fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Mikil sala á rafrettum á Íslandi – Sumar verslanir græða milljónir

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 7. desember 2019 11:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rafrettur hafa notið sívaxandi vinsælda á Íslandi síðustu ár þótt deilt sé um heilsufarslegt ágæti þeirra. Mörg fyrirtæki hafa stokkið á þennan vinsældavagn og sérhæft sig í sölu á rafrettum og rafrettutengdum vörum. Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum lög um rafrettur og áfyllingar á rafrettur. Áður var engum reglum fyrir að fara um sölu slíks varnings sem núna þarf að lúta reglum áþekkum þeim er gilda um tóbak. Umdeildari ákvæði laganna kveða á um hámarksstyrk á vökvum og heimild til ráðherra til að takmarka markaðssetningu á bragðefnum sem kynnu að höfða til barna. Í ljósi þessa ákvað DV að líta á fyrra rekstrarár vape-verslana og sjá hvernig salan og reksturinn hefur gengið.

Fairvape ehf

Rekstrartekjur Fairvape ehf. voru 187,4 milljónir á árinu 2018 og 136,6 árið á undan. Þó svo að heildarhagnaður fyrirtækisins fyrir árið 2018 hafi ekki verið mikill þá var greinilega mikill vöxtur. Bæði jukust rekstrartekjur og stöðugildum fjölgaði. Einnig hafði launakostnaður tvöfaldast á milli áranna 2017 og 2018, en föstum stöðugildum fjölgaði aðeins úr 14 í 17. Fairvape ehf. rekur í dag fjórar verslanir; tvær í Reykjavík, eina í Hafnarfirði og eina á Selfossi.

Gryfjan

Gryfjan var ein fyrsta verslunin þar sem hægt var að kaupa rafrettur. Rekstrartekjur á árinu 2018 voru 113,8 milljónir en voru 188,3 árið á undan. Heildarhagnaður fyrir 2018 var 21,6 milljónir en var 35 milljónir árið á undan. Fyrirtækið er í eigu mæðgnanna Ernu Margrétar Ottósdóttur og Hafdísar Þorleifsdóttur. Samkvæmt ársreikningi er lagt fram að 12 milljónir verði greiddar í arð. Gryfjan ehf. rekur í dag þrjár verslanir; í miðbænum, Skeifunni og í Vestmannaeyjum.

Póló

Þegar söluturninn Póló við Bústaðaveg hóf að selja rafrettur og tengdar vörur varð ekki aftur snúið og má segja að rafrettusalan hafi nánast tekið yfir alla aðra starfsemi söluturnsins. Rekstrartekjur voru 177,9 milljónir árið 2018 en 16,5 milljónir á árinu 2017, en einkahlutafélagið Pólóborg ehf. var stofnað á því ári. Fyrirtækið rekur nú verslanir í Kópavogi, Reykjavík og Hafnarfirði.

Djákninn ehf

Djákninn ehf. hefur sérhæft sig í landsbyggðinni frekar en í höfuðborginni þó svo að fyrirtækið reki eina verslun í Reykjavík í dag. Rekstrartekjur Djáknans árið 2018 voru 107,3 milljónir, en voru 113,4 árið á undan. Rekstrargjöld voru þónokkuð há á síðasta ári og því var tap á rekstrinum sem nam 1,3 milljónum, en árið áður hafði verið ríflega 11 milljóna króna hagnaður af rekstrinum. Djákninn ehf. rekur nú verslanir í Reykjavík, á Akureyri, Reyðarfirði og Sauðárkróki.

Skýjaborgir ehf

Skýjaborgir ehf. hóf starfsemi sína síðla árs árið 2017. Rekstrartekjur fyrirtækisins á síðasta ári námu 27 milljónum en tap var á rekstrinum yfir árið upp á 691 þúsund krónur. Á árinu 2018 var aðeins eitt stöðugildi hjá fyrirtækinu en núna eru komnar tvær verslanir, önnur við Suðurlandsbraut en hin á Höfðabakka, svo þrátt fyrir tap á síðasta ári virðist þetta nýstofnaða fyrirtæki hafa komið sér vel fyrir á íslenskum vape-markaði.

Icevape ehf

Rekstrartekjur árið 2018 námu 84,2 milljónum en voru 75,4 árið á undan. Ársuppgjör var jákvætt og skilaði hagnaði upp á 1,8 milljónir. Icevape rekur netverslun og verslun á Akureyri. Reksturinn hófst á árinu 2015 og hefur verið í stöðugum vexti síðan þá.

Rafrettur vinsælar 

Af framangreindum upplýsingum má sjá að Íslendingar keyptu rafrettur og/eða tengdan búnað fyrir tæpar 700 milljónir króna á árinu 2018, bara við framangreindar verslanir. En það eru fleiri fyrirtæki sem selja rafrettur og svo er líka einhverjir Íslendingar sem panta að utan. Því má áætla að Íslendingar hafi keypt rafrettur og/eða tengdan búnað fyrir um milljarð á síðasta ári.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala