Það styttist óðum í stærsta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni þegar Manchester City tekur á móti Arsenal.
Arsenal er með fimm stiga forskot á City á toppi deildarinnar en síðarnefnda liðið á tvo leiki til góða.
Skytturnar hafa gert þrjú jafntefli í röð og þurfa helst sigur í kvöld.
„Ég hef ekki séð neinn af mínum leikmönnum verða hræddan fyrir þennan leik og ef ég sé það drep ég þá því ég vil það alls ekki,“ sagði Mikel Arteta, stjóri Arsenal, um leikinn mikilvæga.
„Þessi leikur krefst algjörrar fullkomnunar. Við þurfum að sýna svoleiðis frammistöðu.“
Arteta segir þó að þetta sé ekki úrslitaleikur.
„Að keppa við City hefur verið frábært en það er ekki nóg. Nú erum við í þessari stöðu og ætlum að sigra.
Þetta verður svakalegur leikur en tímabilið veltur ekki á honum því við eigum fimm leiki eftir.“