fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Pressan

Lögmaður harðlega gagnrýndur eftir ævintýralegan blaðamannafund um dóttur Ásu og Rex – „Þau eru mannætur. Þau eru skrímsli. Þau eru djöflar í mannslíki“

Pressan
Laugardaginn 15. júní 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fimmtudaginn var haldinn óvenjulegur blaðamannafundur á Long Island út af meinta raðmorðingjanum Rex Heuermann. Fundurinn hefur  vakið hörð viðbrögð en þar færði lögmaðurinn John Ray mjög vafasöm rök fyrir því að fjölskylda Heuermann sé ekki eins saklaus og almennt er talið.

John Ray hefur áður komið við sögu í máli Heuermann. Ray var ráðinn af fjölskyldu Shannan Gilbert sem fannst látin árið 2011 skammt frá Gilgo-ströndinni. Það var leitin að henni sem varð til þess að alls fundust líkamsleifar 11 einstaklinga á svæðinu en þó telur lögregla að Gilbert sjálf hafi látist að slysförum, nokkuð sem fjölskylda hennar er ósammála. Ray hefur líka tekið að sér mál kvenna sem segjast hafa átt í samskiptum við Heuermann á árum áður.

Rex Heuermann er giftur Ásu Guðbjörgu Ellerup, sem er af íslenskum ættum. Þau eiga saman dótturina Victoriu Heuermann en auk þess á Ása soninn Christopher úr fyrra sambandi. Ása Guðbjörg og Rex eru skilin að borði og sæng.

Lögregla hefur allt frá upphafi tekið skýrt fram að hvorki Ása né börn hennar séu grunuð um að hafa átt hlut að meintum voðaverkum Rex. Þvert á móti bendi öll gögn til þess að Rex hafi athafnað sig þegar fjölskylda hans var að ferðast.

Stuttermabolur með höfuðkúpu

Ray segist þó sannfærður um annað. Hingað til hefur hann viðrað ýmsar ásakanir gegn Ásu Guðbjörgu en á fimmtudaginn beindi hann spjótum sínum að dóttur hennar, Victoriu.

Lögmaðurinn umdeildi boðaði til blaðamannafundar á fimmtudaginn sem hefur vakið töluverða furðu og gagnrýni. Þar heldur hann því fram að Victoria hafi í það minnsta vitað um glæpi föður síns og jafnvel hafi hún átt hlut að einhverjum morðanna, en Rex hefur hingað til verið ákærður fyrir sex morð sem voru framin á árunum 1993-2007.

Ray gekk svo langt að saka Victoriu, sem er á 27. aldursári, um að vera haldin annarlegum hvötum. Byggði hann þetta á myndum sem hún hafði skoðað á samfélagsmiðlinum Tumblr og fleiri vefsíðum sem meðal annars hefi sýnt teikningar af mannáti. Hann sagði myndir sem hún hafði deilt á Tumblr hafa skuggaleg líkindi við voðaverk Heuermann. Þetta voru teikningar eftir aðra sem hún hafði endurbloggað á eigin síðu. Ray segir að Victoria hafi eins lesið klámsögur á netinu þar sem fjallað var um BDSM-kynlíf og svokallað „furry“-klám sem byggir á því að fólk klæðir sig upp og hegðar sér eins og dýr.

„Það eru margar aðra myndir fyrir utan þær sem ég er að sýna ykkur í dag sem eru alveg jafn slæmar og jafnvel verri. Við völdum þessar myndir út aftengingunni við Rex Heuermann sem og við dóttur hans, Victoriu,“ sagði Ray á fundinum. „Þetta fólk er ekki að segja okkur satt, þau eru að villa um fyrir okkur,“ sagði Ray ennfremur um Ásu Guðbjörgu og börn.

Annað meint sönnunargagn var mynd af Victoriu þegar hún var yngri og klæddist þá stuttermabol sem var skreyttur með mynd af höfuðkúpu.

Mannætur og djöflar í mannslíki

Telur Ray ljóst að bara truflaður einstaklingur skoði svona efni á netinu. Truflaður einstaklingur sem hafi orðið vitni að, eða tekið sjálf þátt í morðum. Victoria hljóti því að hafa alist upp í aðstæðum þar sem morð Rex væru ekkert feimnismál á heimilinu og hún því talið að svona myndefni væri eðlilegt.

„Þetta fólk er þarna úti í samfélaginu okkar. Þau eru mannætur. Þau eru skrímsli. Þau eru djöflar í mannslíki. Heuermann fjölskyldan eins og hún leggur sig fellur í þennan hóp.“

Ray reiddi líka fram meintan sérfræðing í sálfræði morðingja. Sá sagði mörg dæmi þess að raðmorðingjar njóti aðstoðar barna sinna við verkin. Svo sem í tilfelli dótakassa-morðingjann David Parker Ray, en dóttir hans hjálpaði honum að finna fórnarlömb. Og eins séu dæmi um að raðmorðingjar hafi aðstoðarmenn svo sem talið er að hafa gerst í tilfelli John Wayne Gacey.

„Það var ekkert tvöfalt líf,“ sagði þessi sérfræðingur um Heuermann-fjölskylduna.

Aldrei séð nokkuð á borð við þennan blaðamannafund

Frá því að fundurinn fór fram hefur Ray verið harðlega gagnrýndur. Ljóst sé að hann svífist einskis til að vekja athygli á sér og blaðamannafundurinn ekkert annað en hrein og bein meiðyrði.

„Á mínum tuttugu ára ferli við rannsókn raðmorða hef ég aldrei sé nokkuð í líkingu við þennan blaðamannafund,“ sagði Enzo Yaksic, sem rekur samtök sem helga sig rannsóknum óvenjulegra morða í samtali við Newsweek.

Fjölskylda Shannan Gilbert er líka miður sín og segjast ekki sammála því sem lögmaður þeirra sé að gera. Blaðamannafundurinn sé vanvirðing við fjölskyldu Heuermann og Ray ætti heldur að einbeita sér að því að upplýsa morðið á Shannan.

Yaksic segir ekkert óvenjulegt við að Victoria hafi verið að skoða skuggalegt efni á netinu. Þetta væri á pari við að spila ofbeldisfulla tölvuleiki.

Robert Macedonio, lögmaður Ásu Guðbjargar, og Vesselin Mitev, lögmaður Victoriu og Christopher, héldu saman blaðamannafund til að svara ásökunum Ray. Þar bentu lögmennirnir á að elsta morðið sem Heuermann er sakaður um að hafa framið átti sér stað 1993. Victoria er fædd árið 1996. Yngsta morðið átti sér stað 2007 en þá var Victoria 11 ára.

„Þetta er enginn sirkus. Þetta er maður sem er ákærður fyrir sex morð og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Fjölskylda hans, Ása, Victoria og Christopher, sama hvort Rex verði sakfelldur eða sýknaður – eru afleitt tjón. Lífi þeirra hefur verið rústað til frambúðar og gjörðir manna eins og John Ray rústa þeim enn frekar,“ sagði Macedonio.

Mitev bendir á að það sé ekki einu sinni víst að Ray sé í alvörunni búinn að finna Tumblr-síðu sem í raun og veru hafi tilheyrt Victoriu. Ray sé búinn að missa alla tengingu við raunveruleikann og blaðamannafundurinn hafi verið gífurlega óábyrgur og meiðandi.

„Við svörum vanalega ekki svona trúðaskap, en við þurftum að gera það núna því orðspor og persónur þessara tveggja ungu barna, skjólstæðinga minna, er í húfi. Þessi maður er að þykjast vera lögmaður,“ sagði Mitev sem á árum áður rak lögmannsstofu með Ray.

Það komi til greina að stefna Ray fyrir ærumeiðingar en Mitev telur þó að lögmaðurinn umdeildi eigi ekki eignir til að standa undir mögulegum bótagreiðslum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?
Pressan
Fyrir 5 dögum

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart
Pressan
Fyrir 1 viku

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu
Pressan
Fyrir 1 viku

Grimmdarleg slagsmál í dýragarðinum í Edinborg kostuðu Rene lífið

Grimmdarleg slagsmál í dýragarðinum í Edinborg kostuðu Rene lífið
Pressan
Fyrir 1 viku

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts
Pressan
Fyrir 1 viku

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan