fbpx
Mánudagur 27.september 2021
Fréttir

Guðmundur Karl læknir kærður til lögreglu – „Þeir eru að saka mig um að dreifa eitri“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 21. júní 2021 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lyfjastofnun hefur kært Guðmund Karl Snæbjörnsson, sérfræðing í heimilislækningum, vegna gruns um að hann hafi dreift lyfinu Ivermectin á Íslandi og hafi uppi áform um að setja lyfið saman hér á landi og koma því á markað. Lögregla hefur yfirheyrt Guðmund Karl vegna málsins.

Guðmundur Karl er á meðal þeirra sem hafa talað stíft fyrir notkun Ivermectin sem meðferð fyrir sjúklinga sem hafa smitast af Covid-19 og einnig sem forvörn gegn smitum og veikindum veirunnar. Lyfjastofnun hafnar því með öllu að lyfið hafi virkni gegn Covid-19 og hefur áður krafið Guðmund Karl um að taka niður Facebook-færslur, að viðlögðum dagssektum og málssókn, þar sem hann talar fyrir notkun lyfsins og segist bera þar fyrir sig vísindalegum niðurstöðum. Sjá nánar frétt Fréttablaðsins frá því í janúar.

Guðmundur Karl hefur einnig varað við bólusetningum gegn Covid-19 og haft uppi gagnrýni á ýmislegt í stefnu sóttvarnayfirvalda í baráttunni gegn Covid-faraldrinum. Hann segir að kæra Lyfjastofnunar sé tilkomin vegna þess að hann hafi sótt að stofnuninni og krafist vísindalegrar raka fyrir höfnun hennar á lyfinu Ivermectin. „Þeir svara með því að fara í manninn. Þegar ég lagði fram síðasta kröfubréf til Lyfjastofnunar þá kæra þeir mig tveimur dögum seinna til lögreglu.“

„Ég hef skrifað meira um Covid en flestir aðrir kollegar mínir hér á landi og síðustu níu mánuði hef ég beitt mér fyrir notkun Ivermectin. Við erum að sjá gríðarlegan árangur af notkun þessa lyfs úti í heimi. En hvorki kollegar mínir á Landspítalanum né sóttvarnayfirvöld hafa kynnt sér þetta nokkuð. Ég kynnti lyfið fyrir kollegum á Landspítalanum á síðasta ári og höfðu þeir ekki heyrt lyfsins getið. Þeir tala líka umfram getu sína og þekkingu og sóttvarnalæknir leitar álits þeirra varðandi notkun lyfsins,“ segir Guðmundur Karl. Honum er nokkuð í mun að fræða blaðamann um lyfið en blaðamaður vill ólmur vita um efni kærunnar frá honum og grípur inn í tal hans með spurningar þar um. Guðmundur Karl heldur áfram:

„Ég hef verið að krefja Lyfjastofnun og Sóttvarnalækni skýringa á því hvers vegna okkur læknum er meinað að gefa lyf sem við eigum að geta gefið samkvæmt Lyfjalögum og af mannúðarstæðum, tilgreint í sömu lögum. Fyrir almenning. Skýringarnar hafa ekki komið og þeir vissu að ég var að fara með þetta í stjórnsýslukæru sem er komin til heilbrigðisráðuneytisins og fer áfram ef þetta verður ekki afgreitt með eðlilegum hætti. Ég var kærður á þeim forsendum að þeir höfðu heyrt utan að sér að ég hefði áhuga á framleiðslu Ivermectin. Ég var í viðræðum við lyfjafyrirtæki sem heitir Pharmarctica og er staðsett á Grenivík um að setja saman Ivermectin til að gera klínískar rannsóknir á því hér á landi. Ég var í viðræðum við lækna Landspítala um þetta og Lyfjastofnun var eðlilega kunnugt um málið, en neitaði aðstoð og framgangi þess.“

Þess má geta að sú lagagrein lyfjalaga sem Guðmundur Karl vísar þarna í (13. gr.) er eftirfarandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. er af mannúðarástæðum heimil notkun á takmörkuðu magni mannalyfja sem ekki hafa fengið markaðsleyfi hér á landi í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur um skilyrði fyrir veitingu leyfis til notkunar lyfja af mannúðarástæðum.“

Fengu leyfi til að ávísa lyfinu á sjálfa sig

Guðmundur Karl var tekinn til yfirheyrslu hjá lögreglu en hann hrósar lögreglumönnum fyrir fagmannlega og fágaða framkomu og hefur ekkert út á lögregluna að setja í málinu.

„Lögreglan spurði hvort ég hefði verið að framleiða lyf, þeir höfðu heyrt af því. Næsta spurning var sú hvort ég hefði skrifað undanþágulyfseðla til fólks upp á Ivermectin. Það er rétt, að við skrifuðum upp á þetta fyrir okkur sjálfa, nokkrir læknar, í desember síðastliðnum. Við fengum þá lyfseðla samþykkta en okkur var meinað um að skrifa upp á fyrir eiginkonur okkar og alþingismenn og lögfræðinga sem voru á óskalistanum eftir þessu lyfi. Þessu var neitað fyrir alla nema okkur sjálfa. Þarna var Lyfjastofnun að brjóta jafnræðisreglu og meðalhófsreglu. En spurningarnar héldu áfram og það var verið að klína því á mig að þessum lyfjum hefði ég verið að dreifa til annarra. En það hvarflaði ekki að mér að leysa lyfið út fyrir sjálfan mig fyrst ég mátti ekki gefa það öðrum. Ég leysti því lyfið aldrei út og það er ekki hægt að dreifa lyfjum sem ekki eru leyst út,“ segir Guðmundur Karl og hafnar þar með algjörlega ásökunum í kæru Lyfjastofnunar.

Hann segir að í kærunni sé hann meðal annars sakaður um að hafa brotið 173. grein almennra hegningarlaga en þar segir:

„Hafi maður á boðstólum eða vinni að því að útbreiða sem læknislyf eða varnarmeðul við sjúkdómum muni, sem hann veit, að ekki eru til þess hæfir, og að notkun þeirra í þessu skyni er hættuleg lífi manna eða heilbrigði, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

„Þeir eru að saka mig um að dreifa eitri og að brjóta lagagrein sem getur varðað sex ára fangelsi,“ segir Guðmundur Karl.

Hann ætlar að láta hart mæta hörðu:

„Þeir ráðast á manninn af því þá skortir rök. Það eru engar aukaverkanir af þessu lyfi og það hefur margsannað gagnsemi sína. Ef Lyfjastofnun samþykkir þetta ekki þá er í undirbúningi að fara með málið áfram og í fjöldamálsókn ef þörf verður á því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu gæti stöðvast í allt að heilt ár

Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu gæti stöðvast í allt að heilt ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður G. tjáir sig um kærurnar – „Kannski vill lögreglan gera húsleit“

Sigurður G. tjáir sig um kærurnar – „Kannski vill lögreglan gera húsleit“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

14 ára sögu Harmageddon á Xinu 97.7 lýkur í dag

14 ára sögu Harmageddon á Xinu 97.7 lýkur í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ – Samherjamenn töluðu frjálslega um mútugreiðslur

„Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ – Samherjamenn töluðu frjálslega um mútugreiðslur
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Edda svarar fyrir sig eftir að Sigurður kallaði hana lygasjúka – „Galið að krefja fólk um einhver bull svör einungis til þess að þagga niður í fólki“

Edda svarar fyrir sig eftir að Sigurður kallaði hana lygasjúka – „Galið að krefja fólk um einhver bull svör einungis til þess að þagga niður í fólki“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Innhringjandinn sá að sér og baðst afsökunar – „Við höfðum öll einhverntímann gert mistök“

Innhringjandinn sá að sér og baðst afsökunar – „Við höfðum öll einhverntímann gert mistök“