Ian Wright, goðsögn Arsenal, hefur ekkert heyrt í góðvini sínum Farhad Moshiri sem er eigandi Everton.
Wright og Moshiri voru í reglulegu sambandi um tíma en sá fyrrnefndi hefur ekkert heyrt í vini sínum undanfarið.
Gengi Everton hefur verið í raun ömurlegt á þessu tímabili og er góður möguleiki á að liðið sé á leið niður með sama áframhaldi.
Frank Lampard er stjóri Everton í dag en hann er að vinna með líklega versta hóp Everton til margra ára.
,,Þetta er eins og lið sem er ekkert að hlusta á það sem stjórinn segir þeim að gera. Þeir eru ekki nálægt því að vera á réttum stað,“ sagði Wright.
,,Ég hef ekki heyrt frá Moshiri í langan tíma. Þú veist ekki hvað er í gangi þarna. Allt virðist vera að springa og svo er Frank að reyna að fá liðið til að standa saman.“
,,Sjálfstraustið er lágt og það er útlit fyrir að liðið ætli að hrapa og það mjög fljótt.“