fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Reyfarakenndur dómur Árna Gils Hjaltasonar Úrsus: Vitni mútað, furðulítið blóð og hvar er hnífurinn?

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 9. ágúst 2017 23:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Gils Hjaltason var rétt í þessu dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir morðtilraun. Hann var dæmdur fyrir að hafa reynt að myrða mann í Breiðholti í mars með því að stinga hann í höfuðið með hníf. Líkt og DV fjallaði um nýverið telur faðir Árna, Hjalti Úrsus, að sonur sinn sé ranglega sakaður.

Verjandi Árna, Oddgeir Einarsson, segir í samtali við DV að dómnum verði tvímælalaust áfrýjað.

Aðalmeðferð fór nýverið fram í málinu og má segja að málið hafi einungis orðið reyfarakenndari við það sem kom þar fram. Vopnið hefur aldrei fundist og fullyrti nágranni sem varð vitni að atvikinu að fórnarlambið hafi tekið það af vettvangi. Lykilvitni segist hafa séð hnífinn um mánuði síðar í íbúð vina síns. Sama vitni sagði að fórnarlambið hafi reynt að múta sér til að breyta ekki framburði sínum. Blóðferlasérfræðingur sagði að blóðdropar á vettvangi við Leifasjoppu pössuðu ekki við áverka.

Það sem er óumdeilt í málinu er að Árni kemur á vettvangi á bíl vinkonu sinnar, sem er í íbúð frænku sinnar við Iðufell ásamt fórnarlambi. Fórnarlambið og vinkonan, sem er fyrrnefnt lykilvitni, koma út og þá á sér stað pústur á milli Árna og fórnarlambsins. Síðar um kvöldið kemur fórnarlamb á neyðarmóttöku og er þá með skurð vinstra megin fyrir ofan eyra.

Tilkynnti bílinn stolinn

Konan, sem er gömul vinkona Árna, sagðist hafði sinnast við hann umrætt kvöld síðastliðinn mars. Hún sagði fyrir dómi að henni hafi þótt Árni hafa verið full dramatískur þennan dag en bætt við að hún hafi líka verið „hálfrugluð“ enda búin að „borða rivotril“.

„Við ætlum að hittast um kvöld en ég nennti því ekki og við höfðum verið að rífast í SMS-um. Hann var á bílnum mínum og var með hundinn minn. Ég sagði honum að við gætum bara hist daginn eftir en sagðist ætla að koma og skila bílnum. Svo veit ég ekki af hverju en [fórnarlambið] sagði mér að ég ætti að tilkynna bílinn sem stolinn og ég geri það bara. Ég leiðrétti það þegar ég breytti framburðinum seinna meir,“ sagði konan.

Með mynd á símanum

Konan segist ekki hafa verið hrædd við Árna þó hún hafi vitað að hann væri í vondu skapi. „Mig langaði bara að vera leiðinleg og láta hann labba heim. [Fórnarlambið] er vinur frænku minnar og bauðst til að fylgja mér niður. Ég vissi ekkert að hann ætlaði að taka einhvern hníf með sér,“ sagði konan.

En hvað varð um hnífinn sem hefur ekki enn fundist? Konan gaf sitt svar við því: „Ég fann hnífinn heima hjá vini mínum í apríl. Ég þorði bara ekkert gera neitt og vissi að löggan myndi ekki trúa neinu sem ég sagði. Ég var bara líka ekki í ástandi þá en síðan fór ég í meðferð og er búin að vera edrú í tvo mánuði. Ég er með mynd í símanum mínum af hnífnum og ég veit hvar hann var en ég efast um að hann sé þar enn þá. Ég var svo hrædd um að ef ég myndi taka hnífinn þar sem hann var, þá myndi ég lenda í einhverju veseni,“ sagði konan og bætt við að hún hafi aldrei séð Árna halda á hnífnum. Hún sagðist raun fyrst hafa séð hnífinn þegar hún var að fara aftur í íbúðina með fórnarlambinu.

Verjandi Árna spurði konuna hvers vegna fórnarlambið hafi ekki komið hnífnum til lögreglu. „Hann ætlaði að segja að Árni hafi komið með hnífinn, að hann hafi ráðist á sig með hnífnum,“ svaraði konan. Hún sagði að fórnarlambið hafi verið undir áhrifum amfetamíns.

Lofað helming skaðabóta

Líkt og fyrr segir fullyrti konan við aðalmeðferð að fórnarlambið hafi reynt að múta sér. „Ég hitti hann nokkrum dögum seinna, hvort hann hafi verið í skýrslutöku eða hvað, ég hitti hann fyrir utan Hlemm. Hann sagði við mig: „Ef við höldum sögunni okkar svona þá færð þú helminginn af skaðabótapeningnum“. Ég hugsaði bara: „Halda sögunni hvernig?“ og þá kveikti ég og mundi eftir á, að þegar við löbbuðum upp tröppurnar [eftir atvikið], ég og [fórnarlambið], þá hélt hann á hnífnum. Ég hef séð þennan hníf áður hjá frænku minni.

„Ég fór niður á lögreglustöð og breytti framburði mínum, en lögreglan trúði engu sem ég sagði. Ég fór í þriðja skiptið og þá hafði lögreglumaðurinn ekki einu sinni fyrir því að taka það upp. Hann settist niður með mér og sagði orðrétt: „Við trúum ekki orði af því sem þú segir“,“ sagði konan við aðalmeðferð. Hún sagði henni hafi þó aldrei verið hótað.

„Ég hef aldrei reist vopn gegn einum né neinum“

Fórnarlamb bar vitni fyrir dómi og sagðist hann ekki muna hvort hann hafi komið með hnífinn á vettvang. Þó sagðist hann telja að hnífurinn hafi dottið úr sínum vasa. „Ég var undir áhrifum sjálfur og tel mig trú um að hann hafi dottið úr vasanum hjá mér, en ég beitti hnífnum aldrei.“

Hann hafnaði því að þeir hafi verið að kljást með hnífinn. Hann sagðist ekki hafa komið nálægt hnífnum eftir þetta. „Ég tók slíðrið og henti því í hina áttina. Ég hélt að þetta væri hnífurinn og ætlaði að sparka honum í burtu.“

Hann neitaði því að hafa beitt hnífnum að fyrrabragði gegn Árna. „Ég hef aldrei reist vopn gegn einum né neinum,“ sagði hann og bætti við að hann hafnaði skýringu Árna á að hann hefði getað fengið höggið þegar þeir voru að kljást. „Ég fæ höggið þegar ég er að standa upp og sný baki í hann.“ Hann var spurðu hvaða afleiðingar atvikið hafi haft fyrir sig og sagðist hann finna fyrir kvíða sem var ekki til staðar áður.

Saksóknari hvumsa

Framburður hans var að sumu leyti ólíkur fyrstu skýrslutöku og um það sagði hann: „Þegar ég var búinn að tala við þessa einstakling sem voru þarna þá ætlaði ég að koma með þetta fram í seinni skýrslutöku sem varð svo aldrei.“ Verjandi Árna spurði hann hvort að hann hafi annað hvort hótað stúlkunni eða lofaði henni helming bótafé. Fórnarlambið hafnaði því.

Fórnarlambið viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið undan áhrifum fíkniefna, amfetamíns, þegar atvikið átti sér stað. Þegar hann sagði frá því varð saksóknari fremur hvumsa og spurði: „Ertu alveg viss um að?“. Mein fórnarlamb svaraði aftur játandi. „Nú liggur fyrir í gögnum málsins rannsókn úr blóðsýni sem var tekið úr þér og þar kemur fram að það mælist ekkert ólöglegt fíkniefni í blóðinu.“ Því svaraði maðurinn: „Ég var búinn að fá mér fyrr um daginn“ og fólst saksóknari þá á það.

Segist ekki hafa komið við hnífinn

Árni Gils hefur verið í gæsluvarðhald allt frá atvikinu í mars. Eftir því DV kemst næst hefur framburður hans verið stöðugur og lítið breyst. Hann fullyrti við aðalmeðferð að fórnarlambið hafi sveifla hnífnum, sem líktist fremur sveðju að hans sögn, í átt að sér en hann hafi náð að verja sig. Hann hafi þó ekki áttað sig strax á því að hann hafi verið með hníf í hendinni. „Ég fann ekki fyrir því, þetta gerðist rosa hratt. Ég sé bara að hann er með risastórt vopn. Ég næ að taka í höndina hans, þetta var eins og sverð. Ég næ að ota honum frá mér, ég næ að fella hann en passa að hnífurinn mundi ekki stingast í mig.“

Hann sagðist aldrei hafa komið við sjálfan hnífinn, hann hafi náð að verja sig með því að halda í hönd fórnarlambsins. Árni var spurður um hvernig fórnarlamb hafi fengið áverka sína. „Annað hvort hefur það gerst þegar við duttum, það var hált þarna, eða þá þegar hann hverfur. Það er umtalað á Hraunin í hvað miklu veseni þessi drengir eru. Það er búið að taka hann tvisvar eða þrisvar í gíslingu. Læknirinn segir að slagæð hafi opnast en það var mjög lítið blóð þarna, nokkrir dropar. Það gæti hafa gerst á bílastæðinu meðan hann hvarf með hnífinn. Einhver gæti hafa gert honum þetta því hnífurinn fannst aldrei. Ég vil líka taka það fram að ef ég hefði viljað meiða þennan mann þá var hann berskjaldaður meðan ég stóð yfir honum, ef ég hefði ætlað að meiða hann þá hefði ég látið höggin dynja. Ég ýtti honum frá mér,“ sagði Árni.

Yfirheyrður á sundskýlu

Árni var spurður hvort hann hafi verið ölvaður þetta kvöld. Því neitaði hann. Hann sagðist vissulega hafa drukkið og fengið sér kókaín kvöldið áður. Hann hafi sömuleiðis ætlað sér það sama þetta kvöld en á þessu tímapunkti hafi hann ekki verið í vímu. „Ég man ekki eftir því að það hafi verið tekið blóðsýni þetta kvöld þar sem að öll athygli mín var á atvikið sjálft,“ sagði Árni. .

Verjandi Árna spurði hann um hvernig hann hafi verið klæddur þegar hann hafi verið yfirheyrður. Árni sagði hann hafi verið klæddur í götótta sundskýlu og það hafi sést í kynfæri hans. „Ég var svona í marga klukkutíma. Ég var bara í sjokki, mér leið eins og það væri allt gert til að útiloka þann möguleika að það sem ég sagði væri satt.“

Líkt DV hefur áður greint frá var Árni færður fyrir dóma svo klæddur. Faðir hans, Hjalti Úrsus, lýsti því svo: „Þegar hann er leiddur fyrir dómara þá eru engin föt á hann, hann er svo stór og þrekinn. Þannig að hann er leiddur fyrir dómara, kvendómara, í allt of lítilli og rifinni sundskýlu með handklæði yfir axlirnar. Þannig er hann leiddur fyrir dómara og hann er með hauskúputattú yfir allt brjóstið á sér. Konan sér hann svona nakinn, hvaða líkur heldurðu að séu á því að hún segi honum að hann sé að fara að losna?“

Verjandi Árna, Oddgeir Einarsson, telur að þessi meðferð feli í sér brot gegn réttindum sem varin eru af Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands. Með þessu hafi hann sætt niðurlægjandi meðferð af hálfu ríkisins.

Blóðdropar ekki í samræmi við sárið

Rannsóknarlögreglumaður og blóðferlasérfræðingur bar vitni við aðalmeðferð og sagði að honum hafi borist myndir af örfáum blóðblettum í snjó. Spurður um hvort að blóðdroparnir bentu til þess að slagæð hafi verið rofin svaraði hann því neitandi. „Slagæðablæðing er miklu meiri,“ sagði hann. Hann sagði þó að þetta gæti hins vegar vel passað við skurð á fingri. „Þetta gæti passað við blóðnasir til dæmis. Þetta var eins og maður hafið staðið þarna örstutt og blóð hafi fallið niður.“

Saksóknari spurði hvort þetta væri endilega rétt. „Já, þú getur spyrt hvað lækni sem er eða sérfræðing í þessum fræðum að slagæðablæðing er gríðarlega mikil. Þá dælist út miklu meira magn á miklu skemmri tíma. Þú ættir að sjá bogadregnar línur. Þessir örfáu, þrír, fjórir, fimm dropar í snjó segja mér ekkert um hvers konar blæðing átti sér stað en slagæðablæðing er alltaf mikil“

„Þú stakkst mig“

Lögreglumaður sem var á vettvangi sagði við aðalmeðferð að lögregla hafi leitað á vettvangi að hnífnum en þó ekki í íbúðinni. Sá lögreglumaður gat ekki svarað því hvers vegna sýni hafi ekki verið tekin af blóðdropum á vettvangi. Hann vissi sömuleiðis ekki til þess að tæknideild lögreglu hafi verið kölluð til.

Nágranni bar vitni við aðalmeðferð og sagðist hún hafa séð tvo menn rífast og svo slást fyrir utan Leifasjoppu. Hún fullyrti að hún hafi heyrt annan manninn segja: „Þú stakkst mig“. Hún sagði að hinn maðurinn hafi þá sagt: „Þú komst með hnífinn“. Hún sagði að annar maðurinn hafi augljóslega verið slasaður en að það hafi þó ekki verið mikið blóð.

Hún sagðist hafa séð þann slasaða halda á hnífnum. „Síðan þegar hann kom til baka þá sá ég ekki hnífinn,“ sagði konan og bæti við að sá stærri, væntanlega Árni, hafi verið með ógnandi tilburði. Hún sagði þó að konan og fórnarlambið hafi þó ekki verið sakleysisleg. „Þau voru alveg að pikka á móti. Þau voru ekkert að reyna að flýja eða neitt, ekki fyrr en í restina. Hún var að reyna að draga strákinn í burt.“

„Ákærði virðist hafa verið leiddur í gildru“

Líkt og fyrr segir var Árni dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Oddgeir, verjandi hans, segir að allt bendi þess að Árni hafi verið leiddur í gildru. „Ákærði bendir meðal annars á forsendur dómsins byggja á því að útilokað sé að hnífurinn hafi getað rekist í brotaþola fyrir slysni. Liggur þó fyrir að aðilar áttu í átökum og féllu meðal annars til jarðar í þeim. Þótt þungt högg hafi þurft til að valda áverkanum hefur rannsókn málsins fráleitt útilokað þann möguleika að hnífurinn hafi til dæmis getað orðið á milli brotaþola og bílaplansins við fallið. Þetta er ofan á allt sem fram hefur komið um að ákærði virðist hafa verið leiddur í gildru, brotaþoli mætir með hníf og felur hann síðan,“ segir Oddgeir.

Sjá einnig: Hjalti Úrsus segir son sinn saklausan af morðtilraun: Sagan öll

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu