Eftir þrýsting frá Þjóðverjum á nú að þvinga fram í dagsljósið upplýsingar um hvaða Evrópuþjóðir leggja minnsta hernaðarstuðninginn af mörkum til Úkraínu. ESB og Bandaríkin berjast á fjölda vígstöðva við að finna nýja milljarða og vopn fyrir Úkraínu og einn liður í þessu er uppástunga bandarískra ráðamanna um að grípa til mjög sprengifims vopns sem Vesturlönd ráða yfir.
Þjóðverjar þrýstu hart á að upplýsingar verði gerðar opinberar um hvaða ESB-ríki láta hjá líða að senda eins mikið af vopnum og þau gætu gert, til Úkraínu. Það er utanríkisþjónusta ESB sem rannsakar framlög aðildarríkjanna og á niðurstaðan að liggja fyrir á leiðtogafundi ESB í Brussel þann 1. febrúar næstkomandi. Þar verða málefni Úkraínu aðalviðfangsefnið, bæði efnahagsleg og hernaðarleg aðstoð við landið.
Á sama tíma vinna Bandaríkjamenn á bak við tjöldin að umdeildri neyðaráætlun sem mun senda háar fjárhæðir til Úkraínu og ekki veitir af því svo virðist sem stuðningur almennings og stjórnmálamanna við Úkraínu fari þverandi á Vesturlöndum.
Vaxandi óvissa er um áframhaldandi stuðning. Í Washington koma þingmenn Repúblikana í veg fyrir að 60 milljarða dollara hjálparpakki Joe Biden, forseta, til Úkraínu sé samþykktur og á leiðtogafundi ESB í desember beitti Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, neitunarvaldi gegn 50 milljarða evra hjálparpakka til Úkraínu á næstu fjórum árum. ESB-ríkin náðu heldur ekki samkomulagi um að leggja fé í hernaðarstuðning við Úkraínu.
Skortur á vopnum, loftvörnum og hernaðartólum veikir í vaxandi mæli getu Úkraínumanna til að verjast árásum Rússa sem hafa hert þær á síðustu vikum og láta flugskeytum og drónum rigna yfir borgi og bæi.
Þess utan stefnir Úkraína í alvarlega efnahagskreppu vegna gríðarlegs hallareksturs ríkissjóð. ESB-ríkin höfðu heitið að stoppa í það gat en þá kom Orbán til sögunnar og kom í veg fyrir það.
Bandaríkin eru sögð þrýsta á um að Vesturlönd noti þá 300 milljarða dollara, sem voru frystir strax í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, til að styðja við Úkraínu. Margir alþjóðlegir fjölmiðlar segja að Bandaríkjamenn hafi lagt til að G7-ríkin kanni möguleikann á að nota þessa peninga en þeir tilheyra rússneska seðlabankanum.
DV.is fjallaði nýlega um málið og hugsanlega notkun þessara peninga.
Vesturlönd eiga mjög öflugt vopn gegn Rússlandi – Þora þau að nota það?
Financial Times segir að málið verði rætt á leiðtogafundi G7 sem fer fram í kringum 24. febrúar en þá verða tvö ár liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.