fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

MeToo-saga Atla Rafns loksins afhjúpuð – Segir hana lygasögu dóttur áhrifamanns – „Leikstjórinn vildi helst stefna stúlkunni“

Erla Dóra Magnúsdóttir, Hjálmar Friðriksson
Fimmtudaginn 26. september 2019 11:34

Atli Rafn. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð í máli Atla Rafns Sigurðssonar gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur borgarleikhússtjóra fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Atli fer meðal annars fram á 10 milljónir í skaðabætur fyrir brottvikningu úr starfi hjá Leikfélagi Reykjavíkur í desember 2017 í kjölfar fjölda ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Atli Rafn greindi frá því í skýrslutöku að fyrir brottrekstur hans frá Borgarleikhúsinu í desember 2017 hafi hann aldrei átt í vandræðum með að fá verkefni. Hann hefði verið eftirsóttur og haft svigrúm til að velja sér verkefni. „Það má segja að minn ferill hafi staðið í miklum blóma þar til ég var rekinn frá Leikfélagi Reykjavíkur 2017,“ sagði Atli Rafn.

Var hissa

Atli Rafn segir að ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi hafi komið honum í opna skjöldu og hann hafi átt sér einskis ills von þegar hann var boðaður á fund uppi í Borgarleikhúsi þann 16. desember 2017 þar sem hann var rekinn.

„Þetta var laugardagur, rétt fyrir jól og ég fæ skilaboð frá Kristínu hvort ég geti komið og hitt hana í hádeginu. Ég segi strax við hana að ég sé á leiðinni í jólamat úti í bæ með stórfjölskyldunni og eigi erfitt með að koma í hádeginu en ég geti komið strax eftir hádegið.“

Atla fannst óvenjulegt að vera kallaður á fund á laugardegi, en í ljósi þess að frumsýning á verki þar sem hann gegndi stóru hlutverki var fram undan og mörg verkefni á döfinni sem verið var að ráða í, taldi hann að fundurinn varðaði hefðbundin mál tengd störfum hans fyrir leikfélagið, jafnvel taldi hann að til stæði að bjóða honum fasta stöðu við leikhúsið. „Ég var algjörlega grunlaus um efni fundarins. Það var ekki inni í mínu prógrammi,“ sagði Atli.

Á fundinum var Atla Rafni greint frá því að alvarlegar ásakanir um áreitni og ofbeldi hefðu borist á hendur honum. Því hafi verið ákveðið að segja honum upp störfum og draga hann úr öllum verkefnum. „Ég hef unnið í þessum bransa í að verða 25 ár og komið vel fram við fólk og hefur aldrei, fyrr né síðar, verið kvartað undan mínum störfum, hvorki í mínu persónulega lífi eða faglega,“ sagði Atli og hélt áfram: „Þetta kom  algjörlega flatt upp á mig á þeim tíma og gerir enn. Ég þekki ekki til neinna atvika og hefur verið haldið í algjöru myrkri.“

Kristín ældi næstum

Atli Rafn segir það ákaflega erfitt að verjast ásökunum ef hann fái ekki upplýsingar um hver hefði borið þær fram eða nákvæmlega hvers eðlis þær væru. Hann gæti ekki hugsað um eitt einasta tilvik þar sem upplifun meints þolanda hans gæti hafa verið með þeim hætti að viðkomandi hefði getað upplifað kynferðislega áreitni eða ofbeldi af hans hálfu. „Mín viðbrögð voru einfaldlega þau að ég hef aldrei verið jafn hissa á ævinni,“ sagði Atli.

„Ég auðvitað þráspurði þær um upplýsingar, án árangurs. Ég var svo hissa að mér fannst svona þegar það leið á fundinn, að mín viðbrögð kæmu þeim á óvart. Ég held að þær hafi frekar búist við að atvik myndu þróast með þeim hætti að þarna yrði einhver iðrandi syndari sem myndi skammast sín fyrir framan þær.“

Hver voru þeirra viðbrögð?

„Bara engin, jú Kristín tjáði mér að henni liði alveg sérstaklega illa og hefði verið komin að því að kasta upp nokkru sinnum um morguninn,“ segir Atli. Hann hafi jafnvel fundið til með Kristínu.

„Eftir að MeToo-byltingin hófst, þar voru bara gefnar út nýjar leikreglur og ég hugsaði: „Já, aumingja konan hún getur ekki gert neitt annað en að reka mig á staðnum.“ En ég hef náttúrulega aðrar skoðanir á því í dag.“

Atli Rafn segist hafa reynt að standa beinn í baki eftir þennan fund og fór samdægurs á tónleika með fjölskyldu sinni. Þar hins vegar áttaði hann sig á stöðu sinni. „Ég er algjörlega orðinn valdalaus í eigin lífi. Ég er bara eins og einhvers konar vélarvana rekald úti á rúmsjó,“ lýsti Atli Rafn en í kjölfarið ákvað hann að leita til lögmanns.

Atli greinir svo frá því að hann hafi vitað strax á fundinum að þessi ákvörðun leikfélagsins myndi hafa gífurlegar afleiðingar fyrir hann og hans líf. Á fundi með Kristínu og lögmönnum gerði Atli leikhúsinu grein fyrir þessu. „Við bentum þeim á það að þetta væri harðasta úrræði sem væri mögulega hægt að beita, þetta myndi hafa hryllilegar afleiðingar fyrir mig og mína fjölskyldu. Það væri verið að svipta mig ærunni og mögulega lífsviðurværinu líka,“ sagði Atli Rafn.

Kannaðist við sögu

Þegar lögmaður spurði Atla Rafn hvort hann hefði þekkt sjálfan sig sem andlag í einhverri af þeim frásögnum sem birtust frá konum í Sviðslistum í Stundinni í tengslum við MeToo-byltinguna, svaraði Atli játandi: „Já, ég vil fyrst segja að MeToo-byltingin fór ekki fram hjá einum einasta manni og ekki mér heldur. Mér fannst þetta gott og þarft og studdi það og hef talið mig jafnréttissinna og femínista og mér hefur þótt mega bæta okkar menningu að mörgu leyti og fundist halla á konur í þeim efnum […] „Mig óraði ekki fyrir að ég yrði andlag MeToo-sagna en vaknaði við vondan draum þegar ég las í Stundinni lygasögu um sjálfan mig.“

Atli Rafn segir að sagan hafi varðað atvik sem átti sér stað þegar hann lék í senu í kvikmynd með tveimur ungum leikkonum. „Senan lýsir einhvers konar kynferðislegum athöfnum, við erum á nærfötum og erum að drekka.“ Leikstjórinn vildi hafa alvöru áfengi við hönd, en þá kom á daginn að önnur stúlkan átti við áfengisvandamál að stríða. „Allir sýndu því fullt tillit og það var hellt upp á sódavatn fyrir hana,“ segir Atli.

Atli bendir á að heilt kvikmyndatökulið hafi verið á svæðinu og til séu óklipptar upptökur af senunni. „Þar gerðist ekkert sem var ósæmilegt eða gat orkað tvímælis að nokkru leyti. Nema í þessari MeToo-sögu les ég mér til mikils hryllings að ég hafi átt að vera blindfullur og rekið upp í hana tunguna,“ segir Atli Rafn.

Dóttir áhrifamanns

Atli segist hafa brugðist við sögunni með því að hringja í framleiðanda og leikstjóra myndarinnar. Bað hann þá um að stíga fram og vinda ofan af þessum meintu lygum. „Þeir, sérstaklega framleiðandinn, voru hræddir og sögðu það verður ekkert úr þessu. Leikstjórinn vildi helst, var herskárri, og vildi helst stefna stúlkunni fyrir meiðyrði eða eitthvað slíkt.“

Stúlka þessi hafi verið dóttir áhrifamanns og kollega Atla Rafns í Borgarleikhúsinu. Þegar Atli hóf störf við leikhúsið hafi dóttir þess manns, sem og maðurinn sjálfur, virt Atla Rafn að vettugi. Svo mikið að Atla fannst það bera keim af eineltistilburðum. „Ég vil aðeins nefna það að ég var þarna um haustið 2017 að vinna í Borgarleikhúsinu og varð þess strax áskynja þegar ég byrjaði að vinna þarna að það væri eitthvað ekki í lagi. […] Pabbi hennar líka sem er listamaður innan leikhússins og er þar mjög áberandi og mjög handgenginn leikhússtjóranum og þau heilsa mér ekki.“

Aðspurður segist Atli Rafn telja þetta atvik hafa verið aflvaka að uppsögn hans. „Já, ég meina, þetta mál, þetta atriði í kvikmynd og MeToo-sagan og hennar upplifun á atburðum, það hefur að mínu viti haft einhver áhrif og orðið aflvaki. Það er ekki flókið að leggja saman 2 og 2 og fá fjóra.“

Bláókunn kona í kælinum í Bónus

Atli segir málið hafa haft gríðarleg áhrif á líf hans. „Þetta hefur haft gríðarleg áhrif fyrir mig persónulega og fyrir mína fjölskyldu; konuna mína, börnin, systur mína, vini mína og ég gæti talið svona áfram. Það er óskaplegt á einhvern hátt að vera í þeirri stöðu að vera sakaður um eitthvað sem maður veit ekki hvað er. Það gerir það ómögulegt fyrir mann að verjast því á nokkurn hátt eða vinna úr því.“

Hefðu ásakanirnar verið lagðar fram við lögreglu þá hefði Atli að minnsta kosti átt kost á að verjast þeim og veltir hann því upp hvort slíkt hefði ekki verið betra fyrir hann. „Það hefur ekki liðið dagur síðan þetta kom upp að ég hafi ekki hugsað um þetta.“ Meðal annars dreymi hann þetta á næturnar. „Ef ég er ekki sjálfur að hugsa um þetta þá er einhver nákominn mér sem vill ræða þessi mál eða einhver bláókunn kona í kælinum í Bónus,“ sagði Atli.

„Ég hef þurft að forðast gleðskap þar sem fólk er að fá sér að drekka því þá vill það bara ræða þessa hluti. Ég hef varið ómældum tíma í að reyna að komast að raun um það sem gerðist, það hefur ekki tekist og kannski tekst það aldrei,“ sagði Atli Rafn.

Mikil áhrif

Hann sagði áhrifin hafa verið gífurleg. „Þetta hefur haft áhrif á börnin mín. Sonur minn er nýútskrifaður leikari úr Listaháskólanum og dóttir mín var á þessum tíma formaður Leikfélags MR svo þetta kom bara mjög illa við fjölskyldu mína og gerir enn þá.“ Meðal annars hafi kona hans verið þunguð þegar málið kom upp: „Þetta hefur haft mikil áhrif á þetta, hún var ólétt þegar þetta kom upp og við auðvitað veltum fyrir okkur hvort hennar vanlíðan og streita myndi hafa áhrif á barnið þegar það fæddist,“ sagði Atli.

„Síðan fer ég að vinna í Þjóðleikhúsinu í janúar 2019,“ sagði Atli. En vinnan hafi þó ekki verið með sama móti og áður og sé umfang hans í leikhúsinu mun minna en hann hafði áður vanist. Eins hafi verkefnum utan leikhússins fækkað mikið, nánast þurrkast út með öllu. „Mig langar kannski bara svona aðeins, því fyrir mér er þetta svo mikil ráðgáta, leikhúsheimurinn á Íslandi er lítill og þar spyrst allt út. Þetta er þannig bransi að það vita allir allt um alla og það eru engin leyndarmál til, og það eru engin leyndarmál sem endast, nema kannski um það hvern Atli Rafn á að hafa áreitt,“ sagði Atli Rafn og bætti við: „Mínar atvinnuhorfur eru í raun komnar í ruslflokk. Ég hef aldrei þurft að leita mér að vinnu í þessum bransa eins og ég hef áður sagt, ég hef valið mér verkefni, minn leiklistarferill stóð í miklum blóma þar til þetta gerðist.“

Eftir að Atla Rafni var vikið úr störfum þá missti hann meðal annars fastan samning við auglýsingalestur fyrir Krónuna. „Mín laun fyrir önnur störf sem verktaki. Það varð algjört hrun í þeim 2018, svona fyrir utan þau laun sem ég fékk vegna starfsloka við Leikfélag Reykjavíkur.“ Hann sagði verktakatekjur hafa numið 170 þúsund krónum á árinu 2018. „Og það var fyrir erlendan aðila. Það var enginn innlendur íslenskur aðili sem vildi vinna með mér eftir að þetta kom upp.“

Helstu rök lögmanns Atla eru að reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum hafi ekki verið fylgt. Atla hafi ekki verið gefið tækifæri til að svara fyrir ásakanirnar, en slíkt geti hann ekki þegar hann fær ekki að vita um hvað þær snúist eða hver lagði þær fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“