fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Eldri kona fær engar bætur eftir martröð í Endurvinnslunni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 1. júlí 2020 18:10

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Endurvinnslan og VÍS hafa verið sýknuð af skaðabótakröfu konu sem slasaðist alvarlega er hún festist í sjálfvirkri hurð í Endurvinnslunni að Dalvegi í Kópavogi árið 2015. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. júní.

Þann 19. nóvember það ár átti konan, sem þá var 73 ára gömul, leið í móttökustöð Endurvinnslunnar að  Dalvegi 28 í Kópavogi. Gengið er inn í húsið um dyr sem lokað er með rafdrifinni hurð sem opnast og lokast sjálfvirkt. Þegar konan var á leið út úr húsinu lokaðist rafmagnshurðin á hana svo að hún missti jafnvægið, féll í gólfið og slasaðist. Konan telur að hurðin hafi verið vanstillt eða biluð og öryggisbúnaður hennar hafi ekki virkað rétt.

Samkvæmt vottorði læknis voru áverkar konunnar eftir slysið tognun og ofreynsla á mjöðm, mar á ótilgreindum hluta fótleggjar, tognun og ofreynsla á ökkla og mar á ótilgreindum hlutum fóta.

Í læknisvottorðinu segir:

„Hér er þannig um 73 ára gamla konu sem verður fyrir því að sjálflokandi hurð lendir á henni og hún dettur illa og fær mikið mar einkum á hægra mjaðmarsvæði niðurfótinn og ökkla og eins á vinstri ökklann. Lagðist meira og minna í rúmið í margar vikur, komst þannig ekkert út um jólin og ekki fyrr en 10. febrúar að hún fer út úr húsi og þá til mín og hefur lítið farið síðan annað en það allra nauðsynlegasta.“

Konan tilkynnti um tjón sitt til VÍS í janúar 2016 og krafðist þess að tjónið yrði bætt úr ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar Endurvinnslunnar. Í kjölfar bréfaskrifta fór það svo að VÍS hafnaði bótaskyldu fyrir hönd Endurvinnslunnar í febrúar 2017.

Endaði í hjólastól

Í málatilbúnaði konunnar er staðhæft að rafmagnshurðin hafi lokast á hana skyndilega án þess hún fengi rönd við reist og fellt hana svo hún slasaðist. Röng stilling hafi valdið því að hurðin lokaðist þrátt fyrir það eðlilega viðnám að einhver stóð fyrir henni.

Konan segist hafa orðið fyrir verulegum miska vegna slyssins. Hún hafi verið rúmliggjandi í rúma þrjá mánuði og lést um 14 kg á tímabilinu. Hún hafi einangrast félagslega og þetta hafi tekið mjög á sálarlíf hennar. Hún hafi enn fremur orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og sé nú bundin hjólastól.

Ágreiningur var milli málsaðila um hvort hurðin hafi verið útbúin eðlilegum öryggisbúnaði. Endurvinnslan staðhæfði að svo hefði verið og óaðgæsla konunnar hafi valdið því að hurðin lokaðist á hana. Konan hafi að ástæðulausu ákveðið að nema staðar í dyragættinni þótt hún vissi um sjálfvirkni hurðarinnar í tengslum við skynjun á hreyfingu.

Þá var vísað til þess að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að hurðin hafi nokkurn tíma bilað eða gallar komið fram á henni.

Konan hélt því fram í sínum málatilbúnaði að viðgerð hafi farið fram á hurðinni skömmu eftir atvikið en því mótmælti Endurvinnslan.

Dómurinn taldi hurðina uppfylla öryggiskröfur

Endurvinnslan og VÍS voru sem fyrr segir sýknuð af kröfum konunnar en í niðurstöðunni segir meðal annars:
„Að virtum málatilbúnaði aðila, þeim gögnum sem liggja fyrir dóminum og því sem fram kom við skoðun á umbúnaði á starfsstöð stefnda Endurvinnslunnar í vettvangsgöngu er ljóst að hin umþrætta hurð var búin hreyfiskynjurum að utan og innan og mótor sem stilltur var miðað við tiltekið viðnám og stöðvaðist og sneri við er hurðin lenti á manni sem stóð kyrr í braut hurðarinnar. Varð ekki annað ráðið af þessu en að umbúnaður hurðarinnar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem framangreindir staðlar um öryggisútbúnað rafdrifinna rennihurða áskilja. Þá er ekki fram komið að umbúnaður af þessum toga sé óvenjulegur eða hafi ríkari hættueiginleika en sambærilegur búnaður fyrir dyragötum eða á lyftum hefur endranær. Samkvæmt almennri reynslu krefst notkun og umgengni um slíkar hurðir vissrar aðgæslu á sambærilegan hátt og hurðapumpur eða hverfihurðir, þannig að þeir sem um dyr fara sýni aðgát og gætiþess að verða ekki fyrir hurðarflekunum.“
Konan hafði krafist skaðabóta upp á 2.798.479 krónur en þeim kröfum var hafnað. Hún þarf hins vegar ekki að bera málskostnað. Fékk hún gjafsókn í málinu og kostnaður fellur á ríkissjóð, meðal annars þóknun lögmanns hennar, 1,8 milljónir króna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi