sambærilegt. Það ætti því að segja sig sjálft að þolendur kynferðisofbeldis þurfa að fá tryggða samskonar vernd og uppljóstrar um spillingarbrot. Hér er verið að tala um vernd gegn atvinnumissi, orðsporðsvernd, vernd gegn hefndaraðgerðum og aðstoð við að rjúfa þögnina, sem og að kerfið sýni skilning á aðstöðumuninum.

Það þarf engum að dyljast að staða gerenda í kynferðisbrotamálum, samfélagstengingarnar og áhrifanetið í kringum þá, hefur áhrif á líðan brotaþola og getu til að leita réttar síns. “Líka bara hvert ég get leitað og hverjum ég get treyst. Ég treysti ekkert hverjum sem er og ég get ekki talað við hvern sem er af því að þeir eru bara það stórir að þeir eru bara út um allt. Líka á stöðum sem fólk heldur að þeir séu ekki. Þeir eru bara með fólk út um allt.“ Í slíku umhverfi eykst því áhætta á vaxandi almennu vantrausti á réttarkerfinu sjálfu og því er með öllu ólíðandi að brotaþolar og almenningur skuli horfa upp á stjórnmálafólk og einstaka fjölmiðlamenn hegða sér með þeim hætti sem segja má að falli undir meðvirkni með gerendum. ‘Þumall’, ‘like’ eða sambærileg viðbrögð áhrifafólks á samfélagsmiðlum við yfirlýsingum geranda rennir í raun stoðum undir sannleikann í orðum Vítalíu. Stór hluti vandans er einmitt þessi völd tengslanetsins, sem slær skjaldborg utan um vissa valdamikla gerendur og verndar þá.

Með #MeToo hefur margoft komið fram að brotaþolar vantreysti yfirvöldum þegar kemur að því að sækja réttlæti í kjölfar kynferðisofbeldis. Umræðan um gerendameðvirkni á því fullan rétt á sér. Tölfræði og frásagnir brotaþola tala einfaldlega sínu máli. Kerfið og valdafólk sem mannar það, þ.á.m. ráðherrar, getur því ekki falið sig á bakvið skort á vitneskju, eða vinskap við vini sem sakaðir eru um brot, þegar almenningur furðar sig á að þeim sem sagður er hafa beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi sé vorkennt meira en þeim sem segist hafa mátt þola niðurlæginguna og sársaukann.

Þótt atburðir síðustu daga bendi til að vatnaskil séu að verða í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og að valdamenn íslensks viðskiptalífsins hafi stigið tímabundið til hliðar í gær, þá getur stjórn Transparency International á Íslandi ekki annað en lýst vonbrigðum með viðbrögð þeirra ráðherra, einstaka fjölmiðlamanna, stjórnmálafólks og hagsmunavarða atvinnulífsins sem sáu ástæðu til að lýsa yfir persónulegri velþóknun sinni á yfirlýsingu Loga Bergmann þar sem hann sakar Vítalíu um að fara með ósannindi í þessu alvarlega máli. Það er ekki í anda heilinda og faglegrar nálgunar á valda- og áhrifastöðu að merkja sig fyrirfram sem stuðningsaðila áhrifamikils einstaklings sem grunaður er um kynferðisbrot.

Í kjölfar #MeToo hafa ósjaldan heyrst þær raddir að þau sem stíga fram og lýsa brotum gegn sér beri siðferðileg skylda til að koma fram undir nafni og birta nöfn gerenda ellegar vera sökuð um athyglissýki og að þeim beri að fara beint til lögreglu – fara hina svo kölluðu ‘réttu leið’. Þessi málflutningur er gerendameðvirkni, sem er þegar betur er að gáð spillingarmenning og spillingarhvati sem við verðum að uppræta í sameiningu. Staðreyndin er að vantraust á réttarkefinu þegar kemur að þessum málum er þvílíkt að brotaþolar verða hreinlega að greina frá ásökunum opinberlega til að brugðist sé við með aðgerðum. Þetta er vitað eftir baráttu síðustu ára og fjölda frétta af brotalöm í meðhöndlun þessa málaflokks, því miður.

Það þýðir lítið að tala um að réttarríkinu sé ógnað vegna harkalegra viðbragða almennings og baráttusamtaka brotaþola. Samlíkingar við ´dómstóla götunnar´ og yfirlætisfullir frasar um ´sakleysi uns sekt sé sönnuð´ eða ´réttar leiðir´ til að takast á við þessi mál, á meðan ítrekað er horft framhjá kerfisbundnum ágöllum í meðhöndlun þeirra, eru einfaldlega ekki þau viðbrögð sem nú þarf. Kerfið hefur margsinnis fengið tækifæri til að mæta áskoruninni en ekki getað gert það. Hvers vegna?

Stjórn Íslandsdeildar Transparency International vill sjá yfirvöld taka ábyrgð. Allt frá upphafi kvenréttindabaráttunnar hefur verið ljóst að staða brotaþola er skekkt vegna kerfisbundinna þátta. Ítrekað hafa verið unnar skýrslur og gefin loforð um umbætur en allt kemur fyrir ekki. Nú verða verkin að tala.

Fólk í ábyrgðarstöðu verður að sýna meiri skilning á þeirri flóknu og alvarlegu áskorun sem það stendur frammi fyrir. Það gengur ekki að lofa umbótum og taka þátt í auglýsingaherferðum gegn ofbeldismenningu einn daginn en þann næsta skipa aðila í áhrifastöður sem þekktir eru í samfélaginu fyrir að tortryggja reynslusögur brotaþola. Að sjálfsögðu treystir almenningur heldur ekki slíku kerfi ef það er mannað ráðherrrum sem lýsa opinberlega velþóknun á yfirlýsingum þeirra sem sakaðir eru um ofbeldi og merkja sig í lið með þeim vegna stjórnmála- eða vinatengsla. Enn síður er það til að ýta undir traust og umbætur að dómsmálaráðherra velji sér aðstoðarmenn sem árum saman hafa nýtt áhrif sín og aðgang að fjölmiðlum til að taka málstað gerenda umfram málstað brotaþola.

Íslandsdeild þakkar öllum þeim sem leitt hafa baráttuna fyrir betra samfélagi og réttlæti fyrir brotaþola undanfarin ár og áratugi.

Stöndum saman gegn ofbeldi og spillingu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala