Flugfarþegi um borð í flugvél United Airlines var ekki par sáttur með farþegann í næsta sæti við sig, eða réttara sagt í fótarýminu. Í færslu sem flugfarþeginn birti á Reddit birti hann mynd af hundi og segir hann hundinn hafa verið í fótarýminu fyrir framan hann allt flugið.
„Ætti ég að kvarta?“ spurði maðurinn og fékk yfir sig fleiri en þúsund athugasemdir. Margir sögðu að þetta yrði martröð fyrir þá um borð, meðan aðrir sögðust elska þetta og öfunda manninn.
„Mjög sætur hundur, en greinilega ekki þjónustuhundur (e. Service dog). Í fótarýminu mínu allt flugið (þar á meðal við flugtak og lendingu). Eigandinn reyndi en gat ekki hreyft hundinn, hann er of stór og hlýddi ekki.“
Margir sögðu farþegann eiga rétt á að kvarta, annað hvort til flugfreyjanna eða til flugfélagsins eftir lendingu. Einn sagðist hafa lent í svipuðu í flugi og eftir að hafa kvartað í gegnum app flugfélagsins hafi hann fengið 10 þúsund mílna inneign. Aðrir sögðu í athugasemdum að þeir væru hræddir við hunda eða með ofnæmi.
Einn netverji lýsti aðstæðunum einfaldlega sem „martröð“ þeirra í flugvél. „Ekki vegna fótarýmisins heldur vegna þess að ég er með ofnæmi fyrir hundum í lofti. Fékkstu viðvörun og tækifæri til að flytja? Að hafa hund svona nálægt fyrirvaralaust án þess að geta tekið ofnæmistöflu að minnsta kosti klukkutíma fyrir flug myndi þýða öndunarerfiðleika fyrir mig og sársaukafull augu þar til ég gæti farið í sturtu og þvegið hunda„hættuna“ af mér. Sem sagt, ég flýg mikið og hef ekki lent í þessu, en óttast að það gerist einn daginn.“
Á meðal þeirra sem tjáðu sig var flugfreyja sem sagði að þetta hefði ekki átt að gerast og farþeginn ætti að leggja fram kvörtun. „Léstu vita áður en flugvélinni var lokað? Ég er hundamamma og elska hunda. En ég er líka flugfreyja og tæknilega séð má þjónustuhundurinn ekki vera í ganginum eða taka upp gólfpláss annarra farþega.Starfsmaðurinn hefði átt að útskýra þetta allt fyrir eiganda hundsins. Þú ættir að hringja í þjónustuverið. Ég er viss um að þú munt fá einhverja inneign.“
Einn netverji sagðist hafa verið til í að borga aukalega fyrir að hafa hundinn við hlið sér og annar sagði að þetta flug hefði verið draumaflugið.
Á heimasíðu United Airlines eru reglur þegar kemur að þjónustuhundum. „Hundurinn þinn ætti að sitja á gólfinu fyrir framan sætið þitt. Þeir mega ekki vera í ganginum eða gólfplássi ferðalangana við hliðina á þér. Þú getur sett í búr ef þú vilt, svo framarlega sem búrið uppfyllir stærðarkröfur. Þú getur ekki setið við neyðarútgang ef þú ert með þjónustuhund.“