fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Anna segir bless við Ísland: Farin til Tenerife í vetur – Þetta borgar hún fyrir 3 herbergja íbúð

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 17. september 2019 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er búin að ganga með þetta í maganum í nokkur ár, að fara eitthvað í burtu þegar ég hætti að vinna,“ segir Anna Kristjánsdóttir, sem hefur ákveðið að búa á Tenerife í vetur, í samtali við DV.

Anna hefur haldið úti dagbók á Facebook um lífið á Tenerife, en mánuður er liðinn síðan hún hélt á vit ævintýranna. Anna flutti frá Íslandi til Svíþjóðar fyrir 30 árum en þá voru aðstæður allt aðrar en í dag og upplifði hún sig tilneydda til að yfirgefa landið á sínum tíma.

„Núna fór ég á eigin forsendum. Það var enginn sem ýtti á eftir mér og ég þráði að komast í sól og sumar án hríðarbylja og næturvakta. Þá var allt orðið miklu auðveldara. Farsíminn á verðlagi Evrópusambandsins, Internetið komið og tiltölulega ódýrt, örar flugferðir og auðvelt að finna sér húsnæði á viðráðanlegu verði, auk þess sem matur og drykkur kostuðu aðeins brot af því sem það kostar í dýrasta landi Evrópu,“ segir Anna í einni færslunni.

Pítsa og bjór fyrir þúsundkall

Í samtali við DV segist Anna ekki vera flutt frá Íslandi þó hún ætli að búa á Tenerife í vetur.

„Ég er einungis að prófa að búa í sólinni  og njóta veðursins, náttúrunnar og fagra fólksins. Ég er vissulega komin með spænskt NIE númer en þar með er ég ekki orðin íbúi hér, einungis staðfesting þess að ég sé samþykkt hérna og með ákveðnum lágmarksréttindum,“ segir Anna og bætir við að fleiri staðir hafi komið til greina; Torrevieja, Svíþjóð, Portúgal og Ítalía til dæmis. „Niðurstaðan varð sú að byrja hér og sjá til með framhaldið.“

Undanfarin misseri hefur nokkuð verið fjallað um verðlag á Íslandi í samanburði við verðlag í öðrum ríkjum, Spáni til dæmis. Aðspurð hvort mikill munur sé á verðlagi, til dæmis mat og nauðsynjavörum, segir Anna:

„Já, mjög mikill. Hér er hægt að fá flatböku og bjór með á veitingahúsi fyrir kannski rúmlega  þúsundkall á meðan slíkt kostar hvítuna úr auganu á Íslandi og annað eftir því. Að tala um verðmun á fatnaði er ekki sanngjarnt, enda sé ég fram á að flíspeysan sem ég tók með að heiman muni endast mér lengi hér.“

Leiguverðið miklu hagstæðara

Anna býr í tveggja svefnherbergja íbúð í stórri blokk rétt ofan við ströndina með útsýni yfir höfnina. Stutt er í gamla bæinn og í alla helstu þjónustu. „Kannski er íbúðaleiga hið einasta sem er sambærilegt við Ísland en þó ekki,“ segir hún og bætir við að hún borgi 1.020 evrur á mánuði en vatn, rafmagn og internet er innifalið í þeim kostnaði. 1.020 evrur eru rétt tæplega 140 þúsund krónur á núverandi gengi. Þegar leiguverð í Reykjavík er skoðað á vefnum Leiga.is sést að algengt verð á þriggja herbergja íbúðum miðsvæðis í Reykjavík er frá 220 og upp í 270 þúsund krónur.

„Við blokkina eru þrjár sundlaugar og tveir tennisvellir fyrir þá sem vilja, en einnig hárgreiðslustofa, þvottahús og bar en þó er þvottavél í íbúðinni. Öryggisins vegna er læst aðgengi að blokkinni á nóttunni,“ segir Anna en samkvæmt þessari lýsingu er allt til alls á þeim stað sem hún býr á.

Þá segir hún að fólkið sé almennilegt og líklega hafi góða veðrið einstaklega góð áhrif á fólk. „Allir brosandi allan hringinn en kannski dálítið værukærir og lifa eftir mottói iðnaðarmannsins, þeir segjast ætla að koma klukkan þrjú en gleyma að taka fram hvaða ár. Hér eru engir stöðumælar og einungis greiðsluskylda í bílastæðahúsum og ef einhver virðir ekki rétt fótgangandi er sá örugglega túristi norðan úr álfu að flýta sér,“ segir Anna sem kveðst ekki geta svarað miklu um heilbrigðiskerfið enda ekkert þurft að nýta sér það.

Hugsar með skelfingu til nýrra skatta

Anna virðist ekki sjá eftir því að hafa yfirgefið Ísland eins og hún hefur lýst í færslum sínum á Facebook. „Ég hugsa með skelfingu til allra nýju skattanna sem ekki mega heita skattar og boðaðir eru á Íslandi á næstunni,“ sagði hún á dögunum og bætti við: „Hafi ég verið með einhverja eftirsjá yfir vetrarsetu á Tenerife í vetur slokknaði hún endanlega með þessum nýju hugmyndum um vegaskatta og sorpskatta og fleira.“

Aðspurð hvort hún gæti hugsað sér að vera lengur á Tenerife en bara einn vetur, segir hún:

„Eftir fyrsta mánuðinn hér get ég vel hugsað mér það, en ég er líka opin fyrir því að prófa eitthvað annað, aðrar eyjar hér í kring eða jafnvel meginlandið. Í dag hef ég frelsi til að búa hvar sem er innan Norðurlandanna og Evrópusambandsins og af hverju ekki prófa eitthvað annað næst, einhverja rótgróna menningarborg í Evrópu eða rifja upp góð kynni af sænsku samfélagi á meðan heilsan og fjármálin leyfa slíkt?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“