Yfirstandandi kosningabaráttan hefur verið ákaflega leiðinleg. Frambjóðendur eru hræddir við að misstíga sig og segja eitthvað sem mögulega gæti túlkast sem kvenfjandsamlegt, rasískt eða móðgandi. Netið vakir yfir þegnum sínum og vegur og metur allt á vogarskálum pólitískrar rétthugsunar. Gott dæmi um þetta var kosningaslagorð Samfylkingar: „Sterk velferð, stolt þjóð!“ Netið gekk beinlínis af göflunum og hvert gáfnaljósið á fætur hinu ritaði lærðar greinar um neikvæða merkingu orðanna „stolt og þjóð“ sem leiddu lesandann beint inn í gasofna liðinnar aldar. Forysta flokksins lyppaðist niður. Eftir mikinn vandræðagang endaði flokkurinn með nýja auglýsingu: „Við erum með plan!“ sem minnir þó einna helst á auglýsingu frá garðyrkjumanni.
Aðrir létu sér þetta að kenningu verða svo að lítið hefur borið á alvöru slagorðum. Frambjóðendur ráðfærðu sig stöðugt við skoðanakannanir og auglýsingastofur varðandi allar yfirlýsingar. Miðflokkurinn keyrði þó á slagorðum úr íþróttaheiminum: „Áfram Ísland!“ sem kallaði yfir flokkinn holskeflu af rétthugsandi netverjum. Sjálfstæðisflokkurinn talaði um betri framtíð fyrir okkur öll sem hljómaði eins og boðskapur Hvítasunnumanna. Flokkur fólksins keyrði á slagorðinu: Setjum nýja plötu á fóninn! Stór hluti kjósenda veit þó ekki hvað við er átt enda tilheyra plötuspilarar byggðasöfnum. Vinstri grænir ákváðu í örvinglan sinni að hverfa aftur til upprunans og sögðust vera Marxískur feministaflokkur.
Kosningabaráttan varð því mjög fyrirsjáanleg og varfærin. Heilagt og lúsarlaust fólk sór af sér gömul bernskubrek og keppti innbyrðis í mannúð og manngæsku. Daglegar skoðanakannanir fengu mikið rými í fréttum með tilheyrandi viðtölum við spámenn og spekinga sem bulluðu um líkindareikning. Frumleiki og húmor týndust í þessari flatneskju þar sem óttinn við að gera mistök réði ríkjum. Þetta er allavega leiðinlegasta kosningabarátta sem ég hef orðið vitni að.