fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Pressan

Söguleg lögregluaðgerð í Belgíu – Komu upp um nýja undirheima

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 28. október 2021 06:06

Frá aðgerðum lögreglunnar. Mynd:Belgíska lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snemma að morgni síðasta þriðjudags hófst ein stærsta aðgerð belgísku lögreglunnar á síðari tímum. Hún beindist að skipulögðum glæpasamtökum sem standa fyrir smygli og dreifingu á fíkniefnum. Eftir nokkurra klukkustunda aðgerðir höfðu 114 húsleitir verið framkvæmdar um allt land og 64 handteknir.

Belgísk yfirvöld segja að aðgerðin hafi verið söguleg því upp hafi komist um nýja undirheima í Brussel. Rúmlega eitt þúsund lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni.

Lögreglan segir að hinir handteknu tengist skipulögðum glæpasamtökum sem teygja anga sína til Albaníu og Kólumbíu og víðar um heiminn. „Í dag höfum við afhjúpað nýja undirheima í Brussel,“ sagði Eric Jacobs, yfirmaður ríkislögreglunnar, á fréttamannafundi þegar aðgerðunum var lokið. Hann sagði að um skipulögð glæpasamtök væri að ræða sem séu talin standa umfangsmikil viðskipti með kókaín sem sé flutt frá Suður-Ameríku til Evrópu.

Lögreglan sagði að aðgerðin og árangur hennar væri mjög mikilvægur liður í baráttunni gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna í Evrópu. Jacobs sagði að samtökin hefðu haft mikið fé umleikis og að þau hefðu nýtt sér handlangara, hótað fólki, beitt ofbeldi og jafnvel myrt fólk til að ná markmiði sínu.

Lögreglan undirbjó aðgerðir sínar í 1.300 daga með því að fylgjast með smygli samtakanna á kókaíni til Evrópu með einkaflugvélum og í gámum frá Suður-Ameríku.

Mikið reiðufé fannst. Mynd:Belgíska lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í aðgerðunum fann lögreglan sex framleiðslustaði fíkniefna í Brussel og lagði hald á mörg tonn af efnum sem eru notuð til að þynna kókaín áður en það er sett í dreifingu. Að auki var lagt hald á fjölda skotvopna og 57 bíla, þar af marga dýra lúxusbíla. Einnig var lagt hald á mikið magn gullmynta, um eina milljón evra í reiðufé, mikið magn af tóbaki, dróna og útbúnað fyrir kafara.

Skipulögð glæpasamtök hafa árum saman verið mikið vandamál í Belgíu þar sem höfnin í Antwerpen er oft vettvangur smygls. Á mánudaginn voru tíu manns handteknir í Antwerpen, grunaðir um að hafa lagt skipulögðum glæpasamtökum og fíkniefnasmyglurum lið. Sex þeirra störfuðu á hafnarsvæðinu í Antwerpen. Í síðustu viku voru 27 handteknir í Liége í aðgerð sem beindist gegn skipulögðum glæpasamtökum.

Fíkniefnahundar voru að sjálfsögðu notaðir. Frá aðgerðum lögreglunnar. Mynd:Belgíska lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

Aðgerðin á þriðjudaginn er hluti af svokallaðri Operation Sky sem hófst fyrr á árinu eftir að belgískum lögreglumönnum tókst að ráða dulkóðun á samskiptaforriti sem glæpamenn nota. Í kjölfarið komst lögreglan yfir einn milljarð skilaboða sem höfðu farið á milli glæpamanna. Það er rannsókn á þessum skilaboðum sem lagði grunnin að aðgerðunum á þriðjudaginn.

Það sem af er ári hafa belgísk yfirvöld lagt hald á 77 tonn af kókaíni en söluverðmæti þess er sem svarar til um 600 milljarða íslenskra króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig
FréttirPressan
Í gær

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni