fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Eiríkur skólar Jakob Frímann vegna ummæla hans um einhverfu – „Mér finnst allt þetta fólk eiga betra skilið“

Jón Þór Stefánsson
Miðvikudaginn 16. október 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Opið bréf Eiríks Þorlákssonar, fyrrverandi formanns einhverfusamtakanna, til Jakobs Frímanns Magnússonar birtist í dag. Bréfið varðaði mál sem DV fjallaði um í sumar er Jakob Frímann var harðlega gagnrýndur fyrir að tala um „kokteilakenningu“.

„Þegar slíkt mengað sæði rennur saman við mengað egg, þá gerist þessi kokteil-effect, sem þýðir að börnin fæðast starandi út í blámann og ná ekki sambandi við neitt. Bráðaeinhverfa!“

Í bréfi Eiríks sem ber nafnið Nokkur orð frá „menguðum sæðisgjafa“, er rætt ítarlega um þessa kenningu, en líkt og Jakob tók fram í afsökunarbeiðni sinni í sumar þá er það vísindakonan Barbara Dameneix sem hefur helst ritað um kenninguna.

Hér má lesa bréf Eiríks í heild sinni.

Eiríkur viðurkennir að Barbara sé virt vísindakona, en þó umdeild. Hann segir kenningu hennar falla í ákveðna gryfju.

„Hún fellur hins vegar í pytti, sem allir fræðimenn ættu að forðast; þar má annars vegar nefna mikilvægi skammtastærða, og hins vegar þá staðreynd að fylgni er ekki hið sama og orsakasamhengi – og loks er algengt að það liggi engar rannsóknir fyrir sem styðji fullyrðingar hennar.“

Eiríkur líkir fullyrðingu við tilbúna kenning um að flugeldar valdi einhverfu.

„Þannig má nefna fullyrðingu Demeinex um að flugeldar valdi einhverfu. Grundvöllur þeirrar fullyrðingar er sú að í flugeldum má finna (í afar litlu mæli þó) efnið perklórat, sem m.a. getur haft áhrif á framleiðslu skjaldkirtilshormóns. Röksemdafærslan er sem sagt eitthvað á eftirfarandi leið: Ef perklórat kemur í veg fyrir að líkaminn framleiði nægilega mikið af skjaldkirtilshormóni til að tryggja vöxt og virkni taugakerfisins, veldur perklórat úr flugeldum einhverfu.“

„Gallinn við þessa fullyrðingu vísindakonunnar er að það styður engin rannsókn þessa fullyrðingu, hvorki á þeim sem vinna við framleiðslu flugelda né á þeim sem horfa á flugelda springa á næturhimninum. Engar. Og efnið sjálft er afar vatnsleysanlegt og er því að finna í fjölda matvæla og með öðrum formi, og því er afar langsótt að kenna sérstaklega perklórati í flugeldum sem skotið er upp nokkrum sinnum á ári um mögulega mengun í umhverfinu af völdum perklórats, hvað þá um tengsl og greininga á einhverfurófinu – sem engar rannsóknir styðja enn sem komið er.“

Sjálfur á Eiríkur dóttur á einhverfurófinu. Hann segir að foreldrar eins og hann ekki þurfa á skýringum líka þeirri sem Jakob talaði um.

„Við foreldrar einstaklinga á einhverfurófinu göngum í gegnum mikla sjálfsskoðun og, ef til vill umfram aðra foreldra, miklar „hvað ef …“ vangaveltur eftir að hafa fengið þær fréttir að barnið okkar sé á einhverfurófinu. Þær vangaveltur eru mörgum þungbærar, og koma upp aftur og aftur yfir ævina. Við höfum einnig fengið stærri skammt en flestir aðrir foreldrar af misjafnlega hjálplegum skýringum frá umhverfinu; við sem eldri erum könnumst við tilgátuna um að kenna mætti „ískápamömmunni“ um einhverfu barns (hinni kaldlyndu móður sem sýndi barninu ekki nægilega ástúð),“

Eiríkur segir að hann skrifi þetta opna bréf vegna þess að Jakob er ekki „bara einhver Jakob“.

„Þú ert ekki bara einhver Jakob úti í bæ eða kverúlant á kommentakerfinu, heldur nýsleginn riddari hinnar íslensku fálkaorðu og maður sem vilt láta taka mark á þér í þjóðfélagsumræðunni, og því hafa þessi orð þín setið í mér. Þau eru meinleg, og ná til fjölda einstaklinga sem eru gegnir og góðir þjóðfélagsþegnar og mega ekki vamm sitt vita, fólks sem er vakandi og sofandi að reyna að tryggja afkomendum sínum á einhverfurófinu sem bestar aðstæður í lífinu.“

„Mér finnst allt þetta fólk eiga betra skilið en að vera kallað „mengað sæði“ og „mengað egg“, og að börn þeirra á einhverfurófinu séu kölluð „kokteileffect“. Þú værir því maður að meiri ef þú mundir biðjast afsökunar á þessum orðum þínum og draga þau til baka, en þú verður að eiga slík viðbrögð við sjálfan þig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga