Guðmundur Stefán Gíslason keyrir þrisvar í viku frá Ísafirði til Reykjavíkur


„Ástæðan fyrir því að ég nenni að leggja þetta á mig er einföld. Mér finnst bara ofboðslega skemmtilegt að tefla,“ segir skákmeistarinn Guðmundur Stefán Gíslason í samtali við DV.
Nú standa yfir tvö fjölmennustu skákmót ársins á höfuðborgarsvæðinu þar sem sterkustu skákmenn landsins etja kappi. Annars vegar Skákþing Reykjavíkur sem Taflfélag Reykjavíkur skipuleggur og Nóa-Siríus-mótið sem Skákfélagið Huginn og Skákdeild Breiðabliks standa fyrir. Óhætt er að segja að þátttaka Guðmundar veki talsverða athygli enda býr hann á Ísafirði og ferðast þaðan í skákirnar sem tefldar eru að kvöldi og geta tekið allt að 5 klukkutíma hver. Teflt er þrisvar í viku í mótunum, Nóa-Siríus-mótið fer fram á þriðjudagskvöldum og Skákþingið á miðviku- og sunnudögum.
„Ég fylgist vel með veðurspánni og flýg þegar þess er kostur. En það er ekki hægt að treysta á flugið og því þarf ég oftast að keyra á milli. Það tekur mig um sex klukkustundir,“ segir Guðmundur. Þegar þessi orð eru skrifuð eru þrjár skákir búnar í Skákþinginu og ein í Nóa-Siríus-mótinu og hefur Guðmundur unnið allar sínar skákir. Það má því búast við að hann verði í toppbaráttunni í báðum mótum sem er mikið afrek. „Ég keyri suður fyrir skákina á þriðjudagskvöldið og gisti í bænum þá nótt. Síðan klára ég skákina á miðvikudeginum, keyri vestur snemma á fimmtudegi og er yfirleitt mættur til vinnu á hádegi. Um helgar keyri ég síðan suður á laugardegi, tefli á sunnudeginum og keyri til baka um kvöldið,“ segir Guðmundur.
Hann starfar sem verkstjóri hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvör á Hnífsdal og kann vinnuveitanda sínum bestu þakkir. „Þetta væri ekki hægt nema að vinnuveitandinn sýndi mér skilning,“ segir Guðmundur. Hann er 52 ára gamall og hefur sett sér það markmið að verða alþjóðlegur meistari í skák. Til þess þarf hann aðeins að hækka á skákstigum.
Til þess að ná markmiði sínu leggur hann ríka áherslu á að halda sér í góðu líkamlegu formi. „Ég hleyp mikið og var einmitt að skrá mig í mitt fyrsta maraþonhlaup í Amsterdam síðar á árinu. Ég stefni á að verða heimsmeistari öldunga í framtíðinni, þá tek ég þá á úthaldinu,“ segir Guðmundur léttur.