fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Fréttir

Agnes þvær hendur sínar af neyð Kristins – Atvinnulaus og tekjulaus eftir að embættið var lagt niður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 6. júní 2024 16:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er atvinnulaus, ég hef verið tekjulaus í allmörg ár, þetta hefur skert lífeyrissréttindi mín og þetta hefur haft áhrif á heilsufar mitt, á fjölskylduna, félagslega stöðu okkar og félagsleg samskipti; vináttubönd hafa rofnað, allskonar samskipti trosnað upp, þetta hefur haft andleg og sálræn áhrif, gríðarleg áhrif, að þurfa standa í svona stappi og ströggli,“ segir séra Kristinn Jens Sigurþórsson sem hefur stefnt Þjóðkirkjunni og krefst skaðabóta vegna þess að prestsembætti hans að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd var lagt niður árið 2019.

Aðalmeðferð var í málinu í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ofangreind ummæli féllu í vitnastúku í morgun er Kristinn gaf aðilaskýrslu í málinu. Einnig kom fram í vitnisburði hans að hann hefur eftir þetta sótt fjórum sinnum um störf innan Þjóðkirkjunnar en án árangurs og hann hefur einnig árangurslaust sótt um önnur störf.

Nokkrir aðrir báru vitni í réttarhöldunum í dag, meðal annars fráfarandi biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sem var fáorð í vitnastúku, bar við minnisleysi eða þekkingarleysi við fjölmörgum spurningum sem lögmaður Kristins, Björn Jóhannesson bar upp við hana varðandi feril málsins. Ákvörðunin um niðurfellingu prestakallsins að Saurbæ og niðurfellingu prestsembættis Kristins var tekin á Kirkjuþingi, þar sem biskup er ekki fulltrúi og hefur ekki atkvæðisrétt. „Ég bara man það ekki,“ og „Ég veit það ekki“ voru algengustu svör Agnesar við spurningum lögmannsins.

Stefán Magnússon kirkjuráðsmaður kom fram með tillöguna um að leggja niður prestakallið. Aðspurð um hvort tillagan hefði komið henni á óvart svaraði Agnes:

„Það kemur manni eiginlega ekkert á óvart lengur í þessari kirkju.“

Lögmaðurinn þráspurði Agnesi að því hvort ekki hefði verið rétt að tillagan færi fyrir biskupafund og yrði þar með viðfangsefni hennar og vígslubiskupa í landinu. Hún sagði svo ekki vera og að kirkjuráð væri sjálfstæður og óháður vettvangur. Tillagan barst kirkjuþingi með skömmum fyrirvara og sagði Agnes slíkt vera alvanalegt, að mál væru lögð fram á Kirkjuþingi með skömmum fyrirvara.

Heilsuspillandi húsnæði

Aðdragandi að málinu var ófremdarástand á prestssetrinu í Saurbæ vegna myglu og raka sem olli prestinum og fjölskyldu hans vanheilsu. Ekki tókst að laga vandann þrátt fyrir viðgerðir á kjallara en í stað þess að finna varanlega úrlausn á vandanum ákvað Þjóðkirkjan að leggja prestakallið niður. Kristni var boðið að taka við öðru prestsembætti. Hann ákvað í staðinn að þiggja lögmælt eftirlaun. Þeirri beiðni var hafnað og lýsti Kristinn sig þá þess reiðubúinn að taka við öðru prestsembætti. En þá var honum tjáð að svar hans við því tilboði hefði borist of seint og fékk hann því hvorki eftirlaun né embætti hjá Þjóðkirkjunni.

Aðalkrafa Kristins er að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda Þjóðkirkjunnar gagnvart honum vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar kirkjuþings um að leggja Saurbæjarprestakall niður og ákvörðunar biskups í kjölfarið um að leggja niður sóknarprestsembætti hans.

Varakrafa Kristins er sú að Þjóðkirkjan verði dæmd skaðabótaskyld vegna þeirrar ákvörðunar biskups að hafna þeirri ákvörðun Kristins að fara á lögmælt eftirlaun eftir að honum var boðið að taka við öðru embætti innan kirkjunnar.

Þrautavarakrafa hans er sú að viðurkennd verði skaðabótaskylda Þjóðkirkjunnar vegna þeirrar ákvörðunar biskups að hafna þeirri ákvörðun Kristins um að taka boði um annað prestsembætti, vegna þess að hann hafi svarað boðinu of seint.

Þjóðkirkjan hafnaði öllum kröfum Kristins og því fór málið fyrir dóm.

Hljóðupptakan sem hvarf

Endurbætur höfðu verið gerðar á kjallara hússin að Saurbæ árið 2014, byggt á skýrslu verkfræðistofunnar Verkís. Árið 2016 setti Kristinn sig í samband við Biskupsstofu og bað um að ástand hússins yrði kannað aftur þar sem fjölskyldan stríddi við þrálát veikindi sem ætla mætti að stöfuðu af ástandi hússins. Var þá ráðist í að fá álit frá tveimur verkfræðistofum, Verkís og Eflu. Skiluðu stofurnar ólíku mati þar sem Efla taldi sig finna myglu á fleiri stöðum í húsinu en Verkís. Framkvæmdir í húsinu á grunni þessara ábendinga hófust árið 2018 og flutti fjölskyldan tímabundið annað út af þeim.

