fbpx
Fimmtudagur 20.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Tom Cruise er ekki of gamall fyrir þennan skít: Stuð og stórfengleg sýnimennska

Tómas Valgeirsson
Miðvikudaginn 1. ágúst 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mission: Impossible: Fallout

Leikstjóri: Christopher McQuarrie
Framleiðendur: Tom Cruise, Paula Wagner
Handrit: Christopher McQuarrie
Kvikmyndataka: Rob Hardy
Aðalhlutverk: Tom Cruise, Rebecca Ferguson, Henry Cavill, Simon Pegg, Ving Rhames

Enn og aftur hættir Tom Cruise lífi sínu fyrir framan tökuvélina, okkur til skemmtunar. Þetta er vissulega rótin að gangverki þessa myndabálks og má segja að allt annað sé aukaatriði; spennandi söguþráður, skemmtilegt samspil persóna eða fjörug keyrsla. Mest af þessu víkur fyrir sýniþörf brjálaða, dvergvaxna Vísindakirkjumannsins til þess að sýna að hann sé einn sá besti í sínu fagi.

En hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er staðreyndin einfaldlega þessi: hann ER einn sá besti, bæði á sviði hinnar deyjandi bíóstjörnu sem og áhættuleikara sem sýnir hvernig skal gera hlutina sem aðrar stórstjörnur myndu seint þora.

Yfirdrifin og ánægð með það

Það er skemmtilegt mynstur komið hjá þessum Mission: Impossible myndum. Sléttu-tölu myndirnar (2, 4, 6) eru lifandi teiknimyndum líkari á meðan oddatölumyndirnar fóta sig örlítið meira í raunsæið eftir allra bestu getu. Að því sögðu, þá er sjöttu (og hingað til allra sterkustu) myndinni nákvæmlega ekkert heilagt þegar kemur að hreinræktuðu afþreyingargildi, tilkomumiklum atriðum, ringulreið og keyrslu. Söguþráðurinn er flæktur en gengur upp, hópurinn nýtur sín til botns og þegar líður að dýnamískum og háskrípalegum lokaþriðjungi er áhorfandinn annaðhvort með eða ekki.

Ef til vill hefur engin mynd í seríunni verið jafn yfirdrifin og þessi síðan John Woo-eintakið frá aldamótunum og er það nokkuð mikið sagt. Heppilega er það ekki týnt fyrirbrigði hjá aðstandendum að einbeita sér sterkt að hjartahlýju og sál innan hóp leikenda og tekst ágætlega til að ýta undir mannlega þáttinn. Melódrama með smávægilegu glassúri fylgir að sjálfsögðu með, og tekur smástund að kyngja, en í þessu tilfelli nær handritið að innsigla það sem hluta af stemningunni og ætti að reynast fullnægjandi fyrir fólk sem hefur fylgt myndabálknum í áraraðir.

Ekkert án hópsins

Það gerist örsjaldan í þessum myndum að áhorfandinn fái að kynnast ofurhuganum Ethan Hunt (Cruise) af einhverju viti. Þriðja myndin í seríunni kom aðeins inn á hans persónuleika og bakgrunn en Fallout flytur það lengra. Þetta skiptir heilmiklu í hasarmynd sem leggur jafnmikið upp úr sjónarspili eins og þessi gerir, að lykilhetjan sé ekki bara viðtengjanleg á einhvern máta, heldur meira en bara pósandi hasargarpurinn sem hann hefur átt til að breytast í.

En Cruise – rétt eins og Hunt sjálfur – væri í raun ekkert án hópsins sem umkringir hann. Þar koma Simon Pegg, Ving Rhames og sérstaklega eðaltöffarinn Rebecca Ferguson sterk inn. Alec Baldwin kemur prýðilega í stað fjarveru Jeremy Renner (þó hans sé að einhverju leyti saknað líka) en Henry Cavill bætir upp sína takmörkuðu leikgetu með trylltri nærveru. Þarna kemur hann hlaðinn byssum sínum og ómetanlegri mottu sem í sameiningu móta algjöra maskínu og góða viðbót í seríuna. Hefði svo sem ekki verið leiðinlegt að gefa Angelu Bassett meira til þess að gera, en gersemarnar eru ekki alltaf veittar á silfurfati.

Adrenalínsprauta í lagi

Mission: Impossible – Fallout er fyrsta myndin í seríunni þar sem leikstjóri situr við stjórnvölinn oftar en einu sinni. Hingað til hafa myndirnar notið góðs af því að búa yfir mismunandi stílbrögðum ólíkra leikstjóra (sem er sérlega mikill kostur þegar stór hluti þessara mynda eru afskaplega svipaðar í efnistökum), en leikstjórinn og handritshöfundurinn Christopher McQuarrie þverbrýtur þessa reglu en matreiðir um leið allt öðruvísi ræmu en síðast (sem sækir í þokkabót smávegis í Christopher Nolan-takta); ekki aðeins yfirdrifnari, heldur sjálfsöruggari, umfangsmeiri og metnaðarfyllri heldur en hefur viðgengist áður.

Kvikmyndataka, stíll og sérstaklega tónlist er til háborinnar fyrirmyndar, af hasarmynd að vera, og rýkur svoleiðis púlsinn upp í hverri hasarsenunni á eftir annarri – þrátt fyrir að útkoman sé í allflestum tilfellum fyrirsjáanleg. Slagsmálasenurnar gefa frá sér mátuleg högg (byssurnar hjá Cavill eiga stóran þátt í því) og eltingarleikir eða áhættuatriði hitta rakleiðis í mark, bæði með sýnimennskunni einni og flottri samsetningu.

Það má ýmislegt segja um þessa mynd ef holur í söguþræði eða endurtekningar eru til umræðu, en Mission: Impossible – Fallout veit 100% hvað hún er að gera í stærri sveiflunum, mokar ofan í aðdáendur seríunnar það sem þeir búast við og kunna að meta, en stendur samstundis hátt yfir öðrum adrenalínsprautum síðustu missera. Hún er stór, hún er rugluð, hún er gaman – og kemst bæði upp með að taka sig alvarlega og vera eins absúrd og henni sýnist. Klikkaði Krúsarinn er ekki orðinn of gamall fyrir þennan skít. Hvenær og hvort það gerist á enn eftir að koma í ljós, en þessi sería virðist hvergi nálægt því að missa dampinn, frekar en aðalleikarinn þegar hann er kominn á fullu í hlaupagírinn. Fallout gæti þó orðið erfitt að toppa úr þessu, en Krúsarinn og félagar mega endilega reyna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fólk opnar sig um fáránlegar ástæður fyrir brottrekstri úr starfi – „Sé ekki eftir neinu“

Fólk opnar sig um fáránlegar ástæður fyrir brottrekstri úr starfi – „Sé ekki eftir neinu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu fjallkonuna í ár – Flutti ljóð eftir Bubba Morthens: „Landið okkar flokkar ekki fólk“

Sjáðu fjallkonuna í ár – Flutti ljóð eftir Bubba Morthens: „Landið okkar flokkar ekki fólk“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“