fbpx
Fimmtudagur 02.desember 2021
Pressan

Dómari fellir nýja þungunarrofslöggjöf í Texas úr gildi

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 7. október 2021 06:59

10 vikna fóstur. Mynd:Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Robert Pitman, dómari við alríkisdómstól í Texas, felldi í gær nýja þungunarrofslöggjöf í Texas úr gildi. Löggjöfin tók gildi í september en samkvæmt henni var komið í veg fyrir nær allt þungunarrof í þessu næstfjölmennasta ríki Bandaríkjanna.

„Þessi dómstóll getur ekki fallist á að samþykkja að svo mikilvæg réttindi séu afnumin í einn einasta dag,“ segir meðal annars í úrskurði Pitman.

Þrátt fyrir að hann hafi fellt lögin úr gildi er óvíst hvort konur geti nýtt sér sömu þungunarrofsmöguleika í Texas og áður en lögin tóku gildi. Ástæðan er að læknar óttast að verða sóttir til saka fyrir að framkvæma þungunarrof og telja að þrátt fyrir niðurstöðu Pitman þá ríki enn lagaleg óvissa um málið því reiknað er með að niðurstöðunni verði áfrýjað og að málið verði á endanum tekið fyrir af hæstarétti.

Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, skrifaði undir lögin í maí og þau tóku gildi í september. Samkvæmt þeim er þungunarrof óheimilt eftir sex vikna meðgöngu en á þeim tíma vita margar konur ekki enn að þær séu barnshafandi. Engar undantekningar eru heimilar á þessu þótt þungunin sé afleiðing nauðgunar eða sifjaspella.

Lögin skera sig einnig úr miðað við lög annarra ríkja því samkvæmt þeim er einstaklingum heimilt að höfða einkamál gegn hverjum þeim sem framkvæmir þungunarrof eða aðstoðar fólk við að fá það framkvæmt. Þetta þýðir í raun að það er hægt að lögsækja lækninn sem framkvæmir þungunarrof og leigubílstjórann sem ekur konunni til hans.

Planned Parenthood, sem bjóða upp á þungunarrof í Texas, segja að á fyrstu tveimur vikunum eftir að lögin tóku gildi hafi sjúklingum hjá fyrirtækinu fækkað um 80%.

Það er ríkisstjórn Joe Biden sem er í fararbroddi í tilraunum til að fella lögin úr gildi. Leggur ríkisstjórnin áherslu á að lögin brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindi kvenna til þungunarrofs.

„Ríki getur ekki bannað þungunarrof eftir sex vikna meðgöngu. Texas vissi þetta en vildi samt sem áður banna það eftir sex vikur og því innleiddi ríkið áður óheyrða löggjöf sem var ætlað að hræða þá sem bjóða upp á þungunarrof og aðra sem gætu hugsanlega aðstoðað konur við að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn,“ sagði Brian Netter, lögmaður dómsmálaráðuneytisins, fyrir dómi.

Talið er líklegt að lögin í Texas endi fyrir hæstarétti en stuðningsfólk þungunarrofs óttast að rétturinn muni í raun banna þungunarrof í Bandaríkjunum. Meirihluti dómaranna er mjög íhaldssamur og í september hafnaði dómurinn því að taka afstöðu til þess hvort lögin í Texas væru brot á stjórnarskránni. Fimm dómarar stóðu að baki ákvörðuninni en fjórir voru á móti. Þetta telur stuðningsfólk frjálsra þungunarrofsaðgerða slæmt merki.

Það er dómur hæstaréttar í hinu svokallaða Roe vs. Wade frá 1973 sem er grundvöllur réttarins til þungunarrofs í Bandaríkjunum.

Hæstiréttur hefur nýtt starfstímabil á mánudaginn og í desember tekur hann fyrir mál frá Mississippi sem miðar að því að ógilda niðurstöðuna í Roe vs. Wade. Ef það gerist eru mörg íhaldssöm ríki tilbúin með lög sem munu banna þungunarrof.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

„Mér hefur aldrei liðið svona illa, ég vildi óska að ég hefði verið bólusettur“

„Mér hefur aldrei liðið svona illa, ég vildi óska að ég hefði verið bólusettur“
Pressan
Í gær

Dularfullt mál – Tveimur konum var hent fyrir framan sitthvort sjúkrahúsið – Nú eru þær báðar dánar

Dularfullt mál – Tveimur konum var hent fyrir framan sitthvort sjúkrahúsið – Nú eru þær báðar dánar