Síðan var haldinn svokallaður verkskilafundur með aðilum málsins. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs, Oddur Einarsson, hljóðritaði fundinn á síma sinn og skrifaði síðan fundargerð upp úr hljóðupptökunni. Hann eyddi síðan upptökunni og sagði fyrir dómi í dag að  það hafi hann gert vegna þess að hann taldi sér það skylt að lögum að varðveita ekki upptökuna. Kristinn heldur því fram að fundargerðin, sem Oddur einn undirritaði, hafi ekki verið samhljóða fundinum og þar með hljóðupptökunni. Á fundinum mótmælti Kristinn þeim fyrirætlunum kirkjuráðs að ætla að styðjast meira við álit Verkís en Eflu við endurbætur á húsinu.

Biskup bauð honum embætti en boðið var afturkallað

„Biskupi hefur ekki verið treystandi til að virða samninga. Ótrúlegt siðleysi, svo ekki sé meira sagt,“ sagði Kristinn um framgöngu Agnesar í málinu. Af framburði Agnesar var hins vegar að skilja að ákvarðanir um að leggja niður prestakallið og embætti Kristins hafi verið teknar af öðrum aðilum en henni.

Aðspurð sagði Agnes að tillagan um að leggja niður prestakallið og embættið hafi ekki verið borin undir hana og hún hafi hvergi komið að ákvörðuninni.

Eftir þessa ákvörðun kirkjuþings, í apríl árið 2019, bauð Agnes Kristni síðan bréflega að taka við öðru af tveimur prestsembættum við Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakall. Kristinn sótti þá um að komast á lögmælt eftirlaun en svar Agnesar við þeirri beiðni, eftir að hún  hafði ráðfært sig við lögfróða menn, var að hafna beiðninni.

Kristinn óskaði eftir nánari upplýsingum um starfslýsingu og launakjör í nýju embætti við hið sameinaða prestakall. Einnig var ósamið um hvernig honum yrði bætt upp hlunnindatap sem hann varð fyrir með því að hætta ábúð að Saurbæ, en þar hafði hann m.a. haft tekjur af laxveiði og dúntekju. Þau mál hafa aldrei verið kláruð.

Er Kristinn hafði fengið höfnun við beiðni um töku lögmælts lífeyris ákvað hann að ganga að tilboði um prestsembætti við Garða- og Hvalfjarðarprestakall. Þá var honum tjáð að  svar hans væri of seint fram komið, frestur til að svara tilboðinu væri liðinn. Málið var þá komið í hendur Kristjáns Björnssonar, vígslubiskups í Skálholti, þar sem Agnes taldi sig vanhæfa í málinu vegna fyrri afskipta sinn af því og sáttaumleitana við Kristinn. Agnes sagði í vitnastúku dag: „Ég man bara ekki eftir þessu. Ég hef aldrei séð neitt því til fyrirstöðu að Kristinn yrði vígður prestur í sameinuðu prestakalli.“ Aðspurð sagðist hún ekki minnast þess að það hafi komið fram í umræðum við samstarfsfólk hennar innan kirkjunnar að boðið stæði ekki lengur.

Aðalmeðferð stóð yfir frá kl. 9:15 til 18:30 í dag. Dómur verður kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fjöldi fólks varð strandaglópar í Búdapest þegar flug Wizz air féll niður – Maður í hjólastól lofar viðbrögð Íslensku Klíníkurinnar

Fjöldi fólks varð strandaglópar í Búdapest þegar flug Wizz air féll niður – Maður í hjólastól lofar viðbrögð Íslensku Klíníkurinnar
Fréttir
Í gær

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strandamenn óhamingjusamastir en Skagfirðingar ánægðastir með lífið

Strandamenn óhamingjusamastir en Skagfirðingar ánægðastir með lífið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Datt illa í vinnunni og slasaðist – Var handtekinn í kjölfarið þegar upp komst að hvorki dvalar- né atvinnuleyfi var til staðar

Datt illa í vinnunni og slasaðist – Var handtekinn í kjölfarið þegar upp komst að hvorki dvalar- né atvinnuleyfi var til staðar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Umboðsmaður Alþingis skipar lögreglu að afhenda Tómasi sjálfsvígsbréf sonar hans – Neita að afhenda það

Umboðsmaður Alþingis skipar lögreglu að afhenda Tómasi sjálfsvígsbréf sonar hans – Neita að afhenda það
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tæknibilun í vírusvarnarhugbúnaði virðist hafa valdið ringulreið á heimsvísu – „Jæja, þá kemst maður kannski ekki heim“

Tæknibilun í vírusvarnarhugbúnaði virðist hafa valdið ringulreið á heimsvísu – „Jæja, þá kemst maður kannski ekki heim“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Neyðarleg rangfærsla á versta tíma og ráðuneytið svarar ekki spurningum um málið

Neyðarleg rangfærsla á versta tíma og ráðuneytið svarar ekki spurningum um málið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð