fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Á mannamáli: Allt sem þú þarft að vita um sóttvarnahúsið og dómsmálið

Heimir Hannesson, Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 7. apríl 2021 15:38

Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því að Covid-19 faraldurinn braust út í ársbyrjun 2020 hafa Íslendingar, og jarðarbúar allir raunar, þurft að aðlaga sig að breyttum raunveruleika. Orð sem fyrir faraldurinn heyrðust sjaldan á öldum ljósvakanna eru nú fastir gestir í fréttatímum landans. Sóttkví, farsótt, litakóðakerfi, fyrri skimun, seinni skimun, úrvinnslusóttkví, einangrun. „Snertilaus afhending“ er nú valkostur þegar pizza er pöntuð í heimsendingu og netverslun blómstrar. 

Á þeim tíma sem liðin er hafa Íslendingar upplifað þrjár bylgjur og höfðu sumir á því orð að fjórða bylgjan hefði hafist fyrir skömmu síðan. Sú bylgja virðist reyndar hafa fæðst andvana, blessunarlega. Að sögn sumra, er það vegna harðra aðgerða sem stjórnvöld gripu til nú rétt fyrir páska.

Óumdeilt er að Íslendingar hafa upplifað umtalsvert meira frelsi talsvert lengur en margar nágrannaþjóðir sínar og má rekja það frelsi til þess að tekist hefur að halda faraldrinum niðri að mestu hér innanlands. Til þess að forða Íslendingum frá frekari útbreiðslu faraldursins fóru stjórnvöld þá leið að herða aðgerðir á landamærunum til muna.

Þá vandaðist staðan. 

Sóttvarnir og landamærin

Nú þurfti að huga að mörgu. Ekki þótti rétt að loka landamærum Íslands með öllu en á sama tíma var talið að grípa þyrfti til aðgerða til að lágmarka líkur á að hingað kæmu inn smitaðir einstaklingar sem kæmu nýrri bylgju Covid-19 að stað.

Eftir sem áður hafa margir kallað eftir því að landamærunum sé hreinlega skellt í lás. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í morgun að slíkt væri ekki til umræðu. Ferðalög yfir landamæri landsins eru að langmestu leyti nauðsynleg. DV sagði í morgun, til dæmis, frá konu sem neyddist til að fljúga til Serbíu til þess að jarða móður sína sem lést nýverið. 

Í stað algjörrar lokunar var þá ákveðið að fara þá leið að krefjast þess af ferðamönnum að þeir færu í tvær sýnatökur með fimm daga sóttkví þeirra á milli.

Óhlýðnir ferðalangar og vantraust Þórólfs

Þórólfur sóttvarnalæknir greindi þó frá því á upplýsingafundum að ferðalangar virtust eiga erfitt með að fara að þeim reglum og erfitt væri að hafa eftirlit með þeim. Nefndi hann sem dæmi að fólk sem átti að vera í sóttkví hefði brugðið sér á gossvæðið og víðar. 

Aftur fór smitum að fjölga á Íslandi og í þetta sinn var það breska afbrigði veirunnar sem hafði gert sig hér heimakomið, en breska afbrigðið er sagt hættulegra og meira smitandi en önnur.

Þá var tekin sú ákvörðun að þeir sem kæmu til Íslands frá löndum þar sem mikið er um smit færu í það sem kallað er sóttvarnahús. Til þess að ákveða hvaða lönd eru hættulegri en önnur í þessum efnum, er stuðst við svokallaða litakóða sóttvarnarstofnunar Evrópu. Þar er kort birt einu sinni í viku sem sýnir stöðuna á Covid faraldrinum í hverju landi fyrir sig með litakóða. Eldrauð lönd eru talin þau hættulegustu, og fólk sem ferðast þaðan skikkað í vistun í sóttvarnahúsi.

Sóttvarnahús frekar en heimahús

Sóttvarnalögin sem giltu í upphafi faraldursins voru frá árinu 1997 og sett þegar hugmyndin um alheimsfarsótt fjarstæð hugmynd. Því lá fyrir að breyta þyrfti lögunum til þess að þau ættu betur við faraldurinn.

Meðal þeirra breytinga sem voru gerðar var að svokallað sóttvarnahús var skilgreint í lögum sem: „Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.”

Eða með öðrum orðum sérstakt húsnæði fyrir þá sem sóttvarnalæknir treystir ekki til að virða sóttkví án eftirlits.

Sóttvarnahús eru nú nokkur og eru rekin af Rauða krossinum á Íslandi. Þeir sem þar eiga að dvelja eru keyrðir þangað beint frá flugvellinum. Gestir sóttvarnahúsanna eru ekki frjálsir ferða sinna og þurfa að einangra sig inni á herbergjum sínum. 

Þetta voru ekki allir sáttir við. Sérstaklega Íslendingar sem fengu ekki að fara heim til sín í sóttkví. 

Frelsisskerðing og óætur matur

Sumri þeirra sem voru skyldaðir til þess að taka út sína sóttkví í sóttvarnahúsi í stað þess að fá að fara heim til sín í sóttkví þar voru mjög ósáttir við þá ákvörðun yfirvalda. Fyrir því færðu þau ýmis rök. Sumir sögðu að þau væru öruggari heima hjá sér en að vera skylduð til þess að deila rútu í sóttvarnahús og hitta þar fjölda einstaklinga.

Þá sögðu aðrir það ósanngjarnt að fólk sem væri að koma frá „rauðu landi“ þyrfti að fara í sérstakt hús því þeim væri ekki treyst til þess að fylgja reglum, en fólk sem skyldað var í sóttkví innanlands, t.d. vegna nærveru við smitaðan einstakling, fengi að fara í sóttkví heima hjá sér. Var slíkt sagt brot á jafnræðisreglu.

Enn aðrir sögðu þá að skyldudvöl gengi lengra en þyrfti til þess að ná fram yfirlýstum markmiðum, og að gera ráð fyrir því að fólk bryti reglur áður en það gerðist brotlegt væri andstætt meðalhófsreglu. 

Þá var aðbúnaðurinn gagnrýndur á Fosshóteli gagnrýndur. Maturinn sagður kaldur og óætur. Sumir fengu gluggalaus herbergi og aðrir kvörtuðu yfir loftleysi. Þá lýsti einn viðmælandi DV því að hafa öskrað úr gleði þegar hún loksins komst út úr herberginu.

Sumir þeirra óánægðu tóku sig til og kærðu ákvörðun sóttvarnalæknis.

Gekk lengra en lögin

Niðurstaðan var sú að reglugerð ráðherra, sem heimilaði sóttvarnalækni að skikka fólk í sóttvarnahús, gekk lengra en lögin. Það er, tók ekki tillit til þess hvort ferðamaður væri búsettur hér á landi eða hvort hann væri viljugur til að virða sóttkví í heimahúsi. 

En hvað þýðir það? Alþingi Íslands fer með löggjafarvaldið hér á landi á meðan yfirvöld fara með framkvæmdavald, eða með öðrum orðum þingmenn semja lögin og ráðherrar útfæra þau með reglugerðum. Reglugerðirnar verða að byggja á gildandi lögum og ef þær ganga lengra en lögin heimila þeim þá eru reglugerðarákvæðin ekki gild því þeim skortir lagastoð, eins og það er kallað. 

Lögin heimiluðu heilbrigðisráðherra ekki að setja strangari skilyrði fyrir dvöl í sóttvarnahúsi en lögin gerðu. Það er nefnilega svo að okkur eru tryggð mannréttindi í stjórnarskrá og til að skerða þau þarf slíkt að vera gert með lögum og ekki bara einhverjum lögum heldur skýrum lagaákvæðum sem ganga ekki lengra en nauðsyn þykir. 

Þeir aðilar sem kærðu eru búsettir á Íslandi og lýstu sig tilbúna til að virða sóttkví í heimahúsi. Þess vegna mátti ekki neyða þá í sóttvarnahús, sama hvort Þórólfur treysti þeim eða ekki. 

Betra er heima að sitja en aðra að smita

Þessi niðurstaða þýðir þó ekki að sóttvarnahús og dvölin þar sé ólögleg. Hún þarf hins vegar að byggja á lögum. Þess vegna má enn skikka þá sem segjast ekki ætla í sóttkví, eða ferðamenn sem eru ekki búsettir hér á landi í sóttvarnahús. Það er vissulega líka frelsisskerðing að þurfa að vera í heimasóttkví en það hljóta flestir að vera sammála um það að það sé samt betra að vera heima hjá sér en einangraður á hótelherbergi. Nema það sé eitthvað sem fólk vill, og þá er það líka flott og allir, sérstaklega Þórólfur, sáttir.

Yfirvöld hafa síðan úrskurður héraðsdómur féll áfram hvatt fólk til þess að nýta sér sóttvarnahús yfirvalda.

Ríkið var ekki sátt við þessa niðurstöðu og kærði hana til Landsréttar, áfrýjunardómstigs Íslendinga. Eftir að úrskurðurinn féll tilkynnti heilbrigðisráðuneyti að gestum sóttkvíarhótela væri frjálst að ljúka sóttkví annars staðar ef þeir gætu. Þeir báðu samt fallega um að sóttkví væri engu að síður lokið í sóttvarnahúsum því það væri besta leiðin til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Með því að kæra til Landsréttar vonast ríkið eftir því að ákvörðun þeirra fái að standa. Kæran hefur þó ekki áhrif á úrskurð héraðsdóms að því leyti að hann gildir þar til og ef Landsréttur fellur hann úr gildi. 

Landsréttur mun líklega úrskurða í dag í málinu. Hins vegar rennur sóttkví þeirra sem kærðu út klukkan þrjú í dag og þar með hefur ríkið í raun enga kröfu fyrir Landsrétt til að fjalla um. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Erum við sátt við að algóritminn sjái um uppeldið“

„Erum við sátt við að algóritminn sjái um uppeldið“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum