Tveir ökumenn til viðbótar voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Annar þeirra neitaði ítrekað að láta öndunarsýni í té og var því sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Á sjöunda tímanum í gær var tilkynnt um eld í húsnæði í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Minniháttar tjón varð en talið er að eldsupptökin hafi verið í þvottavél.
Tilkynnt var um þjófnað á fartölvu og fleiri munum úr bifreið í gærkvöldi. Hún var ólæst og því hægur leikur fyrir þjófinn að láta greipar sópa.
Í Miðborginni var tilkynnt um rúðubrot í verslun á fjórða tímanum í nótt. Lögreglan hafði afskipti af manni, sem var nærri vettvangi, og viðurkenndi hann að hafa brotið rúðuna.
Í Breiðholti var einn handtekinn á ellefta tímanum en hann er grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu. Upplýsingar liggja ekki fyrir um meiðsli árásarþolans.
Í Kópavogi var tilkynnt um aðfinnsluvert aksturslag bifreiðar á þriðja tímanum í nótt. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmerin því tekin af henni.