fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Jóhann stofnar enn eitt fyrirtækið – „Hann er gjörsamlega siðlaus“

Auður Ösp
Laugardaginn 27. júlí 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Jónas Ingólfsson, dæmdur nauðgari og fíkniefnasmyglari, hefur stofnað nýtt félag í kringum verktakafyrirtæki sitt, Já Iðnaðarmenn. DV hefur fjallað ítarlega um viðskiptahætti Jóhanns Jónasar undanfarin misseri og greint frá tveimur gjaldþrotum rekstrarfélaga Já Iðnaðarmanna. Fram hefur komið að Jóhann hefur skilið eftir sig sviðna jörð í viðskiptum en ávallt haldið rekstrinum áfram með kennitöluflakki.

Þann 2. júlí síðastliðinn var einkahlutafélagið Málning Múr og Meira ehf. skráð í fyrirtækjaskrá og er Jóhann Jónas Ingólfsson skráður sem stjórnarmaður þess. Er starfsemi félagsins flokkuð undir múrhúðun.

DV hefur undanfarna daga borist ábendingar um að auglýsingabæklingi frá Já Iðnaðarmönnum hafi verið dreift á heimili á víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Umræður hafa sprottið upp á Facebook þar sem einstaklingar hvetja fólk til að vara sig á viðskiptum við fyrirtækið.

„Mér finnst alveg furðulegt að svona menn geti haldið áfram að stofna nýja kennitölu, nýtt VSK-númer. Er ekkert í kerfinu sem getur komið í veg fyrir þetta? Ég get ekki ímyndað mér annað en að hann sé bara við sama heygarðshornið. Hann er að pretta. Hann rukkar fólk og gengur hart eftir því að fá fyrirframgreiðslur. Hann er gjörsamlega siðlaus,“ segir Elías Vífilsson, eigandi og framkvæmdastjóri Múr og Mál ehf. í samtali við DV. Elías er einn af þeim sem segja farir sínar ekki sléttar af viðskiptum sínum við Jóhann.

26 milljóna þrot

Í marslok 2017 stefndi félag Jóhanns, Já Iðnaðarmenn ehf. í gjaldþrot. Var nafni félagsins þá breytt í Verktakar og endurbætur ehf. Félagið var síðan úrskurðað gjaldþrota nokkrum vikum síðar eða þann 12. apríl og lauk þar með rúmlega tveggja ára rekstrarsögu þess. Á þeim tíma hafði félagið komið að margs konar verktakastarfsemi.

Þá var rekstur félagsins fluttur yfir í félagið Já iðnaðarmenn Art2b verkstæði ehf. Félagið hélt áður utan um rekstur listagallerís í anddyri Bónusverslunarinnar í Kauptúni en tilgangi félagsins var síðar breytt í fyrirtækjaskrá á þann veg að fyrirtækið væri einnig í verktakastarfsemi.

Í júlí 2017 skrifaði Jóhann undir leigusamning við eigendur atvinnuhúsnæðis að Þverholti 18 í Reykjavík. Var leiguverðið 1.650.000 krónur á mánuði. Fasteignin var þó aðeins að litlu leyti notuð sem skrifstofa félagsins, þar gistu einnig erlendir verkamenn sem komu til starfa hjá Já Iðnaðarmönnum.

Þverholt 18 í Reykjavík

Þann 11. desember sama ár lauk skiptum í þrotabúinu. Lýstar kröfur voru um 126 milljónir króna en engar eignir fundust í búinu.

Jóhann færði því Já Iðnaðarmenn yfir á aðra kennitölu og hélt áfram rekstri. DV greindi frá því í desember 2017 að Jóhann hefði undanfarna mánuði auglýst grimmt eftir starfsmönnum, til dæmis smiðum, málurum, bifvélavirkjum, verkstjóra og traustum og ábyggilegum fjármálastjóra.

Fram kom í frétt DV á sínum tíma að samkvæmt heimildum blaðsins hefðu margar kvartanir vegna starfseminnar borist til eftirlitsaðila mánuðina á undan. Þá hafi fyrirtækið verið kært til lögreglu vegna meints brots á iðnaðarlögum. Fólust brotin í því að ófaglærðir starfsmenn hefðu sinnt verkefnum sem þeir höfðu engin réttindi til að vinna.

Fram kom að margir viðskiptavinir sætu eftir með sárt ennið eftir viðskipti sín við Já Iðnaðarmenn, og birgjar sömuleiðis.

„Ég er búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár og ég hef aldrei kynnst öðrum eins siðblindingja,“ sagði Ingólfur Steingrímsson, eigandi Kvarna ehf. ,sem  leigir meðal annars út vinnupalla fyrir verktaka. Hann fordæmdi einnig framgang lögreglu og eftirlitsaðila í málinu. „Ég kærði Jóhann fyrir löngu en hann er ekki einu sinni kallaður til skýrslutöku. Á meðan fær hann að halda áfram óáreittur og skilja eftir sig sviðna jörð,“ segir Ingólfur.

Í júní 2018 var nafni fyrirtækisins breytt í Verktakar Já Art2b ehf. Þremur mánuðum síðar var félagið lýst gjaldþrota. DV hafði á sínum tíma samband við Jóhann vegna gjaldþrotsins og tók hann fyrirspurn blaðamanns óstinnt upp. Vildi hann meina að blaðið hefði kippt fótunum undan rekstrinum með því að fjalla um fyrra gjaldþrot og rifja upp langan og skuggalegan afbrotaferil hans.

Svikinn um laun

Í lok júlí 2018 var greint frá því að sérsveit lögreglunnar hefði handtekið einstakling sem var vopnaður hnífi í húsnæði við Þverholt 18. Húsnæðið sem um ræðir var fyrrgreint atvinnuhúsnæði sem Jóhann hafði á leigu undir skrifstofu Já Iðnaðarmanna. Maðurinn sem var handtekinn var egypskur hælisleitandi sem taldi sig hafa verið svikinn um laun af vinnuveitanda sínum, Já Iðnaðarmönnunum.

Í byrjun nóvember 2018 var  reksturinn kominn á þriðju kennitöluna: yfir í Já iðnaðarmenn verkstæði ehf. Það félag hét áður Diddi annar ehf. en heitinu var breytt yfir í núverandi nafn fyrirtækisins í lok desember 2017, skömmu eftir að fyrsta fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota.

Um miðjan desember 2018 greindi DV frá því að eigendur atvinnuhúsnæðisins að Þverholti 18 hefðu höfðað mál gegn Jóhanni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í þeim tilgangi að fá  hann borinn út úr fasteigninni. Hafði þá leigusamningnum verið rift vegna vanefnda.

Þegar hér var komið sögu var Jóhann skráður í Þjóðskrá með óþekkt heimilisfang í Danmörku.

Dæmdur nauðgari

Jóhann hefur margoft komið við sögu lögreglu undanfarna áratugi, meðal annars vegna þjófnaða. Í frétt Pressunnar í september 1992 kemur fram að Jóhann, sem þá var 35 ára gamall, hefði komist yfir tuttugu sinnum í kast við lögin á átján árum.

Í upphafi tíunda áratugarins hlaut hann sex mánaða fangelsisdóm fyrir nauðgun og sat inni í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í þrjá mánuði.

Í afplánuninni kynntist hann afbrotamanninum Steini Ármanni Stefánssyni og tókst með þeim vinskapur. Steinn Ármann trúði Jóhanni fyrir því að hann ætti von á stórri kókaínsendingu til landsins. Þær upplýsingar ákvað Jóhann að nýta sér til hins ítrasta.

Hann var í erfiðri stöðu því í febrúar 1991 hafði hann verið handtekinn með þrjú kíló af hassi. Ákæra í málinu hafði verið gefin út og átti Jóhann því þungan dóm yfir höfði sér. Um leið og hann lauk afplánun nauðgunardómsins gaf hann sig fram við lögreglu, sagði allt af létta og tók að sér að þykjast ætla að kaupa efnið með það að markmiði að grípa Stein Ármann með það undir höndum. Áætlunin gekk upp og var málið, sem fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun, þekkt sem Stóra Kókaínmálið. Fram kom að Jóhann hafi freistað þess að fá mildari dóm í hassmáli sínu í staðinn fyrir uppljóstrunina.

Árið 1993 var Jóhann dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum og kynferðisbrot. Í kjölfarið ákvað hann að yfirgefa landið.

Í mars 1999 greindi DV síðan frá því að Jóhann væri aftur kominn til Íslands eftir að dómurinn gegn honum hafði fyrnst. Starfaði hann þá fyrir breskt heildsölufyrirtæki sem lét til sín taka hérlendis. Í frétt blaðsins kom fram að íslensk yfirvöld hefðu leitað til Interpol til þess að hafa uppi á Jóhanni en án árangurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“