fbpx
Mánudagur 21.júní 2021
Fókus

Ari Alexander var með líkfundarmálið í maganum í fjórtán ár

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 3. október 2018 20:00

Ari Alexander. „Ég upplifi mig alltaf svolítið eins og útlending, allstaðar.“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í október verður kvikmyndin Undir halastjörnu frumsýnd. Hún er byggð á líkfundarmálinu svokallaða frá árinu 2004 sem öll þjóðin fylgdist með. Myndin er fyrsta leikna kvikmynd Ara Alexanders Ergis Magnússonar í fullri lengd en hann hefur lengi starfað við kvikmyndagerð, myndlist og fleira. DV ræddi við Ara um myndina, föðurmissinn og Síberíu en þaðan fluttist móðir hans til Íslands á sjöunda áratugnum.

 

Afi dó á vígvellinum

Það styttist í frumsýningardag og leikstjórinn hefur í mörgu að snúast. Hann þarf að vinda sér til Noregs í lokafrágang á hljóðvinnslu því allt þarf að vera fullkomið þegar stóri dagurinn rennur upp. Við erum stödd á heimili hans í miðbæ Reykjavíkur í snoturri íbúð með mörgum listmunum. Listin hefur fylgt Ara alla tíð og bæði foreldrar hans og systkini haft sitt viðurværi af sköpun.

Æska Ara og uppruni hefur mótað hann alla tíð. Hann er alinn upp í leikarafjölskyldu, þriðja barn Magnúsar Jónssonar og Kjuregej Alexöndru Argunova sem kemur frá Rússlandi.

„Mamma kemur frá Jakútíu í norðausturhluta Síberíu,“ segir Ari. „Hún missti föður sinn ung. Afi var einn af þeim sem var sendur á vígvöllinn í stríðinu þegar Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin og kom aldrei til baka. Hann var aðeins 27 ára gamall þegar hann féll í Úkraínu. Stríðið var mikil blóðtaka fyrir landið og 27 milljónir sem týndu lífi. Ungir strákar úr veiðimannasamfélögum á borð við Jakútíu voru óspart settir í fremstu víglínu og notaðir sem byssufóður.“

Snemma kom í ljós að Kjuregej hafði hæfileika á listasviðinu og vann hún hæfileikakeppni í sinni heimaborg. Í Sovétríkjunum var ætlast til þess að hæfileikafólk gengi menntaveginn og sneri til baka til að auðga sína heimabyggð. Hún fór því með Síberíuhraðlestinni vestur til höfuðborgarinnar Moskvu, margra daga ferðalag, til þess að innritast í háskólanám.

„Ég hef oft farið á heimaslóðir mömmu og tekið upp nokkrar myndir þar. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessari baksögu hennar. Í háskólanum í Moskvu kynntist hún Magnúsi, föður mínum, sem var þá í kvikmynda- og leikstjórnarnámi. Hún var í leiklistarnámi en þau bjuggu á sömu hæð á mörg hundruð manna háskólagörðum. Þar var fjöldi skemmtilegs hæfileikafólks og einn daginn fékk hann hana til að strauja skyrtu fyrir sig fyrir skólaball og þau felldu hugi saman.“

Magnús og Kjuregej giftust, bjuggu saman í nokkur ár í Moskvu og eignuðust þar sitt fyrsta barn. Árið 1966 fluttu þau til Íslands en það gekk þó ekki vandræðalaust.

„Þau kláruðu sitt nám í Moskvu en pabbi missti trúna á sovéska kerfinu. Það reyndist hins vegar nokkuð erfitt fyrir mömmu að fá fararleyfi því það var ætlast til þess að hún nýtti sitt nám heima. En það gekk eftir og ég er fæddur á Íslandi.“

Öðruvísi heimili.
„Það var oft mikið fjör á heimilinu og þess vegna stungum ég og eldri bróðir minn oft af til ömmu minnar.“

Öðruvísi fjölskylda

Ari fæddist árið 1968 og ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík.

„Kristján Davíðsson myndlistarmaður bjó í götunni fyrir neðan mig og sem barn lá maður á glugganum á vinnustofu hans, hann var rammgöldróttur líkt og  Thor Vilhjálmsson rithöfundur sem bjó tveimur götum fyrir ofan mig. Maður skynjaði sköpunarkraftinn og ég bar mikla virðingu fyrir þeim. Síðar á námsárum mínum í París varð Thor einn af mínum nánustu vinum enda var hann þar með annan fótinn. Sannarlega sakna ég samvista okkar og er með stóra mynd af honum í eldhúsinu hjá mér, þannig að Thor er aldrei langt undan.“

Eins og gefur að skilja umgengust foreldrar Ara marga listamenn og annað skapandi fólk og ávallt var eitthvað á seyði. Faðir hans var mikill vinur Ragnars Arnalds, Úlfs Hjörvar, Brynju Benediktsdóttur, Jökuls Jakobssonar, Þórhildar Þórleifsdóttur, Styrmis Gunnarssonar, Vigdísar Finnbogadóttur, Atla Heimis, Guðrúnar Ásmundsdóttur og Ara Jósefssonar ljóðskálds, sem Ari er nefndur eftir. List var haldið að systkinunum, teikningu, tónlist og fleira og því ekki undarlegt að Ari hafi fundið sinn farveg í sköpun.

„Þetta þótti óvenjulegt heimili miðað við heimili skólasystkina minna. Það var alltaf mikið í gangi, mamma og pabbi töluðu alltaf rússnesku sín á milli og við systkinin vorum asísk í útliti eins og mamma, en það var mjög sjaldgæft í Reykjavík á þessum tíma. Það var oft mikið fjör á heimilinu og þess vegna stungum ég og eldri bróðir minn oft af til ömmu minnar, Ragnheiðar Möller, eftir skóla og um helgar. Mér fannst alltaf mikil vernd í því. Hún var með stórt og mikið hjarta, elskaði okkur óendanlega líkt og við hana og hún fór með okkur á endalausa menningarviðburði, frá ungverskum ljóðalestri í Háskólabíói á Superman.“

Hvernig barn varst þú?

„Ég var mjög fjörugur. Eyvindur Erlendsson, leikstjóri og vinur pabba, sagði fyrir mörgum árum að hægt hefði verið að sjá skóförin í loftinu eftir mig, lætin og hamagangurinn væri slíkur að hann skildi ekkert í þolinmæði föður míns gagnvart náttúruaflinu í barninu. Ætli maður hefði ekki verið settur á lyf í dag og kominn með einhverjar greiningar,“ segir Ari og brosir. „Ég var uppátækjasamur og ævintýragjarn.“

Þú minnist á asíska útlitið. Lentir þú einhvern tímann í fordómum vegna þess?

„Ég upplifi mig alltaf svolítið eins og útlending, alls staðar. Þegar ég var yngri var alltaf sagt við mig að ég hlyti að vera útlendingur og ég spurður hvaðan ég væri því ég talaði svo góða íslensku. Þegar ég svaraði Síberíu þá vissi enginn hvar það var. Ég hef aldrei lent í alvarlegu einelti en þurfti oft að hlusta á rasistaathugasemdir sem ég leiddi mismikið hjá mér. Ég var stór fyrir minn aldur og var fljótur að svara fyrir mig. Síðan var systir mín sætasta stelpan í hverfinu og allir strákarnir voru skotnir í henni,“ segir Ari og brosir. „Það var vernd í því. En ég fann alltaf fyrir því að vera öðruvísi, þessi skrýtna skrúfa, og það herti mig. Á unglingsárunum hjálpaði það nú að vera svolítið öðruvísi,“ segir hann kíminn á svip.

 

Missti ömmu og pabba á sviplegan hátt

Ari segir að vegna þess fjörs sem fylgdi listamannslífinu hafi foreldrar hans á endanum skilið. Nokkru seinna, þann 4. febrúar árið 1979, þegar Ari var aðeins ellefu ára gamall, missti hann Ragnheiði, ömmu sína, á sviplegan hátt.

„Við vorum á amerískri kvikmyndahátíð á Hótel Loftleiðum, við bróðir minn, sem var tólf ára, og amma. Við sátum þar á veitingastaðnum og vorum að borða þegar hún fékk skyndilega hjartaslag og lést fyrir framan okkur, á gólfinu,“ segir Ari meyr. „Kallað var á lækni og síðan kom sjúkrabíll og tók hana og við bróðir minn stóðum þarna agndofa, engin talaði við okkur. Allt í einu sagði einhver maður: voru ekki þessir drengir með henni? og hann keyrði okkur heim. „Þetta fékk mjög á mig. Ég var ekki aðeins að missa ömmu mína heldur minn besta vin.“

Ellefu mánuðum síðar dundi annað áfall yfir. Eftir skilnaðinn flutti faðir hans til Bandaríkjanna en hann ætlaði þá að skipta um starfsvettvang og snúa sér að sálfræði. Hann var við framhaldsnám ytra þegar hann féll frá eftir hjartaáfall aðeins 41 árs gamall.

„Hann hafði fengið vægt áfall skömmu áður og læknarnir voru búnir að segja honum að slaka á. En hann var mikill orkubolti og gat það ekki. Svo dó hann bara, var brenndur og fluttur heim í krukku.“

Þetta hefur verið erfiður tími?

„Já, þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði það að fólk gæti farið úr þessari veröld. Það var áfallið og síðan var ekkert unnið með þetta. Ég man eftir að mamma faðmaði mig en svona hlutir voru ekkert ræddir á þessum tíma, þetta var bara grátið út í koddanum. Það var fleira í gangi á þessum tíma. Mamma hafði kynnst öðrum manni sem ég kunni ekki vel við og við höfðum flutt til Árósa í Danmörku. Eitt kvöldið í desember kom skeyti heim til okkar, mamma var með leikhóp úti á landi og við systkinin ein heima. Skeytið kom frá Friðriki Páli, föðurbróður mínum, og bað hann mömmu um að hringja strax því alvarlegir atburðir hefðu átt sér stað. Það var engin sími á heimilinu þannig að við fórum út í símaklefa til að hringja og Friðrik Páll þurfti að tilkynna okkur að pabbi hefði dáið í Bandaríkjunum.“

 

Átti ósýnilegan vin.
„Ég sagði henni að hann væri geimfari og hún svarði, já er hann það og leyfði ímyndaraflinu mínu að þenjast út í ystu æsar hver hann væri og hvaðan hann kæmi.“

Ósýnilegi vinurinn og Erró

Þegar Ari var barn átti hann ósýnilegan vin í kjallaranum heima hjá sér. Hann sagði Ragnheiði ömmu sinni frá þessum vini sínum og hún tók því mjög rólega en af miklum áhuga og spurði mig hvað hann myndi gera.

„Ég sagði henni að hann væri geimfari og hún svaraði: já, er hann það? og leyfði ímyndarafli mínu að þenjast út í ystu æsar um hver hann væri og hvaðan hann kæmi.“

Ragnheiður fór með Ara mörgum árum seinna á listsýningu Errós á Kjarvalsstöðum, árið 1978, þar sem hann sýndi verk úr geimfaraseríunni sinni og Ari tengdi þetta strax við sinn ósýnilega vin.

„Þarna kom þetta saman, ég tengdi svo sterkt við þetta því þarna var alheimurinn minn. Þessi geimfarasýning var því eins konar uppljómun og ég tilkynnti ömmu það formlega að ég vildi verða myndlistarmaður eins og Erró. Aldrei hef ég verið eins hrifinn af sýningu nokkurs manns, hvorki fyrr né síðar.“

Rúmum tíu árum síðar, þegar Ari var myndlistarnemandi í París, hitti hann Erró í fyrsta skipti fyrir tilviljun.

