fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Stefanía ósátt við Biggest Loser: „Þetta er veganestið sem þau gefa 19 ára, tæplega 180 kílóa dreng, út í lífið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. september 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það kom strax fram í þáttunum að hann Áki hafði orðið fyrir einelti á vinnustað sínum, blikksmiðju á Akureyri. En núna var hann sleginn á bólakaf af liðsfélögunum sínum. Hvar er eiginlega mannlegi þátturinn? Þarna birtist einelti í sinni grófustu mynd,“ segir Stefanía Fjóla Elísdóttir, móðir Áka Pálssonar, sem var sendur heim úr Biggest Loser eftir annan þátt.

Stefanía er bæði ósátt við að sonur hennar hafi verið sendur heim í kjölfar þess að hafa misst nokkur kíló í vikunni og við þá framkomu sem sonur hennar varð fyrir í þáttunum og hún telur hafa verið niðurbrjótandi.

„Áki var kvíðinn og með efasemdir um eigið ágæti þegar hann skráði sig til þátttöku. En honum leið þó eins og hann væri kominn með einn fingur á björgunarhringinn sem Biggest Loser var að rétta honum. En hvað gerist þá? Hann var sendur heim, ekki af því hann hafði lést minnst heldur af því bara! Þetta eru þættir sem eiga að ganga út á fagmennsku og ættu að snúast um að hjálpa fólki að ná tökum á lífshættulegum vandamálum. Einelti og lítilsvirðing þegar um líf og dauða er að tefla er nokkuð sem mér finnst ekki eiga heima í Biggest Loser,“ segir Stefanía sem jafnframt bendir á að Gurrý hafi sjálf sagt við Áka að hann væri lífshættulega feitur. Í tilefni af því spyr Stefanía hvernig að geti þá verið til bóta að senda hann út úr keppninni.

„Það var ljóst frá upphafi að það átti að koma mér heim eins fljótt og hægt var“

Áki segir sjálfur að honum hafi þótt forsendurnar fyrir því að hann var sendur heim úr keppninni mjög undarlegar. Þess má geta að hann léttist ekki minnst af keppendum vikunnar. Rétt er að skýra fyrirkomulagið út fyrir þeim sem ekki hafa séð þættina. Áki var keppandi í hinu svokallaða bláa liði sem er undir stjórn þjálfarans Gurrý en Evert var þjálfari rauða liðsins. Eftir hvern þátt lenda fjórir keppendur, tveir úr hvoru liði, undir hinni svokölluðu gulu línu. Það eru þeir keppendur sem hafa lést minnst í vikunni sem hlutfall af líkamsþyngd sinni. Allir keppendurnir léttust mikið í vikunni en því þyngri sem keppendur eru því meiri þyngd þurfa þeir að léttast um til að halda sér inni þar sem miðað er við hlutfall af líkamsþyngd. Niðurstaðan var jafnframt sú að rauða liðið hefði lést meira en bláa liðið, sem hlutfall af líkamsþyngd, og þess vegna kom það í hlut bláa liðsins að senda annan af keppendum sínum sem voru undir gula strikinu heim.

Liðsfélagar Áka ákváðu að kjósa hann út úr þættinum og þetta telja bæði hann og móðir hans vera mjög undarlega ákvörðun. Stefanía segir að þetta séu vond skilaboð til kornungs manns sem er að berjast við lífshættulega offitu.

„Það var ljóst frá upphafi að það átti að koma mér heim eins fljótt og hægt var,“ segir Áki.

Áki var þyngstur um 180 kíló en hefur lést undanfarið
Áki var þyngstur um 180 kíló en hefur lést undanfarið

Talaði of mikið og var settur í þagnarbindindi

Stefanía segir að sú ákvörðun að kjósa Áka úr þættinum hafi ekki verið eina dæmið um slæma framkomu sem honum var sýnd. „Hann Áki á það til að tala mikið ef hann verður mjög stressaður eða er illa fyrir kallaður. Og eins og nærri má um geta þá var hann undir miklu álagi í Biggest Loser. Gurrý skipaði honum í þriggja daga þagnarbindindi í þætti tvö, ákvörðun sem kom því ekkert við hvort hann léttist eða ekki, en svona til að brjóta sjálfstraust hans alveg niður,“ segir Stefanía sem telur að þættirnir séu mjög niðurbrjótandi fyrir þátttakendurna.

„Það er alveg nógu mikil niðurlæging fyrir hann að taka þátt en það er hans ákvörðun. En síðan er reynt að troða eins og hægt er á keppendum og láta þá líta ógeðslega út. Þetta gengur út á að keppendurnir séu aumingjar og lúserar. Þeir eru illa til fara og þeim er stillt upp sem andstæðum við þjálfarana sem eru í þröngum Reebook-fatnaði og með alla vöðva hnyklaða, “ segir Stefanía sem jafnframt blöskrar orðbragð og framkoma Gurrýar í þáttunum: „Hún sagði við þau: „Ef þið hélduð að ég væri tussa þá ætla ég að láta ykkur vita að ég er algjör tussa.“ Svona talar maður ekki við fólk og hún peppar ekki upp sitt lið með svona orðbragði. Síðan það sem hún segir við Áka: „Ætlarðu að verða 200 kíló á næsta ári? Ætlarðu svo að verða 240 kíló? Ætlarðu svo að vera fokking dauður!“ Þetta er bara niðurbrjótandi framkoma sem skilar engu góðu.“

Stefanía bendir á að þó að Áki eigi til að tala dálítið mikið sé hann mikið gæðablóð og þess vegna skilur hún ekki þá andúð sem liðsfélagar hans og þjálfarinn Gurrý hafi sýnt honum.

Áki heldur áfram að léttast

Eftir að Áki var sendur heim tekur við svokölluð heimakeppni hjá honum. Gurry er þá í símasambandi við hann en að hans sögn er sú eftirfylgni mjög lítil. Hann hefur hins vegar náð ágætum tökum á því að borða hollan mat og hefur haldið áfram að léttast. Hefur hann nú lést töluvert mikið frá því hann hóf þátttöku í Biggest Loser.

„Ég vil léttast á mínum hraða. Ég vil ekki verða eins og þeir sem léttast allt of hratt og kolfalla síðan. Ef maður fer í algjörar öfgar eru miklu meiri líkur á því að maður falli,“ segi Áki.

Gurrý hefur fulla trú á Áka

DV náði sambandi við Gurrý, þjálfara bláa liðsins í Biggest Loser. Gurrý, eða Guðríður Erla Torfadóttir, vildi ekki tjá sig um þessa gagnrýni og sagðist telja eðlilegra að framleiðandi þáttanna, SagaFilm, svaraði fyrir framkvæmd og fyrirkomulag þáttanna.

„Ég vil hins vegar koma því á framfæri að mér þykir afskaplega vænt um hann Áka og ég gerði allt sem ég gat gert fyrir hann á þessum stutta tíma sem gafst. Ég hef líka fulla trú á því að hann eigi eftir að standa sig vel. Þetta er það eina sem ég vil segja um þetta,“ sagði Gurrý.

Jón Haukur Jensson, yfirframleiðandi hjá Saga Film, vildi lítið tjá sig um þessa gagnrýni að öðru leyti en því að þetta væri einfaldlega format þáttanna, þátttakendur kysu hver aðra út. Að öðru leyti taldi hann rétt að Þórhallur Gunnarsson, sem ber ábyrgð á framleiðslu þátttanna, svaraði gagnrýninni. Ekki náðist samband við Þórhall við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga