Bakarameistarinn Jóhannes Felixson, Jói Fel, hefur ekki setið auðum höndum í vætutíð sumarsins og í dag fór nýjasta verkefni hans í loftið, uppskriftavefurinn Eldabaka.is.
„Sem ég er búinn að vera með í kollinum í 10 ár, góðir hlutir gerast hægt. Það er ekki nema um 50 uppskriftir við opnun á síðunni en verða orðnar mörg hundruð eftir smá tíma. Endilega kíkið og deilið og njótið vel nú bara allir að elda og baka,“ segir Jói í færslu á Facebook.
Um miðjan júní lokaði veitingastaðurinn Felino sem Jói sá um daglegan rekstur á og var andlit staðarins. Þrátt fyrir vinsældir staðarins gekk dæmið ekki upp.
Í samtali við DV þá sagði Jói frá nýja verkefninu. Elda baka er uppskriftasíða á netinu og netsjónvarp í áskrift. „Lifandi uppskriftabók“ eins og Jói kallar hana.
„Ég er að skrifa lifandi netuppskriftabók, bók sem verður lifandi á netinu. Ég er búinn að stofna fyrirtæki sem heitir „Elda baka“ og er að opna heimasíðu. Þarna verða lifandi myndskeið í anda gömu sjónvarpsþáttanna minna. Þetta verður opnað eftir sirka mánuð. Þetta verður áskriftarsíða og verður mín aðalatvinna. Ég ætla að kynna nýja uppskrift næstum því á hverjum degi og þetta verður þannig síða að þarna finnurðu bókstaflega allt sem þú þarft að gera í eldhúsinu heima hjá þér. Hagkaup er aðalstyrktaraðili enda hef ég unnnið með þeim í 40 ár. Þetta eru matreiðsluþættir á netinu þar sem þú lærir allt og sérð allt sem þú þarft að gera í eldhúsinu.“
Réttunum er skipt í sex flokka, forréttir, aðalréttir, eftirréttir, pastaréttir, brauð og bakstur og að lokum annað og meira. Ársáskrift kostar 4.990 krónur.