„Ég var nýkominn til Parísar og sat á kaffihúsi með vinkonu minni þegar Erró gekk fram hjá glugganum og ég hljóp út á eftir honum. Ég kynnti mig, sagði honum söguna og að það væri honum að þakka að ég væri í myndlistarnámi. Spurði hann hvort ég mætti heimsækja hann á vinnustofuna og hann tók því vel. Vinátta okkar þróaðist, ég skrifaði lokaritgerð um hann í listasögu og hann var fyrsti maðurinn til að mæta á sýningar hjá mér. Seinna meir gerði ég heimildamynd um hann og það er alltaf mitt fyrsta verk að fara til hans þegar ég kem til Parísar,“ segir Ari sem augljóslega hlýnar um hjartaræturnar.

Lítur þú á Erró sem fyrirmynd, læriföður eða eitthvað álíka?

„Meira, hann er hin fullkomna fyrirmynd. Hann er svo hlý manneskja og fylginn sjálfum sér, listsköpun sinni og engan þekki ég sem er jafn vinnusamur. Maður er alltaf að leita að pabba sínum þegar maður missir hann svona ungur og einhvern veginn hef ég náð djúpum samskiptum við mér eldri listamenn líkt og Erró, Thor Vilhjálmsson og Sigurð Guðmundsson.“

 

Kynntist fátækt og glæpum í Danmörku

Lífið umbreyttist á unglingsárunum. Ari hafði misst bæði ömmu sína og föður, hann var í nýju landi, með nýjan kærasta móður sinnar, sem hann fyrirleit fyrir drykkju, ofbeldi og aumingjaskap. Hann segist hafa sjálfur breyst sem persóna á þessum árum.

„Ég myndi ekki segja að ég hafi verið beinlínis vondur en ég hlustaði ekki á fólk í kringum mig og fór mínar eigin leiðir. Ég var ekki auðveldur. Til dæmis þegar ég smakkaði áfengi í fyrsta skiptið þá endaði það í slagsmálum og látum. Það var mikil gremja sem braust út. Ég var ósáttur og ákvað snemma að verða sjálfs míns herra.“

En þessi tími þegar sem fjölskyldan bjó í Danmörku var einnig lærdómsríkur og augu Ara opnuðust fyrir heimi sem hann þekkti ekki áður. Þau bjuggu í úthverfi Aarhus sem nefnist Brabrand þar sem töluvert var um fátækt og glæpi.

„Ég kynntist strák þarna, Róberti, sem var sonur afbrotamanns sem hafði verið í fangelsi. Á því heimili, sem var lítil félagsleg íbúð, var varla til neitt að borða og Róbert borðaði kornflexið með vatni af því að það var ekki til mjólk. Ég sá raunverulega fátækt í fyrsta skipti og fólk sem átti samfélagslega mjög erfitt. Strákurinn átti erfitt í skólanum og var byrjaður að leiðast út í smáglæpi en við vorum góðir vinir og ég fann til með þessu fólki. Við tengdumst líka vel í reiðinni, hann út af aðstæðum sínum og ég út af föðurmissinum.“

Hafði þetta mótandi áhrif á þig?

„Já, en á jákvæðan hátt. Ég fékk áhuga á þeim sem eru minni máttar. Hvernig fólk kemst af í gegnum tilveruna.“

Vann hjá Báru Kemp.
„Ég var alltaf að leita að hlýju frá einhverjum eldri, foreldrahlýju, og fann hana vissulega á hárgreiðslustofunni.“

Fyrsta hárgreiðsluverkefnið var Ungfrú Íslands

Þegar Ari var fimmtán ára flutti fjölskyldan aftur til Íslands. Þá var Ari farinn að líta á sig sem fullorðinn mann og líf hans tók óvænta stefnu. Í starfsnámi í níunda bekk sótti hann um að læra hjá ljósmyndara. En við hliðina á ljósmyndastofunni var hárgreiðslustofa Báru Kemp og einn daginn sá hann að þar var verið að greiða keppendum fyrir keppnina Ungfrú Ísland. Hann heillaðist svo að hann bað um að fara þangað í starfsnám.

„Bára tók því vel og mér líkaði svo vel að þegar skólinn var búinn mætti ég til hennar og tilkynnti henni að ég ætlaði að fá vinnu þarna.“

Var þetta svona skemmtilegt?

„Já, ég var handlaginn en ég heillaðist af félagsskapnum þarna. Þetta var stór stofa og þangað komu konur á öllum aldri. Ég var alltaf að leita að hlýju frá einhverjum eldri, foreldrahlýju, og fann hana vissulega á hárgreiðslustofunni. Ég hef alltaf átt auðvelt með að tengjast eldra fólki.“

Ari starfaði á stofunni samfara námi í Iðnskólanum. Fyrsti kúnninn sem hann klippti var Anna Margrét Jónsdóttir, sem var þá nýorðin Ungfrú Ísland.

Varstu ekkert smeykur að fá svo stórt fyrsta verkefni?

„Ég var ekkert hræddur við það,“ segir Ari og hlær. „Aldrei hef ég verið með verkkvíða og Bára gaf mér mjög frjálsar hendur og ég fór að hafa mikinn áhuga á tísku. Þetta var heimur sem ég gat flúið inn í. Ég lít á Báru sem aðra móður mína og fer enn til hennar í klippingu.“

 

Heimildamynd um Breiðavíkurdrengina

Ari fór tvítugur til Parísar, fyrst til að læra frönsku í Sorbonne en innritaðist síðan í amerískan listaháskóla í myndlistardeild í Parsons School of Design og útskrifaðist þaðan með BFA 1996. Einnig ferðaðist hann mikið um Rússland og austurblokkina á þeim árum.

Síðan þá hefur hann unnið að myndlist og kvikmyndagerð, aðallega heimilda- og stuttmyndagerð. Hann hefur einnig fengist við að tengja saman viðskiptalífið og listir, stjórnaði Gallery GAMMA með Jóni Proppé í mörg ár og er tengiliður við listamenn hjá fyrirtækjum á borð við Alvogen og World Class. Í tengslum við störf sín ferðast hann um víða veröld og kynnist alls konar fólki.

„Ég hef verið mjög forvitinn og er óhræddur við að taka af skarið,“ segir Ari. „Ég hef fengist við ýmislegt. Til dæmis eftir að ég hætti hjá Báru fór ég að skúra gólf á sumrin á Kleppsspítala, samhliða Parísar-námi mínu, síðan vann ég sem næturvörður með námi til að redda mér. Það kemur enginn annar til að sjá um mig og því hef ég tekið það að mér að vera skemmtanastjóri í lífi mínu. Eftir að ég fór að skapa list fann ég að ég gat farið að velja mér samstarfsfólk og ákveða hvernig ég myndi haga mínum ferli. Þá fann ég mig sérstaklega vel í gerð heimildamynda. Þegar ég starfa við það sem ég hef áhuga á er ég einnig að mennta sjálfan mig og vonandi aðra.“

Ari hefur gert fjölda mynda, til dæmis heimildamyndir um Erró, Sigurð Guðmundsson, Yoko Ono, Magnús Blöndal og Jórunni Viðar. Stærstu verkefnin fram að þessu hafa verið myndirnar Gargandi snilld, sem hann gerði með Sigurjóni Sighvatssyni, sem fjallar um íslensku tónlistarsenuna með Björk og Sigur Rós í broddi fylkingar, og Syndir feðranna, söguna af drengjunum í Breiðavík sem vakti mikla athygli í þjóðfélaginu.

Dagblöðin höfðu áður fjallað um mál Breiðavíkurdrengjanna sem voru beittir miklu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi um margra ára skeið. En mynd Ara í samvinnu við Bergstein Björgúlfsson sýndi þá sjálfa segja frá þessu og féllu þá mörg tár, bæði hjá áhorfendum og á skjánum.

Ari sat í stjórn Breiðavíkursamtakanna í mörg ár og fékk Ragnar Aðalsteinsson lögfræðing til liðs við sig ásamt Sigurði Gísla Pálmasyni til að loka fjármögnun myndarinnar og saman breyttu þeir landslögum.

„Af hverju átti þetta óréttlæti sér stað í þessu samfélagi sem við búum í? Ég hafði áhuga á að vita það og var að leita skýringa á því. Af hverju þurfti þetta að vera svona? Þetta var ekki eina málið af þessum toga sem ég vildi varpa ljósi á. Til dæmis vildi ég gera heimildamynd um geðhvarfasýki strax eftir Breiðavíkurmyndina en það reyndist erfitt að fjármagna það verkefni, allt hefur sinn tíma og það mun koma að því að ég nái slíkri mynd saman.“

Er þetta þín köllun?

„Ekki beint köllun en þetta hefur einhvern veginn komið til mín og ætli Róbert danski æskuvinur minn eigi nú ekki stóran þátt í þessu öllu saman.“

 

Líkfundarmálið stakk rosalega

Undir halastjörnu, sem ber titilinn Mihkel á erlendum tungumálum, verður frumsýnd í október en hún er fyrsta leikna kvikmynd Ara í fullri lengd. Myndin er byggð á lögreglumáli frá 2004 sem í daglegu tali er kallað líkfundarmálið. Lík ungs manns fannst í höfninni í Neskaupstað og um tíma ríkti algjör óvissa um hver maðurinn hefði verið. Síðar kom í ljós að iðrin voru full af eiturlyfjum og rannsókn lögreglu beindist að þremur mönnum sem höfðu staðið að fíkniefnainnflutningi. Ari segir að þetta verkefni hafi komið úr óvæntri átt.

„Ég hef aldrei haft áhuga á lögregludrama. Kvótann af því fyllti ég með því að horfa á Derrick sem unglingur. Síðan hafa þessar sögur verið sagðar í sjónvarpinu, yfirleitt alltaf á sama máta. Góðir lögreglumenn elta vonda glæpamenn. Þegar ég bjó í Danmörku sá ég krakka sem voru uppskriftir að glæpamönnum framtíðarinnar og þessi heimur er ekki svartur og hvítur.“

Af hverju ákvaðst þú að gera mynd um þetta mál?

„Það byrjaði um leið og þetta var að gerast. Á þessum tíma var ég að gefa út Gargandi snilld með Sigurjóni Sighvatssyni framleiðanda og við vorum boðaðir í þáttinn Ísland í dag hjá Stöð 2. Þá var þessi sprengja í samfélaginu í tengslum við þetta mál þar sem þessi Lithái fannst í höfninni. Þetta var ekkert ósvipuð fjölmiðlaathygli og í hinu hrikalega sorglega máli Birnu Brjánsdóttur í fyrra. Mér fannst þetta svo sorglegt og þekkti Eystrasaltslöndin og austurblokkina vel. Við Sigurjón sátum fyrir útsendinguna og ræddum þetta og á móti okkur sat einn af sakborningunum sem neitaði öllu. Hann fór þá að ræða við okkur og þvertók fyrir þetta allt saman.“

Ari og Sigurjón ræddu um sína mynd í þættinum og einn af sakborningunum kom í innslaginu á eftir þeim. Ari bað Sigurjón að bíða þar sem hann varð að fá að fylgjast með þessu baksviðs, þar sem þáttarstjórnandinn gekk á hann.

„Ég spurði Sigurjón hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað með þetta og fór að hugsa um alls konar vinkla á málinu. Það sem mér fannst einna áhugaverðast við þetta var að einn sakborninganna og harður nagli, hafi farið heim til mömmu sinnar þegar allt var komið í óefni. Þetta var kunnuglegt stef í minni fjölskyldu. Yngri bróðir minn hafði leiðst út í óreglu, neyslu og eignast mjög óheppilega vini og faldi sig í kjallaranum hjá henni þegar allt var komið í óefni hjá honum. Ég þekkti marga af þessum strákum og margir af þeim eru nú löngu farnir. Einn af mínum nánu vinum lést úr ofneyslu eiturlyfja. Ég hafði skrifað alls kyns handrit í gegnum tíðina en aldrei neitt tengt dópi eða glæpum af þessum toga, hafði ekki haft áhuga á því. En þetta mál stakk mig alveg rosalega.“

Samúð með persónunum.
„Þegar þú er barn eða unglingur þá ætlar þú ekkert að verða dópisti, glæpamaður eða handrukkari.“

Hefur samúð með persónunum

Ari fór að skoða þetta mál nánar í samstarfi við Kristin Hrafnsson blaðamann og þá einkum bakgrunn leikendanna. Þeir settu sig í samband við móður Vaidasar, mannsins sem lést, í Litháen.

„Hennar saga snerti mig mikið. Hún vildi vitaskuld fá barnið sitt heim en íslenska ríkið vildi ekki borga fyrir flutninginn á líkinu þannig að hann var brenndur og sendur til hennar í krukku. Þetta fannst mér eitthvað svo andstyggilegt,“ segir Ari með fyrirlitningartón. „Þegar þú er barn eða unglingur þá ætlar þú ekkert að verða dópisti, glæpamaður eða handrukkari.“

Hefur þú samúð með þessum persónum?

„Já. Mér fannst vegið að þessu fólki og fór að hugsa: Af hverju má ekki segja svona sögu frá mannlegu hliðinni? Það er kannski einn fjölskyldumeðlimur fastur í þessum heimi og dregur alla vini og fjölskylduna ofan í svarthol. Ég vildi segja frá einhverju meira en aðeins lögreglurannsókninni og framvindu málsins. Það eru áhrifin á fjölskyldurnar og sér í lagi foreldra Vaidasar og hinna strákanna, og einnig þeirra sjálfra. Það ætlaði sér enginn að sitja uppi með dauðan mann í húsinu, en ég er ekki að réttlæta gerðir þeirra.“

Upprunalega var hugmynd Ara að gera heimildamynd um málið en en síðan þróaðist það út í að verða að leikinni kvikmynd. Handritið var til árið 2007 en eftir bankahrunið ári síðar voru úthlutanir Kvikmyndasjóðs helmingaðar og verkefnið sat lengi á hakanum. Árið 2012 kviknaði hugmyndin á ný, handritið var endurskrifað og árið 2016 hófust tökurnar loks.

Hversu nákvæmlega ferð þú eftir sögunni?

„Ég tek mér mikið skáldaleyfi en atburðarásin er nokkurn veginn sannsöguleg nema það að myndin byrjar í Eistlandi 1991 þegar þeir eru börn og sjá í sjónvarpinu að Ísland er fyrst allra ríkja til að viðurkenna sjálfstæði þeirra. Þannig flakka ég einnig í tíma þegar aðalpersóna myndarinnar byrjar að veikjast, förum aftur í æskuna. Ég skoðaði gögnin og ræddi við Arnar Jensson, sem stýrði rannsókn málsins, Svein Andra, verjanda í málinu, og fleiri sem höfðu aðkomu að málinu. En ég vildi halda ákveðinni fjarlægð við málið engu að síður og breytti því sögusviðinu og nöfnum. Ég nota Eistland en ekki Litháen. Síðan tókum við upp senur á Djúpavogi en ekki Neskaupstað þar sem ég þekki Djúpavog betur og handritið var að miklu leyti skrifað þar.“

Með aðalhlutverk myndarinnar fara íslensku leikararnir Tómas Lemarquis og Atli Rafn Sigurðsson og hinir eistnesku Paaru Oja og Kaspar Velberg. Framleiðendur eru Friðrik Þór Friðriksson, Leifur Dagfinnsson og Kristinn Þórðarson hjá True North. Ari segir að tökurnar hafi gengið vonum framar enda hafi undirbúningurinn verið mikill og nákvæmur. Hann sé þó smámunasamur og sé sífellt að laga eitthvað til.

„Að sjá mynd fæðast er alltaf spennandi. Við heimsfrumsýnum á kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður-Kóreu 6. október, forsýning á Íslandi 10. október fyrir samstarfsfólk, fjölmiðla, vini og fjölskyldur, 12. október fer hún í almenna sýningu á Íslandi, við erum í keppni í Varsjá í Póllandi 16. október og Tallinn í Eistlandi 18. október, til að nefna það sem stendur okkur næst.“

 

Með mömmu í Síberíuhraðlestinni

Hjá kvikmyndagerðarmönnum lýkur fæðingu eins verks aldrei án þess að önnur meðganga sé hafin. Ari er með nokkur járn í eldinum, þar á meðal heimildamynd um tengsl Íslands, Rússlands og Síberíu sem ber vinnuheitið, Þráður að rót. Margra ára verkefni um Kristján Guðmundsson myndlistarmann og leikna kvikmynd í fullri lengd eftir stuttsögu Guðbergs Bergssonar, sem heitir Missir.

„Síðan er ég nýkominn frá Síberíu með mömmu. Ég hef verið að skoða sögu Rússlands og hvernig það tengist Íslandi. Einnig hvort tenging milli Síberíu og Íslands sé yfirleitt til staðar.“

Hvernig er þessi staður?

„Eins og að fara á aðra plánetu í jákvæðum skilningi. Þarna er svakalegur kuldi á veturna og svakalegur hiti á sumrin. Jakútía er sú borg þar sem hefur mælst mestur kuldi á jörðinni, um sjötíu gráða frost. Þetta er mikið iðnaðarsvæði, gas, olía og stærstu demantanámur landsins. Miðborg höfuðstaðarins er nýmóðins en ef maður fer í úthverfin og út fyrir borgina er maður kominn langt aftur í tímann. Þetta er fjölþjóðasamfélag. Þarna eru bæði frumbyggjarnir, Jakútar, og svo fólk frá Norður-Rússlandi, Suður-Rússlandi og fleiri stöðum sem fluttist út af iðnaðinum á Sovéttímanum en síðan voru nú keisararnir og Stalín duglegir að senda þangað hugsjóna- og menntafólk í bland við smákrimma sem þeir töldu vera óæskilegt fólk í útlegð og höfðu þeir góð áhrif á samfélagið.“

Ari, móðir hans, Katrín Þorvaldsdóttir uppáhaldsvinkona, Ýr Þrastardóttir, kærasta, ásamt Tómasi Erni tökumanni fóru með lestinni austur, í öfuga átt við leiðina sem hún fór meira en sextíu árum áður til Moskvu. Á leiðinni sagði hún okkur ótrúlegar sögur af stöðum og fólki.

„Mamma á systkini og stóra fjölskyldu þarna. Þegar nánasta fjölskyldan hittist á móti voru það um 180 manns.“

Hvernig fólk er þetta?

„Þetta er hjartahlýtt fólk og ég finn sterka tengingu við náttúruna í gegnum það. Þegar ég kom þangað fyrst fyrir meira en þrjátíu árum var ég yfir mig hrifinn og síðan höfum við mamma farið margoft. Það er erfitt að lýsa þessu í orðum því þetta er sérstakur staður, þú verður að upplifa hann. Við Íslendingar þekkjum þennan stað ekki. Það Rússland sem birtist okkur í fjölmiðlum er aðeins Evrópuhlutinn. Rússland er ellefu tímabelti og þar af er spannar Síbería níu.“

Lítur þú á þig sem Jakúta?

„Fyrst og fremst er ég Íslendingur en ég á þennan uppruna í gegnum mömmu sem mér þykir vænt um. Ég hef fylgst vel með Rússlandi síðan ég var smástrákur og séð það þróast úr Sovétríkjunum yfir í nútímann. Mér hefur alltaf litist ofsalega vel á land og þjóð og fundist það fá ósanngjarna umfjöllun hér heima og á Vesturlöndum. Þegar ég var barn man ég eftir að aðrir töluðu um allt hræðilega vonda fólkið í Rússlandi en ég þekkti ekkert nema hlýjuna, ástina og umhyggjuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ingó opinberar ástina

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Háðsdeila Kristínar Péturs – Gefur lítið fyrir niðurstöðu Neytendastofu og merkir #ekkiad

Háðsdeila Kristínar Péturs – Gefur lítið fyrir niðurstöðu Neytendastofu og merkir #ekkiad
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ljótasti skilnaður New York – Segir 10 milljónir á mánuði ekki nóg til að viðhalda lífsstílnum

Ljótasti skilnaður New York – Segir 10 milljónir á mánuði ekki nóg til að viðhalda lífsstílnum