fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Hugmynd á skemmtiferðaskipi við Flatey verður að plötu

Guðni Einarsson
Laugardaginn 13. október 2018 21:00

Ylja Kynntust í Flensborg fyrir áratug.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hljómsveitin Ylja hefur verið í uppáhaldi hjá mörgum tónlistarunnendum landsins en hljómsveitin er þekkt fyrir fallegar og angurværar texta- og lagasmíðar ásamt fögrum og harmónerandi söng hljómsveitarmeðlima. Hljómsveitina skipa vinkonurnar Gígja Skjaldardóttir, frá Patreksfirði, og Bjartey Sveinsdóttir, frá Hafnarfirði.

Hljómsveitina stofnuðu þær fyrir sléttum áratug þegar þær hittust í kór Flensborgarskólans og hafa þær allar götur síðan samið tónlist saman.

Gígja tók gítarinn upp árið 2008 en Bjartey árið 2009 og naut þess að móðir hennar spilar á gítar og gat kennt henni til að byrja með. Annars nýttu vinkonurnar Youtube og bækur til þess að læra á gítar. Þær voru þó ekki alveg blautar á bak við eyrun í tónlist því þær höfðu lært aðeinas á píanó áður.

Hljómsveitin á að baki tvær frábærar hljóðversplötu, sem báðar hafa fengið lof gagnrýnenda og er sú þriðja, Dætur, á leiðinni. Platan mun líta dagsins ljós þann 20. október næstkomandi. Hugmynd í Flatey gerði að verkum að þær ákváðu að ráðast í gerð þriðju plötunnar þar sem þær sungu um borð skemmtiferðarskipi á vegum National Geographic.

Ég spjallaði við þær Gígju og Bjarteyju of forvitnaðist um nýju plötuna, samstarfið og hugmyndina í Flatey.

Hvernig kynntust þið?

„Við kynntumst í kór Flensborgarskólans fyrir tíu árum, þar lágu leiðir okkar saman. Við erum að halda upp á vinkonu- og samstarfsafmæli í ár.“

Hvað kom til að þið stofnuðuð hljómsveitina Ylju?

„Hún Gígja spurði mig hvort ég væri til í að taka þátt í söngvakeppni Flensborgarskólans. Það var þannig að ég var bara sveitastelpa en átti mína söngkonudrauma. Mig langaði ótrúlega mikið að taka þátt í þessari keppni en hefði aldrei þorað að gera það ein, það var ekki séns! Við höfðum dregist pínulítið hvor að annarri og við elskuðum alltaf sömu lögin í kórnum. Mér leist einfaldlega vel á hana, þannig ég ákvað að spyrja hvort hún væri ekki til í að syngja þetta með mér. Svo héldum við áfram eftir söngvakeppnina. Byrjuðum að taka fleiri ábreiður og seinna meir semja okkar eigin lög og verða vinkonur,“ segir Bjartey.

Haldi þið að ykkur gangi betur að semja tónlist saman því þið eruð bestu vinkonur?

„Jú, það hefur pottþétt áhrif. Auðvitað er það þannig, eins og í öllum samböndum, að ef einhver örlítill stirðleiki eða nett óþol er til staðar, þá hefur það áhrif á ferlið. Við bjuggum til dæmis saman á tímabili, á tveimur stöðum, og einu sinni vorum við saman í herbergi. Það var í senn gott og slæmt, gat stundum verið aðeins of mikið á tímabili. Vorum á fullu að gefa út plötu, bjuggum saman í sama herbergi með sama fataskápinn. Auðvitað myndast stundum smá spenna en þá höfum við verið duglegar að vinna úr henni, annars værum við ekki hér í dag.“

Þið hafið verið áratug í bransanum. Eru einhverjir hápunktar hjá ykkur, eitthvað sem þið munið vel eftir?

„Hápunktarnir eru alltaf í kringum útgáfu, þá er svo ótrúlega margt í gangi. Það getur verið ótrúlega stressandi en að sjálfsögðu líka mjög skemmtilegt. Við eigum uppáhaldstónleika á ferlinum, Airwaves 2015 í Fríkirkjunni. Við vorum báðar með gæsahúð allan tímann. Við erum ótrúlega ánægðar að fá sama slottið aftur í ár á Airwaves og erum mjög spenntar fyrir því.“

Einverjir lágpunktar, eða hefur þetta verið dans á rósum?

„Það geta komið álagspunktar sem geta verið erfiðir. En það er samt einfaldlega hluti af þessu öllu. Þetta er bara partur af sjálfsmynd manns, ég veit ekki hver við værum ef við værum ekki í þessu. Við látum þetta alltaf ganga. Auðvitað höfum við stundum hugsað „úff“ en erum samt engan veginn reiðubúnar að hætta þessu.“

Þið hafið sem sagt alltaf jafn gaman af þessu?

„Já, algjörlega. Það sem við þrífumst á er það að spila á tónleikum og sjá ánægju í augum fólks. Þegar það kemur til manns og segir manni frá því, það skiptir okkur miklu máli og hefur mikil áhrif á okkur sem tónlistarmenn og fær okkur til að vilja halda þessu áfram. Við gerum þetta auðvitað fyrir okkur sjálfar en líka fyrir aðra. Við höfum gaman af því hvað fólki finnst og gerum oft grín að því þegar fólk kemur til okkar eftir tónleika og segir: „oh, ég fékk svo mikla gæsahúð að ég fór bara að gráta“, þá erum við alveg bara „JESS!“. Ef við fáim fólk til að grenja þá erum við sáttar (hlátur).“

Þið hafið gefið út tvær breiðskífur og sú þriðja er á leiðinni. Er sú plata frábrugðin hinum tveimur?

„Þessi plata er nær fyrstu plötunni en plötu tvö, en kannski örlítið þroskaðri. Þetta eru þjóðlög sem við setjum í okkar útsetningu með hjálp frá Guðmundi Óskari tónlistarmanni. Hún er líka öðruvísi og frábrugðin annarri plötunni; þá vorum við með heilt band með okkur og lögin voru aðallega ensk, og pínu þung og sækadelikk.“

Vinsælar Spila fyrir ferðamenn á skemmtiferðaskipi.

Gömul þjóðlög í ykkar búningi. Hvaðan kemur sú hugmynd?

„Hugmyndin spratt upp í fyrra sumar í Flatey. Við höfðum verið að spila um borð í skemmtiferðaskipi á vegum National Geographic og Lindblad Expeditions. Við spiluðum fyrir fólk sem var að ferðast um Ísland á aðeins fræðilegri hátt en hefðbundnar ferðir á skemmtiferðaskipi. Við höfum gert þetta gigg nokkrum sinnum og þá tekið okkar lög í bland við gömul þjóðlög, kynnt eldri íslenska menningu og sagt sögurnar þar að baki. Eftir ferðina enduðum við aftur í Flatey og áttum auka dag í eynni. Við fórum inn í kirkjuna sem er á staðnum og vorum að leika okkur að syngja þar í geggjuðum hljómburði. Það var þá sem við sögðum bara „hei, af hverju gerum við ekki plötu, bara með íslenskum þjóðlögum“. Við vorum ekki aðeins að hugsa það fyrir útlendingana heldur einnig fyrir Íslendinga. Við sjálfar þekktum ekki öll þjóðlögin eða sögu þeirra. Við erum örlítið að endurvekja þetta og gera þetta smávegis tímalaust á okkar hátt.“

Þið hafið sem sagt farið í rannsóknarvinnu og kafað í sögurnar á bak við þjóðlögin?

„Við áttuðum okkur á því að við vissum frekar lítið um sögu og tilurð flestra þjóðlaganna. Við höfðum samband við þjóðfræðing, Pétur Húna, sem er búinn að stúdera þjóðlögin alveg í þaula og hann sagði okkur ýmislegt. Við fengum hann til þess að gera texta við lög sem við völdum sem eru á plötunni þar sem hann útskýrir og segir sögu og frá tilurð hvers lags. Textarnir hans fylgja með plötunni. Hlustandinn getur því fengið dýpri skilning og upplifunin verði betri og meiri.“

Hafi þið eitthvað reynt fyrir ykkur erlendis?

„Já, við höfum ferðast eitthvað. Við höfum oft verið bókaðar út, en aldrei farið á okkar eigin forsendum. Minnisstætt var gigg í Portúgal á vegum Íslandsstofu, við sungum á saltfiskshátíð sem var mjög fyndið, en ótrúlega skemmtilegt. Við fórum til Eistlands og spiluðum á kristilegri hátíð (smá hlátur) sem var samt líka þjóðlagahátíð. Það var ógeðslega gaman engu að síður og við skemmtum okkar mjög vel – vorum aðalnúmerið þarna. Stundum vitum við ekki alveg í hvað við erum að fara en það er bara skemmtilegt.“

Þið verðið með útgáfutónleika 20. október í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Hverju má fólk eiga von á?

„Þetta verður alveg geggjað, við erum rosalega spenntar, eiginlega bara að pissa í okkur (hlátur). Þarna verður Guðmundur Óskar sem gerði plötuna með okkur, hann er hljómsveitarstjóri. Við verðum ellefu á sviðinu, tökum nýja, skástrik, eldgamla efnið (hlátur). Þetta er náttúrulega líka afmælið okkar þannig að okkar helstu lög verða einnig tekin.“

Hvað annað er fram undan hjá ykkur?

„Við verðum með tvenna jólatónleika í Iðnó, 6. og 20. desember, sem verður frábært. Ekta jólastemning. Við verðum svo á Airwaves núna í nóvember, og förum síðan til Færeyja. Það er nóg að gera.“

Nýjasta plata Ylju, DÆTUR, má hlýða á hér að neðan.

Miðasala á útgáfutónleika Ylju fer fram hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Strokufangar á Íslandi

Strokufangar á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

50-20-30 reglan: Ef þú notar hana verður þú aldrei aftur í fjárþröng

50-20-30 reglan: Ef þú notar hana verður þú aldrei aftur í fjárþröng
Fókus
Fyrir 3 dögum

Emmsjé Gauti fékk sér nýtt flúr – Fékk hjálp við að deyfa sársaukann

Emmsjé Gauti fékk sér nýtt flúr – Fékk hjálp við að deyfa sársaukann
Fókus
Fyrir 3 dögum

18 ára íslenskur drengur skotinn til bana í skotgröfum

18 ára íslenskur drengur skotinn til bana í skotgröfum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kristín í hópi með Rachel Weisz og Daniel Craig: Barnsfæðing og frumsýning í fullum undirbúningi

Kristín í hópi með Rachel Weisz og Daniel Craig: Barnsfæðing og frumsýning í fullum undirbúningi
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta er ástæðan fyrir því að þú átt ekki að senda skilaboð á fyrrverandi: „Sögurnar segja að þú hafir gefið mér klamidíu“

Þetta er ástæðan fyrir því að þú átt ekki að senda skilaboð á fyrrverandi: „Sögurnar segja að þú hafir gefið mér klamidíu“