Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum gæti brasilíska ungstirnið Endrick verið á leið til Juventus í janúar. Talið er að ítalska félagið vilji nýta sér þá stöðu að leikmaðurinn fær lítið að spila hjá Real Madrid.
Endrick, sem er 19 ára, hefur átt erfitt uppdráttar á Spáni og hefur enn ekki leikið mínútu í La Liga eða Meistaradeildinni á þessu tímabili. Hann fékk einnig takmörkuð tækifæri undir stjórn Carlo Ancelotti á síðasta tímabili og staðan virðist ekki hafa batnað eftir komu Xabi Alonso.
Samkeppnin um sóknarstöðurnar hjá Real Madrid er hörð, þar sem leikmenn á borð við Vinicius Junior og Rodrygo eru framar en Endric í goggunarröðinni. Þessi skortur á spilatíma gæti haft áhrif á möguleika Endrick til að komast í brasilíska landsliðshópinn fyrir HM 2026.
Ítalskir miðlar greina nú frá því að Juventus hafi mikinn áhuga á að fá leikmanninn á láni í janúar. Líklegt er að Real Madrid muni íhuga slíkt boð ef leikmaðurinn heldur áfram að sitja á bekknum.