Sofia Sarmite Kolesnikova fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 29. apríl 2023, hún var 28 ára.
Tveir karlmenn á þrítugsaldri, stjúpbræður, voru handteknir sama dag á vettvangi og síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 5. maí. Öðrum þeirra var sleppt 4. maí, en gæsluvarðhald yfir hinum var ítrekað framlengt. Sá var kærasti Sofiu þegar hún lést.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir manninum kom fram að hann hefði dregið að að tilkynna lát Sofiu til lögreglu í tæplega hálfan sólarhring og hann hafi spillt og eytt sönnunargögnum. Áður hafði hann kallað stjúpbróður sinn til aðstoðar en sá sat um stutt skeið í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Í frétt DV í janúar 2024 kom fram að rannsókn málsins væri enn í gangi, maðurinn gekk þá laus eftir gæsluvarðhald í átján vikur og hafði ekki verið ákærður. Fyrir lá að dánarorsök Sofiu var meðal annars kyrking og kókaíneitrun.
Sjá einnig: Selfossmálið: Tilkynnti lát Sofiu tæpum hálfum sólarhring síðar og spillti sönnunargögnum
Farbanni yfir manninum var aflétt í byrjun desember 2023, hann var þó enn með réttarstöðu sakbornings. Rannsókn lögreglu lauk nær 230 dögum eftir að Sofia fannst látin. Málið var þá sent til embættis héraðssaksóknara til ákvörðunar um ákæru.
Maðurinn lést í Thailandi áður en til ákvörðunar kom. Frekari meðferð á málinu var þannig felld niður, þar sem engan er hægt að ákæra, upplýsingar sem komu fram við rannsókn verða því aldrei gerðar opinberar.
Sofia var marin á hálsi og með sýnilega marbletti sem bentu til kyrkingar, þegar hún fannst látin. Auk þess greindist meira en bannvænn skammtur af kókaíni í líkama hennar.
Í þættinum Þetta helst á Rás 1 er fjallað um málið og hliðar á því sem ekki hafa komið fram áður. Í þættinum kemur fram að aðstandendur Sofiu hafi greint miklar breytingar á henni eftir að samband hennar og mannsins hófst. Ýmis gögn málsins styðja það.
„Hún virtist vera orðin einangraðari. Það var samhljómur í því að það var orðið erfiðara að ná sambandi við hana og hún var ekki mikið í sambandi við vini og ættingja,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson sem fór með rannsókn málsins hjá lögreglunni á Suðurlandi. „Ýmislegt vakti grun lögreglu um að hún hefði ekki fullt vald yfir sínum gjörðum, sinni netnotkun, símanotkun eða fjármunum.“
Lögreglan fann meðal annars fíkniefni, byssu og umbúðir utan af öryggismyndavélum við leit á vettvangi og í bíl mannsins. Taldi lögreglan manninn hafa notað öryggismyndavélar til að fylgjast með Sofiu. Nokkrar myndavélar höfðu verið á heimilinu sem tengdar voru erlendum skýjaþjónustum og grunaði lögreglu að myndefni væri til frá nóttinni sem Sofia lést.
Eins og áður kom fram notaði kærasti hennar tíma til að eyða sönnunargögnum áður en hann tilkynnti andlát hennar, þar á meðal eyddi hann aðgöngum sínum að skýjaþjónustunum, og fjölmörgum ljósmyndum og myndskeiðum úr símanum sínum. Lögregla endurheimti símagögnin en tókst ekki að endurheimta upptökur úr öryggismyndavélunum. Við yfirheyrslur játaði maðurinn að hafa losað sig við myndavélar daginn sem Sofia lést.
Ættingjar Sofiu segja að hún hafi alltaf sýnt mikla ábyrgð þegar kom að fjármálum. Alin upp við fátækt hafi hún lagt allt á sig til að brjótast út úr henni, vildi alls ekki stofna til skulda við neinn og með mikilli vinnu gat hún keypt sér íbúð.
Við andlát Sofiu kom hins vegar í ljós að síðustu mánuði fyrir andlát hennar hafði hún tekið ýmis lán. Samkvæmt lögreglu runnu peningarnir að mestu inn á bankareikninga kærasta hennar og meints geranda.
Annar þáttur Þetta helst um málið verður fluttur föstudaginn 14.mars.