Dauði hans hefur vakið talsverða athygli þar sem hann er talinn hafa óafvitandi komist í snertingu við eiturefnið eftir að hann fann óreyktan kannabisvafning á gangstétt.
Michael starfaði við þrif í Riverside-spilavítinu í Laughlin í Nevada og fann hann vafninginn fyrir utan hótelið.
Snemma þennan örlagaríka dag sendi hann kærustu sinni mynd af vafningnum og lét hann fylgja með þau skilaboð að í dag „væri happadagurinn“ hans.
Þá sýndi hann samstarfsfélögum sínum jónuna og segir kærasta hans að hann hafi ætlað að bjóða þeim að reykja jónuna með sér eftir vinnu. Rúmum tveimur klukkustundum eftir að hann sendi myndina fannst hann meðvitundarlaus og lést hann skömmu síðar.
Dánardómstjóri sem framkvæmdi krufningu á líkinu komst að þeirri niðurstöðu að Lordson hafi látist úr óviljandi fentanýl-eitrun. Um er að ræða afar öflugt verkjalyf sem er notað við miklum sársauka í litlum skömmtum, en á síðari árum hefur efnið verið þekkt sem ein helsta orsök dauðsfalla hjá fíkniefnaneytendum.
Tamula Mercer, amma Michaels sem ól hann upp frá því að hann var tveggja ára, segir að barnabarn hennar hafi ekki neytt eiturlyfja. „Hann reykti stundum gras, því það er löglegt hérna, en hann forðaðist áfengi og öll sterkari efni.“
Talið er að vafningurinn sem Michael fann hafi innihaldið fentanýl en ekki liggur fyrir hvort honum hafi tekist að reykja hann eða einfaldlega dáið eftir að hafa handleikið hann. Tamula segir að það gildi einu – fentanýlið í jónunni hafi valdið dauða hans.
Í frétt Mirror kemur fram að eftir andlát sonarsonar síns hafi Tamula gengið til liðs við samtök sem fræða almenning um hættuna af fentanýli og berst hún fyrir því að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll. „Ef við getum bjargað einu lífi, þá get ég litið svo á að dauði Michaels hafi ekki verið til einskis,“ segir hún.